Fara í efni

FRÉTTABLAÐIÐ OG SAMSTÖÐIN FJALLA UM LANDSÖLU

Það vill brenna við að værukær stjórnvöld komist upp með að þegja af sér mál sem brenna á þjóðinni. Jafnan þegar umræðan gýs upp um slík mál. hvort sem er sölu á landi til útlendinga eða íslenskra auðmanna, gjaldtöku við nýjar náttúruperlur, að ekki sé minnst á önnur mál sem almannaviljinn er tvímælalaust gagnstæður við stjórnarstefnu allra ríkisstjórna, þá er ráðið í Stjórnarráði og á Alþingi einfalt: Bíða og þegja.
Og ef stjórnvöldin komast upp með að þegja nógu lengi án þess að umræðu sé fram haldið í þjóðfélaginu og kröfum um úrbætur haldið á loft þá sleppur stjórn og þing fyrir horn.
Þetta er átt við þegar talað er um að þegja af sér óþægileg mál.
Það gladdi mig að lesa leiðara Fréttablaðsins sem fylgdi eftir fréttaflutningi blaðsins af landsölu í Borgarfirði og vill að stjórnvöld sýni lit.

Hvernig?

Blaðið vísar til gagnrýninnar umræðu úti í þjóðfélaginu og að þrátt fyrir lagabreytingar þá haldi landsala út fyrir landsteina áfram og auðkýfingar, erlendir og innlendir, haldi áfram að safna landi. Framhjá engum hafi farið hvað landsalan getur haft í för með sér og getur haft í för með sér. Í leiðaranum er meðal annars vitnað í orð mín þess efnis að ekkert dugi minna en blátt bann við sölu á landi til útlanda, fyrirvarar í lögum dugi skammt þótt það skuli vissulega sagt að heimildarákvæðin gagnvart sölu út fyrir EES hafi verið þrengd hvað umfang jarðeigna snertir þótt reynslan sýni að jafnvel á litlum svæðum geti rúmast mikil verðmæti. Gagnvart EES borgurum er allt jafn galopið og gagnvart Íslendingum. Þar tel ég lítið sem ekkert hald í fyrirvörum.

“Þá er bara að setja á fót matsnefnd ásættanleika og sanngirni”

Það er þó ekki þetta sem leiðarahöfundur Fréttablaðsins staldrar við heldur hvernig eigi að auðvelda þeim sem vilja bregða búi að selja jarðir sínar á sanngjörnu verði jafnframt því sem tryggt verði að jarðirnar fari ekki í brask. Þar hef ég bent á að ríki og sveitarfélög verði að koma til skjalanna og kaupa landið. Í niðurlagi leiðarans er vitnað í orð mín: „Land sem ekki fer í ásættanlega nýtingu og er ég þá ekki að tala um vindmyllur, á að ganga til samfélagsins fyrir sanngjarnt verð,“ bætir Ögmundur við. Segir hann að leggjast verði yfir verðlagninguna sem megi ekki verða ríki og sveitarfélögum ofviða. Þá er bara að setja á fót matsnefnd ásættanleika og sanngirni.
Undir þessa áskorun leiðarahöfundar Fréttablaðsins tek ég.

Boðið sæti við Rauða borðið

Í vikunni var mér boðið að Rauða borðinu á Samstöðinni hjá Gunnari Smára Egilssyni að ræða landsölumál og aðgangseyri að náttúruperlum.
Eins og menn munu sjá þegar farið er inn á vefslóð Samstöðvarinnar er hún að þróast sem sífellt öflugri fjölmiðill bæði á vefsíðunni og síðan sem sjónvarpsstöð, alvöru sjónvarpsstöð.

Við Rauða borðið er þeim gjarnan boðið að setjast sem eru tilbúnir að setja upp gagnrýnin gleraugu á samtíðina. Þess vegna þykir mér það alltaf vera heiður eð vera boðið þar sæti.

Umrætt samtal er hér:
https://samstodin.is/clips/eigum-vid-ad-saetta-okkur-vid-ad-audfolk-kaupi-upp-landid/