Fara í efni

Forsætisráðherrar með afslætti – en á kostnað skattborgarans

Í upphafi þess valdaskeiðs Sjálfstæðisflokksins, sem nú hefur staðið í þrettán ár var Menningarsjóður lagður niður. Menningarsjóður annaðist útgáfu á verkum, sem þóttu hafa sérstakt sögulegt og menningarlegt gildi; verkum sem ætla mætti að ekki kæmu út ella. "Það er ekki hlutverk ríkisins að gefa út bækur", sögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins á þessum tíma, við ágætar undirtektir hjálparhellna sinna í ríkisstjórn. Það þótti bera vott um mikla afturhaldssemi og þröngsýni af verstu sort að leggja blessun sína yfir bókaútgáfu á vegum ríkisins. Hvílíkt og annað eins! Menn vissu varla hvert þeir áttu að komast.

Látum þá spurningu liggja á milli hluta hvort það eigi að vera í verkahring ríkisins að gefa út bækur. Hitt sjónarmiðið gætu menn ef til vill sameinast um, að það geti haft samfélagslega þýðingu, og þar af leiðandi verið í verkahring ríkisins, að styðja útgáfur sem eru kostnaðarsamar en hafa mikið mennigarlegt og sögulegt gildi fyrir þjóðina. Það er umræða sem ég hygg að flestum finnist eiga rétt á sér.

En fyrir þá sem hafa gaman af forvitnilegum fróðleik þá er vert að leiða hugann að því, að það voru sömu mennirinr og ósköpuðust mest yfir því hve fráleitt það væri að ríkið gæfi út bækur, sem nú seilast niður í vasa skattborgarans til að neyða hann til að gefa út montverk til að þjóna fáfengileika fyrrverandi forsætisráðherra og fylgisveina hans. Hér er að sjálfsögðu átt við doðrantinn sem ríkisstjórnin lét gefa út um "sögu" allra þeirra manna sem setið hafa á forsætisráðherrastóli frá 1904. Til að undirstrika hve mikilvægur síðasti kafli bókarinnar er var útgáfudagur hennar síðasti setudagur Davíðs Oddssonar á stóli forsætisráherra. Að sjálfsögðu var smalað í Þjóðmenningarhúsið til að klappa. Sese Mobutu Seko hefði ekki gert þetta betur þegar hann var upp á sitt besta í Zaire á sínum tíma.

Safn ritgerða um þá einstaklinga sem gegnt hafa embætti forsætisráðherra þjóðarinnar fram á þennan dag hefur sögulega þýðingu að einu leyti. Þessi útgáfa gefur nefnilega nokkra innsýn í þá foringjahyggju sem nú ríður húsum. Ég hef áður tekið sem dæmi, að vildu menn skrifa sögu heilbrigðismála á Íslandi yrði varla lagst í persónurannsóknir á heilbrigðisráðherrum og gefin út saga þeirra, heldur yrði sjónarhornið að væntanlega víðara og fjallað um heilbrigðismálin og þær breytingar sem átt hefðu sér stað á því sviði. Sama gildir um stjórnmálasöguna, jafnvel sögu Stjórnarráðsins. Þar kæmu að sjálfsögðu forsætisráðherrar mjög við sögu en væntanlega einnig annað fólk!

Stjórnunarfélagið sem er með þessa bók í sölu heldur sig við hina þröngu sögutúlkun í kynningum sínum. Þar á bæ þykja forsætisráðherrarnir greinilega hafa skipt sköpum í sögu íslensku þjóðarinnar og að það sé fyrst og fremst þeim að þakka þær þjóðfélagsbreytingar sem urðu á síðustu öld: "Verk þeirra, stjórnviska, forystuhæfileikar og frumkvæði hafa átt ríkan þátt í því á síðustu 100 árum að umbreyta Íslandi frá því að hafa verið í hópi fátækustu þjóða heims árið 1904 til þess að standa í hópi með ríkustu þjóðum heims í dag".

Fram kemur að Forsætisráðherrarnir eru seldir með 25% afslætti.