Fara í efni

FLUGVÖLLUR Á LÖNGUSKERJUM ER FRÁLEITUR KOSTUR

Birtist í Morgunpósti VG 18.10.10
Þegar Hrafn Gunnlaugsson fyrst fleytti hugmyndinni um flugvöll á Lönguskerjum var það gert í mjög víðu samhengi – og að mörgu leyti frjóu og skemmtilegu.

Hrafn vildi flytja Árbæjarsafn í Hljómskálagarðinn, hækka byggingu hér, lækka þar, til dæmis vildi hann sníða nýbyggingu ofan af gamla Útvegsbankanum, núverandi dómshúsi við Lækjartorg, endurskoða afstöðu okkar til fífilsins og sóleyjarinnar, en eins og menn rekur ef til vill minni til fór grassláttur og reyting "illgresis" mjög fyrir brjóstið á Hrafni. Þessar hugmyndir og fleiri setti hann fram í litlum þætti í Ríkissjónvarpinu. Tilgangurinn var augljóslega að kveikja umræðu, sem svo sannarlega tókst enda bryddað á ýmsum snjöllum hugmyndum og okkur sýnt sjónarhorn sem við flest hver höfðum ekki komið auga á. Þetta var hið besta mál, líka hugmyndin um flugbraut á Lönguskerjum í Skerjafirði! Hví ekki að hugleiða þann kost? Glæsilegt aðflug að borginni!

Svo fórum við að hugsa, alla vega sum hver. Sennilega myndi nú ekki nægja ein flugbraut, slank og fín braut. Ætli þyrfti ekki að vera hægt að snúa vélunum við, og jafnvel hafa tvær, þrjár brautir? Og til að hafa allan vara á þyrftu brautirnar að vera breiðar og eflaust standa hátt, svo öldugangur og særok stefndi öryggi ekki í hættu. Eftir því sem málið var betur ígrundað fylltist Skerjarfjörðurinn smám saman, þar til ljóst varð að flugbraut í Skerjafirði þýddi malbikaður Skerjafjörður, nánast stranda á milli, frá Ægisíðu til Álftaness.
En áhugamenn um að rýma til í Vatnsmýrinni sjást ekki fyrir og nú skilst mér að farið sé að hvetja til þess að sturta úrgangi í Skerjafjörðinn til að flýta flutningi flugvallarins úr Vatnsmýrinni í Skerjafjörðinn.

Af þessu tilefni langar mig til að segja tvennt. Annað er staðhæfing, hitt er spurning. Ef í alvöru stendur til að fylla Skerjafjörðinn af möl og malbiki, mega menn vita að það verður ekki gert án andmæla, og tek ég þar afar vægt til orða. Afar vægt, því jafnvel þótt koma mætti fyrir flugbraut í Skerjafirði án þess að fylla upp gervallan fjörðinn, stæði hitt eftir, að flugbraut á þessu svæði væri ekki fýsilegur kostur. Þetta er staðhæfingin. Síðan er það spurningin. Ef Vatnsmýrarlandið er svona eftirsóknarvert byggingarland, gildir ekki hið sama um Skerjafjörð, sem er aðeins steinsnar í burtu? Er ekki einsýnt að hið sama myndi gilda um Skerjafjörð og Vatnsmýri að verðmætum þætti á glæ kastað að setja uppfyllingarland þar undir flugvöll? Væri ekki nær að byggja á slíku landi?