Fara í efni

FORSETINN Á LOF SKILIÐ!

Artic 2015 - Ólafur Ragnar
Artic 2015 - Ólafur Ragnar

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, á lof skilið fyrir Arctic Circle ráðstefnuna um málefni norðurslóða sem nú er orðin árlegur viðburður.

Stjórnmálamenn og vísindamenn líta orðið á þessa ráðstefnu hér á landi sem eins konar kjölfestuviðburð í umræðu um málefnið.

Þegar ég ræddi við ráðstefnugesti gladdi það mig að heyra tóninn í fulltrúum sem sjálfir raunverulega koma frá norðurslóðum. Þeim finnst sér sómi sýndur á ráðstefnunni og hafa sérstaklega haft á því orð.

Með þessu ráðstefnuhaldi minnir Ólafur Ragnar Grímsson á hvers hann er megnugur á umræðutorgi alþjóðastjórnmála.

Sjálfur minnist ég ráðstefnu sem Ólafur Ragnar skipulagði fyrir hönd Evrópuráðsins í Portúgal á níunda áratugnum, þá fulltrúi á þingi Evrópuráðsins, en ég fylgdist með þessari ráðstefnu sem fréttamaður Sjónvarps og gerði henni skil í fréttum og sjónvarpsþætti.

 Ég minnist þess hver afburðavel Ólafur stýrði ráðstefnunni en hana sóttu fulltrúar norðurs og suðurs, austurs og vesturs. Þarna voru fulltrúar fátækustu ríkja heims, ég minist Rao, utanríkisráðherra Indlands, og ég minnist íhugulla og gagnrýninna fulltrúa hinna efnameiri. Minnistæður er Willy Brandt úr þeim hópi og margir fleiri. Fáar ráðstefnur hef ég sótt meira gefandi en þessa.

Þetta á að vera hlutverk Íslendinga: Að standa að uppbyggilegri og gefandi umræðu um umhverfis - og mannréttindamál, sjálfir helst utan hagsmuna- og hernaðarbandalaga.

Arctic Circle ráðstefnan er af þessum toga. Fyrir framtakið ber að þakka.