Fara í efni

Framfylgir byggðastefnu ríkisstjórnarinnar

Birtist í Mbl
Mikil umræða hefur orðið í þjóðfélaginu vegna áforma Landsbanka Íslands um að loka útibúum á landsbyggðinni eða draga þar stórlega úr þjónustu. Í þessu sambandi hafa verið nefnd útibú á Djúpavogi, Raufarhöfn, Kópaskeri, Vopnafirði, Seyðisfirði, Stokkseyri, Eyrarbakka og víðar. Þetta eru alvarleg tíðindi og tilefni þess að Jón Bjarnason þingmaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs tók málið upp á Alþingi.

Þegar ríkisbönkunum var breytt í hlutafélög vöruðu þingmenn Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs alvarlega við því í umræðum á Alþingi, að með þessari breytingu væri verið að innleiða hugsun sem gengi þvert á þau þjónustumarkmið sem við töldum að ættu að vera í fyrirrúmi í bankastarfsemi. Við bentum á að bankar væru í senn fjármálastofnanir og mikilvæg þjónustutæki við einstaklinga og fyrirtæki. Þar gæti nálægð skipt máli. Þótt það sé vissulega rétt sem fram kemur hjá leiðarhöfundi Morgunblaðsins sunnudaginn 25. nóvember, að þróunin er á þann veg að bankaviðskipti eru að færast yfir á netið, þá fer því fjarri að allir eigi kost á slíkri þjónustu og er þeim sem ekki hafa tök á netinu gert erfitt fyrir þegar allt er metið á mælikvarða hámarksarðsemi. Þar verða verst úti íbúar og fyrirtæki í fámennum byggðarlögum. Þótti mörgum stjórnarliðum málflutningur okkar bera vott um argasta afturhald og gekk þar harðast fram Valgerður Sverrisdóttir bankamálaráðherra.

Nú kveður við nokkuð annan tón hjá sama ráðherra. Haft var eftir Valgerði Sverrisdóttur í Ríkisútvarpinu að lokun útibúa og samdráttur í þjónustustarfsemi á landsbyggðinni gangi þvert á byggðastefnu ríkisstjórnarinnar en því miður geti hún engin afskipti haft af málinu því búið sé að gera Landsbankann að hlutafélagi.

Við þessar yfirlýsingar hljóta ýmsar spurningar að vakna. Er verið að gera grín að landsmönnum? Eða getur það virkilega verið að ráðherrann muni ekki að ein meginröksemdin í gagnrýninni á markaðsvæðingu bankanna var nátengd byggðastefnu? Auðvitað man ráðherrann eftir þeim orðum sem féllu í þessari umræðu, einnig sínum eigin orðum. Ef ekki þá eru þau geymd í þingtíðindum þar sem þau eru öllum opin.

Þingmenn VG bentu á að hlutafélagavæðing Pósts og síma, ríkisbankanna og annarrar þjónustustarfsemi gerði það að verkum að félagsleg sjónarmið yrðu víkjandi og jafnan aðeins spurt um hámarksarðsemi. Við höfum þegar kynnst þessu í lokunum pósthúsa á landsbyggðinni, uppsögnum starfsfólks í almannaþjónustu og nú er semsé byrjað að loka útibúum bankanna.

Því miður er það ekki rétt hjá Valgerði Sverrisdóttur ráðherra að þetta gangi þvert á byggðastefnu ríkisstjórnarinnar. Þetta er einfaldlega byggðastefna hennar. Hún gengur út á að hlutafélagavæða og markaðsvæða á kostnað félagslegra sjónarmiða. Það hefur síðan bitnað harkalega á fámennum byggðarlögum eins og dæmin sanna. Þetta er mergurinn málsins. Ríkisstjórnin og þeir ráðherrar sem þar sitja innanborðs verða að gangast við eigin verkum í stað þess að reyna að skjóta sér undan ábyrgð eins og bankamálaráðherrann reynir nú að gera.