Fara í efni

FRAMSÓKN LEITAR SKJÓLS HJÁ DÖNSKUM BANKA

Danskur banki hefur varað við fjárfestingum Íslendinga í Danmörku. Bankinn hefur ekki látið þar við sitja því hann hefur jafnframt varað Íslendinga við því að bankakreppa kunni að vera yfirvofandi á Íslandi. Í greiningu sem Danske Equities, dótturfélag Danske Bank, sendi frá sér í vikunni segir m.a. að fjármálakreppa á Íslandi geti haft þær afleiðingar að íslensk fyrirtæki þurfi að losa sig við stóran hluta af fjárfestingum sínum í Danmörku, t.d. í FIH Erhvervsbank, Magasin du Nord, Sterling, fasteignafélaginu Keops, raftækjakeðjunni Merlin og Bang & Olufsen. Á það er bent að þessar fjárfestingar hafi verið fjármagnaðar í evrópskum bönkum og að erfitt kunni að reynast að endurfjármagna lánin vegna spennu í íslenska hagkerfinu.
Svavar Gestsson sendiherra Íslands í Danmörku telur þetta vera samkeppnisviðbragð af hálfu danska bankans sem hugsanlega sjái stöðu sinni ógnað í dönsku fjármálalífi. Hefur Svavar látið til sín taka í opinberri umræðu um þetta efni. Fyrir þetta hefur Svavar Gestsson réttilega hlotið lof enda fátítt að fulltrúar okkar á erlendri grund blandi sér á jafn afgerandi hátt í þjóðmálaumræðuna þegar íslenskir hagsmunir eru í húfi. Hér kann einmitt að vera um mjög raunverulega hagsmuni að tefla. Mjög neikvæð umræða um fjárfestingar Íslendinga og tal um yfirvofandi kreppu hefur tvímælalaust áhrif á lánshæfismat íslenskra banka og þar með þau vaxtakjör sem þeim bjóðast og getur þar eitt hæglega leitt af öðru og skrúfast upp í raunverulega kreppu. Þá er það alls ekki ólíklegt að Danske Bank láti að einhverju leyti stjórnast af eigin hagsmunum. Sé svo er réttmætt og nauðsynlegt að benda á það.
Hitt er svo annað mál að við þurfum að horfa á þessi mál af raunsæi og yfirvegun og vera sjálfsgagnrýnin í þessum efnum. Ekki verður það sagt um Magnús Stefánsson, framsóknarþingmann. Hann kom fram í fjölmiðlum í gær sveipaður skikkju formanns fjárlaganefndar Alþingis. Hann tók undir gagnrýni í garð Danske Bank. Þetta veit Magnús að fellur í kramið hjá landanum því í hugum margra Íslendinga eru grunsemdir um að Danir geti ekki unnt Íslendingum velgengni innan okkar gamla konungsríkis, og skýri það gagnrýni þeirra i garð íslenskra stórfjárfesta! Í skjóli þessa stígur Magnús einu feti framar því hann notar tækifærið og spyrðir stjórnarandstöðuna á Íslandi eins og hún leggur sig saman við danska bankamenn og segir þennan mannskap allan fara með óábyrgan málflutning! Í fréttum RÚV í gær segir: "Magnús sakar stjórnarandstöðuna um óábyrga umfjöllun." Þá er haft eftir Magnúsi að nú þurfi "hagræðingu og aðhald í ríkisrekstri". Sveitarfélögin fá einnig sitt því fréttastofa RÚV hefur eftir Magnúsi að "nánast daglega berist fréttir af fyrirhuguðum framkvæmdum og að sveitarfélögin hafi algjörlega misst böndin af launamálum í vetur að frumkvæði Reykjavíkurborgar." Þessi fordæming af hálfu formanns fjárlaganefndar Alþingis varðar samninga Starfsmannafélags Reykjavíkur og Eflingar um hækkun lægstu launa nú nýverið! Nei Magnús, svona auðveldlega kemst Framsóknarflokkurinn ekki frá verkum sínum! Gagnrýni á stóriðjustefnu Framsóknarflokksins verður ekki afgreidd út af borðinu með þessum hætti. Við hljótum að frábiðja okkur niðurskurð í velferðaþjónustu á vegum ríkisins í komandi fjárlögum til þess að greiða götu stóriðjuáforma Framsóknarflokksins. Það eru þau sem valda þenslunni í íslensku hagkerfi, ekki launahækkanir láglaunafólks. Sem kunnugt er stefnir Framsóknarflokkurinn að því að álframleiðsla verði ráðandi þáttur í efnahagsstarfsemi á Íslandi. Þessi stefna hefur þegar orðið þess valdandi að fjöldi fyrirtækja, einkum á sviði hátækni hafa hröklast úr landi. Þetta hefur stjórnarandstaðan, með Vinstrihreyfinguna grænt framboð í broddi fylkingar þráfaldlega bent á. Gagnrýni erlendra matsfyrirtækja á ríkisfjármálin hljótum við að vilja skoða af alvöru. Þeirri athugun á að beina að lántökum og fjáraustri í virkjunarframkvæmdir í þágu alþjóðlegra auðhringa en ekki að mögulegum niðurskurði á íslenskum velferðarstofnunum.