Fara í efni

FRAMSÓKN VILL AÐ ÞJÓÐIN SELJI ÞJÓÐINNI

Hver á raforkukerfið á Íslandi? Skráðir eignaraðilar eru Landsvirkjun, RARIK, Orkubú Vestfjarða og aðrar orkuveitur. En hverjir eiga þessar stofnanir og fyrirtæki? Svar: Landsmenn. Íslendingar sem þjóð eiga raforkukerfið í landinu. Nú vill Framsóknarflokkurinn selja þetta kerfi út úr núverandi eignarhaldi. Og hver á að kaupa? Ja, annað hvort Íslendingar eða útlendingar, segir iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins, Valgerður Sverrisdóttir, en mér kemur fyrst í hug, segir hún, að lífeyrissjóðirnir kaupi.

Höldum þá áfram að spyrja: Hver á lífeyrissjóðina? Á Íslandi eru allir – launamenn og atvinnurekendur skyldaðir að greiða í lífeyrissjóði. Þess vegna  á þjóðin lífeyrirssjóðina. Valgerður Sverrisdóttir er því að leggja til að þjóðin selji þjóðinni raforkukerfið. Með hverjum skyldi Framsóknarflokkurinn helst halda, þjóðinni, Alcoa eða Framsóknarflokknum? Tvennt kann að vera rétt en svari hver fyrir sig.

En að lokum þetta. Þótt þetta hljómi allt farsakennt, og  í anda Framsóknarflokksins eins og hann hefur hagað sér í seinni tíð, þá held ég að þegar allt kemur til alls þá sé það rétt hjá Valgerði Sverrisdóttur, sem haft er eftir henni í fjölmiðlum yfir helgina, að einkavæðing raforkugeirans kunni að færa eignarhaldið úr landi. Tilnefning lífeyrissjóðanna af hennar hálfu, sem væntanlegs eiganda raforkukerfisins, er án efa hugsað sem millilending, í bland til að róa landslýð. Í sjálfu sér er gott til þess að hugsa að kjörtímabilið er bráðum hálfnað. Tvö ár til kosninga er hins  vegar óhugnanlega langur tími – með þann mannskap við stjórnvölinn, sem nú stendur í brúnni.