Fara í efni

FRÁBÆR FÚSI

Fúsi - Dagur Kári
Fúsi - Dagur Kári

Í ávarpsorðum Dags Kára, kvikmyndaleikstjóra við frumsýningu Fúsa, nýrrar kvikmyndar eftir hann, sem frumsýnd var dag, sagði hann að hugmyndin hefði kviknað í Leifsstöð fyrir nokkrum árum þegar hann einhverju sinni var þar að bíða eftir flugi. Út um gluggann hefði hann fylgst með öllum þeim sem voru að sýsla í kringum vélarnar, hlaða þær og afferma og svo einnig litlu dráttarbílunum, sem drógu hleðsluvagnana og minntu svo á leikföng. „Mikið rétt" hugsaði áhorfandinn, sem kannaðist við þessa líkingu. „Svo smellti ég í huganum honum Gussa undir stýri í einum slíkum bíl", bætti leikstjórinn við, „ og það var upphafið að kvikmyndinni Fúsa ."
Svo mörg voru þau orð - nánast. Og nánast er hægt að hafa um myndina fá orð. Hún var einfaldlega  frábær, ekki ofsögum sagt að lýsa henni sem gimsteini eins og gert var á auglýsingaplakati og vitnað í dóma sem hún hafði hlotið á kvikmyndahátíð í Berlín.
Leikurinn var framúrskarandi góður. Gunnari  Jónssyni, sem  lék Fúsa tókst fullkomlega að verða Fúsi! Það var mín tilfinning. Ilmur Kristjánsdóttir  var einnig frábær og aðrir leikarar einnig, enda teflt fram sannkölluðu landsliði listamanna.
Kvikmyndatakan og samspil við leikinn var líka fyrsta flokks, margar senurnar verða manni eftirminnilegar svo sterkar voru þær.
En hvers vegna þennn pistil? Mig langaði einfaldlega að lýsa aðdáun minni, þakka fyrir mig en þó fyrst og fremst að hvetja fólk til að sjá þessa mynd. Sjón er sögu ríkari!