Fara í efni

FORSENDUR VAÐLAHEIÐARGANGA

MBL  - Logo
MBL - Logo
Á Alþingi fer nú fram umræða um Vaðlaheiðargöng. Í seinni tíð hef ég gerst gagnrýninn á þá framkvæmd vegna þess að áhöld eru um að forsendur hennar standist og síðan hitt að tillögur eru um að flýta Norðfjarðar- og Dýrafjarðargöngum og óheppilegt er að vinna að tvennum göngum í einu. Aðkoma mín að þessum málum hefur fléttast inn í umræðurnar á þingi og hafa söguskýringar sumra þingmanna verið harla misvísandi. Vil ég því gera grein fyrir málinu eins og það blasir við frá mínum bæjardyrum.

Sagan rakin

Vaðlaheiðargöng hafa mikið komið við sögu á Alþingi, bæði í umræðu auk þess sem fjármunum hefur verið varið í undirbúning. Það eitt og sér markar Vaðlaheiðargöngum enga sérstöðu því þannig er háttað um allar meiriháttar framkvæmdir. Í aðdraganda þeirra er ráðist í rannsóknir sem oft eru kostnaðarsamar, gerðir samningar við landeigendur, búið í haginn fyrir útboð og svo framvegis. Vorið 2008, nánar tiltekið 29. maí, var samþykkt á Alþingi þingsályktun um viðauka við fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2007-2010. Þar segir: „Gert er ráð fyrir að Vaðlaheiðargöng verði byggð í einkaframkvæmd með veggjöldum. Göngin verði þó fjármögnuð að hálfu úr ríkissjóði með jöfnum árlegum greiðslum eftir að framkvæmdatíma lýkur árið 2011 í 25 ár." Þetta var fyrir hrun. Eftir hrun kemur annað hljóð í strokkinn. Framkvæmdafé til samgöngumála skreppur saman um helming og fyrri framkvæmdaáætlanir verða að engu. Var nú farið að leita nýrra leiða vegna Vaðlaheiðarganga. Þær gengu út á að láta notendur veganna borga beint fyrir framkvæmdir sem menn voru áfjáðir í að koma í framkvæmd með hraði. Vildu menn komast fram fyrir í framkvæmdaröð samgönguáætlunar þá yrðu notendur viðkomandi framkvæmdar að borga brúsann að fullu. Hinn 15. júní 2010 er samþykkt á Alþingi þingsályktun um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012 þar sem byggt var á þessu. Í greinargerðinni segir: „Vegna stöðu efnahagsmála og alvarlegrar stöðu ríkissjóðs hefur að undanförnu verið rætt um aðkomu lífeyrissjóðanna eða annarra fjárfesta að fjármögnun vegaframkvæmda auk annarra framkvæmda í landinu. Forsendur aðkomu lífeyrissjóðanna eru einkum þær að sjóðirnir fái viðunandi arð af fjárfestingum sínum og fjárfestingarnar séu þjóðhagslega arðbærar. Jafnframt liggur fyrir að ríkissjóður hefur takmarkað svigrúm til að auka fjárfestingar sínar. Þetta þýðir að auknar framkvæmdir verður að framkvæma með veggjöldum. Eftirtaldar framkvæmdir hafa verið skoðaðar í tengslum við aðkomu lífeyrissjóðanna." Síðan eru talin upp verkefni sem tengjast tvöföldun vega á suðvesturhorninu og svo Vaðlaheiðargöng.

Arðsemisrýnar að verki

Frá því er skemmst að segja að samninganefnd lífeyrissjóðanna komst fljótlega að því að aðgreina bæri Vaðlaheiðargöng frá framkvæmdum á suðvesturhorninu því göngin væru að þeirra mati ólíkleg til að vera arðvænleg fjárfesting. Öðru máli gegndi um suðvesturhornið. Þannig var málum háttað þegar ég tók við sem samgöngumálaráðherra haustið 2010. Ég hafði aldrei verið í hópi þeirra sem hrifnir voru af einkaframkvæmd og vegatollum. En ég var hins vegar í hópi þeirra sem höfðu samþykkt þetta ráðslag og því ekki um annað að ræða en fylgja málinu eftir. En þá yrði það líka gert á þeim forsendum sem ákveðnar höfðu verið. Í janúar 2011 sat ég fund á Akureyri þar sem allir, sem aðkomu eiga að Vaðlaheiðargöngum, lýstu því yfir að þeir vildu ótrauðir halda áfram með fyrirtækið sem einkaframkvæmd, sem kæmi til með að verða sjálfsfjármagnandi. Ég tók vel í það. Einnig sunnan heiða var nú fljótlega farið að efna til funda um framkvæmdir þar. Að mínu frumkvæði var boðað til funda með sveitarstjórnarmönnum og þingmönnum um framkvæmdir sem fjármagna skyldi með vegatollum. En nú var afstaðan breytt. Menn kváðust ekki reiðubúnir að fjármagna framkvæmdirnar að fullu með vegatollum en hugsanlega að hluta til. Ég sagði að ef svo væri þyrftum við að skoða málin á nýjan leik. Forsenda þess að taka þessar framkvæmdir út úr samgönguáætlun væri sú að þær yrðu að fullu fjármagnaðar með veggjöldum. Á endanum stóð ég nánast einn og varði vegatolla en aðrir töluðu fyrir alls kyns blöndum, til dæmis að lögð yrðu veggjöld á öll jarðgöng í landinu. Þeir sem þannig mæltu fengu síðar góðan liðsauka í talsmönnum vinnumarkaðar sem vildu ólmir framkvæma á kostnað notenda - en eins og svo oft áður - að þeim forspurðum. Félag íslenskra bifreiðaeigenda afhenti mér í þessu umræðuferli, í janúar 2011, undirskriftalista 43 þúsund einstaklinga sem mótmæltu að framkvæmdirnar yrðu fjármagnaðar með vegatollum. Atvinnurekendur á Suðurlandi höfðu samband við mig til að árétta að Samtök atvinnulífsins töluðu ekki fyrir þeirra hönd þegar þeir vildu framkvæmdir sem kostaðar yrðu með sérstökum gjöldum, það er nóg komið af álögum á umferðina, sögðu þeir. Á endanum var þetta slegið af en allar þessar framkvæmdir eru hins vegar inni í samgönguáætlun og nú hillir undir að hægt verði að hraða þeim - en á réttum og faglegum forsendum!

Varnaðarorð

Víkur nú aftur sögunni að Vaðlaheiðargöngum. Þar heldur undirbúningur áfram en nú kemur að því að umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis vill fá að kynna sér málið og er efnt til opins fundar 25. mars 2011 og síðar aftur 7. nóvember. Ég sat báða þessa fundi. En strax á fyrri fundinum kom fram alvarleg og vel rökstudd gagnrýni á forsendur verkefnisins. Bæði þá og í framhaldinu áréttaði ég við alla hlutaðeigendur að framkvæmdin væri skilyrt. Í bréfi sem ég skrifaði til Vegagerðarinnar og fjármálaráðuneytis 8. júní 2011 segir að afstaða ráðuneytisins til Vaðlaheiðarganga sé óbreytt, jákvæð en »að því grundvallarskilyrði sé fullnægt að ætla megi að framkvæmdin verði rekstrarlega sjálfbær«. Í tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2011-2022, sem lögð var fram á Alþingi í desember 2011 og ég mælti síðan fyrir í byrjun þessa árs, segir að gert sé ráð fyrir að jarðgöng verði fjármögnuð af ríkissjóði utan markaðra tekjustofna til Vegagerðar, „...að undanskildum Vaðlaheiðargöngum sem eiga að öllu leyti að fjármagnast af veggjöldum... Vaðlaheiðargöng eru ekki inni í þessari forgangsröðun en stofnað hefur verið um þau sérstakt félag sem annast framkvæmdirnar og innheimta á veggjöld til að standa straum af framkvæmdakostnaði ef af verður". Í umræðunni um Vaðlaheiðargöng hafa menn komið víða við. Þeir sem vilja forðast þessa umræðu vísa gjarnan í þjóðhagslegan ávinninng og hve góð samgöngubót göngin yrðu og margt annað er tínt til. Þetta er hins vegar óskyld umræða. Hún á vissulega rétt á sér en þá í samhengi samgönguáætlunar þar sem framkvæmdir eru vegnar og metnar með tilliti til þessara þátta í samanburði við aðrar samgöngubætur sem einng hafa jákvæð áhrif. Enn er að nefna varnaðarorð sérfræðinga sem segja að óhyggilegt sé að hafa tvenn göng í framkvæmd í einu, betra sé að láta ein jarðgöng fylgja fast á eftir öðrum. Hitt kalli á meira erlent vinnuafl og torveldi stjórnun og eftirlit en það geti haft töluverð áhrif á endanlegan kostnað. Nú hefur verið ákveðið að freista þess að flýta Norðfjarðar- og Dýrafjarðargöngum. Það hlýtur að skipta máli þegar menn tímasetja Vaðlaheiðargöng sem annars hefðu verið ein í framkvæmd meðan beðið væri eftir fjármagni af samgönguáætlun í hin göngin. Nú ræðir enginn lengur um að setja Vaðlaheiðargöng í einkaframkvæmd - því eftir því er ekki eftirspurn á markaði - heldur sem ríkisframkvæmd. Gert er ráð fyrir að afla framkvæmdafjár með lántökum ríkissjóðs þar til göngin verða að fullu komin í rekstur en þá verður „leitað leiða" til að afla lánsfjár á markaði. Um allt þetta vil ég að lokum segja eftirfarandi: Allar forsendur taka breytingum og okkur ber að horfa til þess. Það á við um ráðherra, ríkisstjórn og Alþingi sem hefur fjárveitingarvaldið á hendi. En þessa framkvæmd sem og aðrar fjárfrekar framkvæmdir ber að ræða á réttum forsendum.


Ögmundur Jónasson