Fara í efni

FORSÆTISRÁÐHERRA OG LITLA STÚLKAN MEÐ ELDSPÝTURNAR


Í gær fjallaði ég hér á síðunni um verðlaunaveitingar Halldórs Ásgrímssonar til fyrirtækja sem veita fátæku fólki styrki og sýna þannig miskunnsemi. Umfjöllunin hefur fengið sterk viðbrögð frá fólki sem heyrt hafði í útvarpi eða lesið í blöðum um þakkarskjölin sem forsætisráðherra afhenti og fengið sömu tilfinningu fyrir framgöngu ráðherrans og ég.

Einn lesandi sendi mér úrklippu úr Mogga þar sem skilja mátti að það væri Halldór sem væri að veita viðurkenningu fyrir góðgerðastarf fyrirtækja en ekki Fjölskylduhjálpin, sbr. eftirfarandi: "YFIR 50 einstaklingar og fyrirtæki, sem hafa stutt Fjölskylduhjálp Íslands,fengu á þriðjudag afhent þakkarbréf frá forsætisráðherra Íslands, Halldóri Ásgrímssyni,í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu. Við það tækifæri tók Bryndís Schram við stöðu verndara Fjölskylduhjálparinnar.Í fréttatilkynningu frá Fjölskylduhjálpinni kemur fram að Reykjavíkurborg muni styðja starfið á næstu árum með því að eftirláta norðurhluta hússins í Eskihlíð 2-4 til Fjölskylduhjálparinnar henni að kostnaðarlausu. Baugur hefur greitt borginni leigu fyrir það húsnæði sem aðalstarfsemin er nú í sl. þrjú ár. Mun húsnæðið sem samtökin hafa yfir að ráða stækka um helming við breytinguna.Í fréttatilkynningunni segir að Fjölskylduhjálpin úthluti matvælum, fatnaði og ungbarnavörnum til þeirra sem minna mega sín á hverjum miðvikudegi, árið um kring."

Lesandinn sem vakti athygli mína á þessu sendi mér mynd af Moggafréttinni og hafði sett á hana eldspýtnastokk með mynd af H.C.Andersen. Honum fannst það vera táknrænt því allt þetta minnti sig á H.C. Andersen ævintýrið um litlu stúlkuna með eldspýturnar.