Fara í efni

Förum nýjar leiðir

Ræða flutt á fundi í Austurbæjarbíói 27.03. 2003
Góðir félagar úr baráttunni.
Við komum nú saman til að spila, syngja, lesa og tala fyrir friði og gegn hernaðarofbeldi og gegn stríði. 

Ég ætla þó ekki að tala um sprengjuregn, limlest fólk, logandi mannvirki og eyðilögð vatnsból. 
Ég ætla ekki að segja sögur af grimmd þeirra sem af yfivegun og af verkfræðilegri nákvæmni skipuleggja tortímingu fólks. 
Ég ætla ekki heldur að hneykslast á skammsýni eða óbilgirni þeirra sem stýra för. Eða mótsögnunum. Við eigum í höggi við fólk sem ekki er friðsamt sagði George Bush um leið og hann gaf merki til árásar. 
Ég ætla ekki að fara orðum um þá Davíð og Halldór sem segjast láta samviskuna ráða – en nota síðan orðalag  Bandaríkjaforseta og forsætisráðherra Bretlands. Líka þeir segjast vera á móti stríði. En verum raunsæ, segja þeir Bush og Blair, valið stendur á milli okkar og hinna. 
Ég ætla ekki að tala um þetta, heldur ætla ég að spyrja: Hvað getum við gert? 

Ísland hefur í þúsund ár legið norðan við öll stríð. En nú heyrist rödd Íslands í heiminum, ekki sem fulltrúi lýðræðis og skynsemi, heldur sem rödd hinnar auðveldu leiðar, rödd stríðs. Skammsýnir og hugmyndalausir eru ráðamenn Íslands, menn án sjálfstrausts, án skilnings á stöðu og hlutverki smáþjóðar í heimi stórvelda, menn sem líta svo á að þeirra hlutverk sé að velja sér skúrk til að styðja. 

Hlutverk Íslands er að krefjast breyttra aðferða og breyttra viðhorfa. Ísland á að berjast gegn öllum harðstjórum og gera þeim ólíft. Við eigum að vera fulltrúar nýrra stjórnarhátta í heiminum. 

Bylgja ríður nú yfir heiminn. Bylgja lýðræðislegra andmæla. Almenningur lýsir yfir sorg og reiði og það er skýr krafa um að völdin verði tekin af mönnum eins og Saddam Hussein og Donald Rumsfeld. Allir skynja hættuna sem stafar af þessum mönnum. Við viljum hvorki harðstjórn né stríð. Við viljum fara aðrar leiðir. Við viljum fara nýjar leiðir. 

Þetta á að vera rödd Íslands í heiminum en sú rödd heyrist ekki undan hæl herveldis. 

En þó svo að nú um stundarsakir sé búið að veikja möguleika Íslands til að vera forystuland í kröfunni um nýja heimsmynd, sáttmála um mannréttindi og löggæslu á heimsvísu, þá er það sú rödd sem vil viljum að heyrist frá okkur; röddin sem talar fyrir réttlæti. Röddin sem krefst afnáms viðskiptabanns, uppbyggingar og stuðnings í stað niðurrifs og vopnavalds. 

Það er erfitt að horfa á Saddam Hussein myrða og kúga landa sína, en ekki síður er erfitt að horfa á Donald Rumsfeld drepa saklausa alþýðu. Í Hvíta húsinu í Washington býr maður sem kveðst vera handhafi mannúðar; sá sem læknar og líknar. En hver er sá læknir sem drepur sjúkling sinn og alla fjölskyldu hans? Viljum við lækningu sem er verri en nokkur sjúkdómur? 

Núverandi ráðamenn Íslands eru aldir upp í Kalda stríðinu og þeir kunna ekki að hugsa eftir öðrum brautum en að taka afstöðu með eða á móti. Það fer ekki mikið fyrir skilningi á því að mikilvægi smáþjóðar eins og Íslands felst ekki í því að senda skriðdreka til Íraks, heldur í því að geta hugsað skýrt og lagt það til málanna sem hefur jákvæð langtíma áhrif. Í klofnum heimi er ekki hlustað á smáþjóð sem þykist hafa her, þjóð sem skýlir sér á bak við herveldi einsog Björn að baki Kára. Slík þjóð veitir engum siðferðilegan stuðning, í besta falli er hún barnaleg, í versta falli er hún sek um sleikjuskap eða sölumennsku. En eitt er víst að þetta kemur í veg fyrir að rödd okkar verði tekin alvarlega. 

Árásin á Íraka verður ekki auðveldlega stöðvuð. En krafan um frið og réttæli rís nú eins og þung alda um heim allan og vísar inn í framtíðina. 

Við skulum taka þátt í baráttu verkalýðshreyfingar og annarra fjöldahreyfinga; baráttu fyrir því að Sameinuðu þjóðirnar verði endurskipulagðar. Við skulum krefjast þess að áhrif hernaðar- og viðskiptahagsmuna stórþjóðanna verði þar ekki lengur alls ráðandi. Við skulum beita okkur fyrir því að Sameinuðu þjóðirnar fái meiri áhrif, bæði til lagasetningar og til aðgerða og eftirfylgni á sviði mannréttindamála - en á breyttum forsendum. Við eigum að taka þátt í þeirri heimshreyfingu sem er að verða til um nákvæmlega þessar kröfur. Svona var lýðræðið skapað, það kom aldrei ofan frá, úr hendi herstjóra eða auðmanna. Lýðræðið er verk fjöldans og á að vera verkfæri til góðra verka. 

Þessar eiga að vera kröfur Íslands. Við eigum ekki lengur að láta dæma okkur til að velja okkur skúrk eða skíthæl. 

Þetta er sú framtíð sem við skulum velja. Hún er réttlát og hún er raunsæ. Það er raunsætt að okkar vopnlausa land taki afstöðu með lýðræðinu og horfi til heimsins alls. 

Hlutverk lítillar þjóðar – getur verið stórt og mikilvægt –

styrkur þjóðar er ekki mældur í stærð eða fjölda heldur þeim siðferðisstyrk sem hún býr yfir. Látum það verða okkar hlutverk og framlag til framtíðarinnar að verða öflugur málsvari lýðræðis og mannréttinda í heiminum öllum.