Fara í efni

FORSETI ALÞINGIS UM STJÓRNSKIPUNAR- OG EFTIRLITSNEFND

einar k g - forseti
einar k g - forseti

Við slit Alþingis fjallaði forseti þingsins, Einar K. Guðfinnsson, um eftirlits- og aðhaldshlutverk Alþingis í hefðbundinni  þingslita ræðu sinni. Alþingi sinnir þessu hlutverki með margvíslegum hætti, með umræðu og fyrirspurnum til ráðherra og ríkisstjórnar og svo með eftirfylgni og rannsóknarvinnu eftir atvikum. Hvað síðarnefndu þættina varðar hvílir mikil ábyrgð hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins og sagði forseti Alþingis í ræðu sinni að nefndin væri að sínu mati að móta vinnufarveg sem lofaði góðu. Þá tók hann undir ábendingar Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar frá í vetur um nauðsyn þess að rannsóknarvinnu á vegum þingsins verði settar skýrari reglur hvað verkefnalýsingu og fjárhag varðar.

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, sagði eftirfarandi um þetta efni:

„Á síðustu árum hefur æ meiri áhersla verið lögð á mikilvægi eftirlitshlutverks Alþingis og hefur það birst m.a. í nýjum ákvæðum í þingsköpum og sérstökum lögum um rannsóknarnefndir á vegum Alþingis. Á þessu þingi hefur Alþingi haft til umfjöllunar niðurstöður tveggja rannsóknanefnda sem Alþingi kom á fót til að fjalla um málefni Íbúðalánasjóðs og sparisjóðanna og birtist í tveimur viðamiklum skýrslum. Meginþungi hinnar þinglegu vinnu hefur hvílt á stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis og vil ég færa nefndinni þakkir fyrir vel unnin störf. Með vandaðri vinnu sinni í þessum málum hefur nefndin mótað vinnulag sem er til fyrirmyndar um góða starfshætti.

Störf þeirra þriggja rannsóknarnefnda sem Alþingi hefur komið á fót síðan 2008 hafa nokkrum sinnum komið til umfjöllunar í forsætisnefnd, enda hefur þeim ekki auðnast að ljúka störfum á tilskildum tíma og kostnaður við störf þeirra orðið mun meiri en ætlað var í upphafi.

Forsætisnefnd Alþingis hefur verið sammála um að mikilvægt sé að framvegis verði rannsóknarnefndum ekki komið á fót fyrr en fyrir liggur skýr og afmarkaður verkefnarammi og raunhæf kostnaðaráætlun auk þess sem settar verði verklagsreglur um störf nefndanna. Með hliðsjón af þessari umræðu ákvað forsætisnefnd á síðasta ári að fela lagaskrifstofu Alþingis að taka saman í greinargerð upplýsingar um reynsluna af störfum þessara þriggja rannsóknarnefnda sem og að meta framkvæmd laga um rannsóknarnefndir. Greinargerðin verður til umfjöllunar á fundi forsætisnefndar í ágúst nk. og mun forsætisnefnd í framhaldinu undirbúa þær lagabreytingar sem taldar verða nauðsynlegar."