Fara í efni

FRAMTÍÐARSAGNFRÆÐI BJARNA

DV - LÓGÓ
DV - LÓGÓ
Birtist í DV 20.11.15.
Að einu leyti var ég sáttur við afstöðu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í kjölfar hruns. Hann studdi  að sett yrðu á gjaldeyrishöft. Fulltrúar AGS sáu sem var að annar valkostur var ekki fyrir hendi. Ella yrði gjaldeyrisforðinn, það litla sem til var,  á örskotsstund að engu orðinn. Reyndar fæ ég seint skilið hvers vegna AGS þröngvaði Íslandi á sama tíma að taka himinhá lán til að byggja upp gjaldeyrisforða tímabundið með ærnum vaxtakostnaði þótt ljóst væri að hann yrði ekki notaður í bráð. En það er önnur saga.

Höftin björguðu okkur

Það breytir því ekki að stuðningur AGS við höftin kom sér vel. Bæði gegn kreddufólki á hægri kanti stjórnmálanna sem mátti ekki á gjaldeyrishöft heyra minnst af fagurfræðilegum ástæðum  og síðan gegn  bíró-Kratismanum  sem benti á að samkvæmt „fjórfrelsi" EES væri það hin mesta goðgá að setja hömlur á fjármagnsflutninga og sérlega illa þokkað í Brussel.
Lagasetning, runnin undan rifjum Seðlabankans,  um að setja slitabúin inn fyrir ramma gjaldeyrishafta var annað gríðarlega mikilvægt skref. Sjálfstæðisflokkurinn barðist hatrammlega gegn þessu og Framsókn sat hjá.  En með þessu tvennu, almennu  höftunum og síðan með því að koma böndum á slitabúin var Íslandi sköpuð staða gagnvart hrægammasjóðunum sem klófest höfðu búin.

Óábyrg verslunarelíta

Það hefur verið undrunarefni hve barnaleg og um leið óábyrg  íslenska verslunarelítan hefur verið í umræðu um höftin. Hún hefur dramatíserað meinta skaðsemi þeirra og sannast sagna hef ég oft orðið forviða við að hlýða á talsmenn útflutningsfyrirtækja sem sjálf eru undanþegin höftunum tala þau niður og ýkja neikvæð áhrif þeirra. Umræðan hefur verið mjög ógagnrýnin á þennan veg, einnig af hálfu margra fjölmiðlamanna. Þannig spurði fréttamaður bankasérfræðing í tengslum við fréttir af samningunum við slitabúin, hvort almenningur myndi strax finna fyrir afnámi haftanna. Sérfræðingurinn sagði að á því léki enginn vafi! Staðreyndin er hins vegar sú að almenningur hefur nánast ekkert fundið fyrir höftunum! Öðru máli gegnir að sjálfsögðu um lífeyrissjóðina.

Af illri nauðsyn

Höftin eru eingöngu við lýði vegna þess að þau hafa verið nauðsynleg vörn fyrir Ísland. Ótrúlegustu aðilar hafa hins vegar verið reiðubúnir að fórna hagsmunum Íslands á altari kreddu sinnar. Og lyktir málsin hefðu þurft að verða aðrar. Í stað þess að sýna kröfuhöfum að þess væri ekki að vænta að höftum yrði aflétt í bráð, þeim yrði gert að greiða 39% skatt sem næmi 850 milljörðum, var ákveðið með nær öllum greiddum atkvæðum á Alþingi að fela Seðlabankanum vald til að semja kröfuhafana undan sköttum og skapa þeim hraðbrautir til að flytja fjármagn til síns heima.

Sökudólgurinn fundinn

Og erum við þá komin að fyrirsögn þessa greinarkorns um „sagnfræði framtíðarinnar". Þegar efasemdarmenn hafa leitt getum að því að efnahagskerfið muni ekki geta staðið undir þeim fjárútlátum og gjaldeyrisflutningum sem slitabúin hafa fengið samþykkt og að þá þurfi að öllum líkum að láta áfram gilda höft eða takmarkanir gagnvart öðrum, lífeyrissjóðum og almenningi, þá höfum við þegar fengið nasasjón af viðbrögðunum því sökudólgurinn er fundinn!


Þegar gammarnir eru flognir

Allt hefði þetta gengið upp, að mati fjármálaráðherrans og höfuðsagnfræðings framtíðarinnar, ef ekki hefðu komið til óraunhæfir kjarasamningar. Eða gera menn sér ekki grein fyrir því að samið var um launahækkanir sem nema hundrað milljörðum króna?  Það var alltaf augljóst að slíkan froðukaupmátt væri ekki hægt að flytja úr landi!
Á þennan veg hafa rök Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra legið og þannig munu þau hljóða þegar grynnkar í gjaldeyrisforðanum. Allt hefði farið vel ef almenningur, og þá sérstaklega meintur óábyrgur hluti verkalýðshreyfingarinnar, hefði ekki klúðrað málum. Minnumst þessara yfirlýsinga þegar höftin verða framlengd, að gömmunum löngu flognum úr laupum sínum.