Fara í efni

Flottur Valgarður

Mikið fjölmenni var við opnun málverkasýningar Valgarðs Gunnarssonar, myndlistarmanns í Munaðarnesi á laugardag og var félagsmiðstöðin í orlofsbyggðum BSRB full út úr dyrum. Anna Kristín Arngrímsdóttir, leikkona las ljóð og Álftagerðisbræður sungu. Að venju var boðið upp á veitingar í samvinnu við Unni Ágústsdóttur, sem rekur veitingastaðinn í Munaðarnesi. Fólk kom víða að til þessarar menningarhátíðar en greinilegt er að fólk úr nærliggjandi sveitum sækir þessar árlegu hátíðir BSRB reglulega. Listaverk Valgarðs fengu lof viðstaddra og var þeim lýst þannig að þau væru mild en ágeng, eða með öðrum orðum “mildilega ágeng”. Valgarður Gunnarsson hefur sýnt verk sín margoft bæði hér á Íslandi og víða um lönd á undanförnum tveimur áratugum, rúmum, og er þau víða að finna. Má nefna að stór verk eftir Valgarð eru nú á veggjum utanríkisráðuneytisns og efast ég ekki um að þau hafa góð áhrif á þá sem þar starfa – á sinn mildilega en ágenga hátt.

Á heimasíðu BSRB má sjá myndir og frásögn frá hátíðinni. Sjá hér.