Fara í efni

FRAMSÓKN Á MÓTI - BSRB?

Sjálfstæðisflokkurinn má eiga það að hann hefur getað tekið gagnrýni á sínar gjörðir frá verkalýðshreyfingunni, þar með talið BSRB. Bandalagið, BSRB, sem ég veiti formennsku hefur verið mjög varfærið þegar umdeild þjóðfélagsmál eru annars vegar en tekið afdráttarlausa afstöðu í málum sem samstaða hefur verið um að samtökin beiti sér í. Þannig hefur BSRB aldrei tekið undir kröfuna, Ísland úr NATÓ herinn burt svo dæmi sé tekið, eða að Ísland skuli vera innan eða utan Evrópusambandsins. BSRB tók ekki heldur afstöðu til þess hvort virkja ætti við Kárahnjúka, aðeins efnahagslegar forsendur voru metnar. Öll þessi málefni höfum við að sjálfsögðu rætt og tekið til þeirra afstöðu en sem einstaklingar, ekki sem samtök. Allt eru þetta mjög umdeild mál í þjóðfélaginu, einnig innan BSRB. Þetta höfum við reynt að hafa jafnan hugfast og nálgast málin á þessari forsendu ef við höfum á annað borð gert það. Það þýðir ekki að málin séu ekki tekin til umfjöllunar. Evrópumræðuna höfum við t.d. tekið mjög föstum tökum. Við höfum með skipulegum hætt reynt að örva umræðu um málefnið og má nefna að þegar EES samningurinn var í undirbúningi gaf BSRB út bækling með rökum sem mæltu með samningum og rökum sem mæltu honum í mót. Einnig krafðist BSRB á þeim tíma þjóðaratkvæðagreiðslu um samninginn. Aðkoma samtakanna var með þessum hætti.

Öðru gegnir hins vegar um einkavæðingu velferðarþjónustunnar. Þar hefur ríkt fullkomin samstaða innan BSRB um að taka beina og afdráttarlausa afstöðu og hefur sú samstaða verið órofa hvort sem í hlut hafa átt stjórnarmenn í BSRB sem eru utan flokka, Faramsóknarmenn, Frjálslyndir, Samfylkingarmenn, Sjálfstæðismenn eða fylgismenn Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs. Öll höfum við verið einhuga um að hafna markaðsvæðingu. Við höfum verið fullkomlega einhuga um að standa vörð um velferðarþjónustuna og grunnþjónustu samfélagsins. Í sameiningu höfum við andæft þegar í þessa þjónustu hefur verið höggvið eða undan henni grafið. Innan BSRB hefur einnig verið fullkomin samstaða um að andmæla þegar gengið er á hlut atvinnulausra, öryrkja eða annarra hópa sem búa við skarðan hlut.

Nú er það staðreynd að allt þetta hefur gerst á því tíu ára tímabili sem Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson hafa setið saman í ríkisstjórn. Ég minnist fjöldafunda vegna uppsagna og kerfisbreytinga í markaðsátt á Landspítalanum, lokunar öldrunardeilda, tilrauna til að skerða kjör atvinnulausra, svikum á samningum við öryrkja, lögbroti á öldruðum vegna almannatrygginga. Að þessu vék ég m.a. í ræðu minni 1. maí síðastliðinn.

Því kunna Framsóknarmenn ekki að taka. Aðstoðarmaður forsætisráðherrans, Björn Ingi Hrafnsson ríður á vaðið og gerir því skóna að ég misnoti BSRB. Hvers vegna í ósköpunum ég hafi ekki sagt frá afrekum ríkisstjórnarinnar á baráttudegi verkalýðsins. Kaupmáttur hafi aukist og velsæld ríki í landinu. Það sé hins vegar ekkert undarlegt að ég sjái ekki afrekin, ég hafi verið á móti stóriðjustefnunni og öðru því sem ríkisstjórnin hefur tekið sér fyrir hendur: "Það er ekkert upp á ríkisstjórnina að klaga þegar kemur að stöðu launafólks og velferðarkerfinu, en vitaskuld má alltaf gera betur." Þar höfum við það.

Áður hafði aðstoðarmaður Halldórs Ásgrímssonar sagt mig misnota BSRB vegna kröfu samtakanna um að tryggt yrði að neysluvatn yrði jafnan í samfélagseign, nokkuð sem BSRB hefur barist fyrir um árabil og lagt geysilega vinnu í, m.a. til að afstýra því að vatnsveitur Íslendinga yrðu einkavæddar. BSRB hefur reynt að örva umræðu um málefnið og benda á afleiðingar erlendis þar sem einkavæðingarleiðin hefur verið farin. Um þetta segir aðstoðarmaður forsætisráðherra:

“Ögmundur Jónasson hefur einnig verið óþreytandi á þingi við að gagnrýna öll áform um breytingu á rekstrarformi vatnsveitna í landinu. Engu má breyta í þeim efnum, ekki einu sinni færa til nútímahorfs, því það stríðir að mati Ögmundar gegn almannahagsmunum. Undir þetta hafa svo félagar Ögmundar að sjálfsögðu tekið undir á þingi og í fjölmiðlum.

Og hvað gerðist svo í vikunni? Jú, mjög óvænt tók stjórn BSRB upp á því að ræða um málefni vatnsveitna á fundi sínum, enda augljós tenging fyrir verkalýðsfélög og í raun undarlegt að ekki skuli fleiri hafa ályktað um þessi mál.”


Og seinna í sömu grein segir Björn:

“Það er naumast hvaða tengingar Vinstri grænir hafa inn í BSRB, sérstaklega stjórnina! Það getur ekki verið að Ögmundur, þingflokksformaður VG, sé að blanda sínum málum inn í störf sín sem formaður BSRB. Það getur bara ekki verið.
Á meðan launþegar hafa svona forystu, sem heldur sig við aðalatriðin og er ekki sí og æ að blanda sér í pólitísk deilumál, eru þeir í góðum málum...”

Um þetta málefni sérstaklega skal vísað í skrif Árna Guðmundssonar formanns Starfsmannafélags Hafnarfjarðar, sjá hér, og Sigurðar Á Friðþjófssonar, upplýsingafulltrúa BSRB, sjá hér.

Baráttan gegn einkavæðingu neysluvatns er ekki einskorðuð við BSRB. Því fer fjarri. Nánast öll verkalýðshreyfing veraldar tekur þátt í þessari baráttu! Hitt er rétt að BSRB hefur sinnt þessu verkefni vel, sjá t.d. hér.

Björn Ingi Hrafnsson hefur verið gerður að formanni Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Á vegum þeirrar stofnunar ferðast hann nú um Afríku og segir hann þetta vera þriðju för sína til þeirrar álfu á vegum íslensku þróunaraðstoðarinnar. Ég hef sagt að í ljósi skrifa sinna um andstöðu BSRB við að einkavæða vatnið, ætti hann að spyrjast fyrir um afstöðu manna til þessa málefnis í fátækum þróunarríkjum sem hann heimsækir. Telja þróunarríkin eignarhald á drykkjarvatni  skipta einhverju máli og hvað með afstöðu verkalýðssamtakanna í þessum ríkjum? Björn Ingi gæti í framhjáhlaupi upplýst menn hvert framlag formanns Þróunarsamvinnustofnunar Íslands hafi verið til umræðu um einkavæðingu á drykkjarvatni í sínu heimalandi. 

Árásir Framsóknarmanna á BSRB marka ákveðin tímamót. Ég kveinka mér ekki undan gagnrýni í minn garð. En tilraunir til að sverta BSRB og gera lítið úr starfi samtakanna þykja mér mjög ámælisverðar og þeim einstaklingum sem í hlut eiga til minnkunar.