Fara í efni

FORSETAKOSNINGAR Í PALESTÍNU Í DAG

Í dag fara fram forsetakosningar í Palestínu og er myndin hér að ofan tekin á kosningamiðstöð undir kvöldið.

Þótt yfirgnæfandi meirihluti Palestínumanna fagni tækifæri til að taka þátt í forsetakosningunum í dag eru tilfinningar engu að síður blendnar. Fáein orð um þetta tvennt:
Ein ástæðan fyrir því að fólk fagnar kosningunum er sú að ríki Palestínumanna, sem allir í þeirra röðum vona að sjálfsögðu að sé í burðarliðnum, þarfnast lýðræðislegs umboðs. Forseti kjörinn í lýðræðislegum kosningum getur talað af meiri myndugleik en sá sem ekki sækir umboð sitt í lýðræðislegum kosningum. Mahmoud Abbas, arftaki Yassers Arafats og starfandi forseti eftir fráfall hans, þarf svo sannarlega á þessu að halda. Arafat byggði á sterkri baráttuhefð Fatah-hreyfingarinnar.

Þótt Abbas sé enginn nýgræðingur í forystusveit Palestínumanna – hann hefur verið í innsta hring Arafats frá 1982 - þá er ímynd hans ekki ímynd baráttumannsins og síðustu mánuði fyrir dauða Arafats var opinber ágreiningur þeirra í milli en þá var Abbas forsætisráðherra í ríkisstjórn Palestínumanna. Abbas var þá legið á hálsi fyrir að vera of meðfærilegur fyrir Ísraelsmenn og Bandaríkjastjórn. Honum nægir því ekki að birtast á kosningaskiltum með Yasser Arafat. Hann þarf raunverulegan stuðning í kosningum.

Önnur ástæða fyrir því að fólk fagnar kosningunum er sú að menn telja að forystusveit Palestínu þurfi mjög á því að halda að fá aðhald frá stjórnarandstöðu því ásakanir hafa verið uppi um spillingu.

Þriðja ástæðan fyrir því að fólk fagnar kosningunum er sú að með þeim færist Palestína nær því marki að verða raunverulegt ríki.

Ástæðan fyrir því hins vegar að tilfinningar eru blendnar er sú að mörgum þykir sem í kosningunum felist ákveðin uppgjöf. Í Palestínu séu um þrjár milljónir, þar af um 1.3 milljónir á kjörskrá. Utan Palestínu séu hins vegar að minnsta kosti fimm milljónir Palestínumanna, þar af margir í þvingaðri útlegð. Þá megi ekki gleyma því að fjöldi manna sé í fangelsi og þótt sá fjöldi vigti ekki mjög í þessum kosningum, þá hafi það siðferðilega þýðingu að ganga til kosninga með þúsundir pólitískra fanga hernámsveldisins án kosningaréttar. Í hersetnu landi eigi aðeins að vera útlagastjórn. Þetta viðhorf höfum við heyrt hér. Það virðist ekki vera meirihlutaviðhorf en er sett fram af tilfinningaþunga og nýtur skilnings þeirra sem ekki eru þó á sama máli.