Fara í efni

FLÓTTAMENN Í LÍBANON OG ROTNANDI ÁVEXTIR Í GAZA


Í gærkvöldi sýndi Sjónvarpið heimildarmynd um palestínska flóttamenn í Shatila flóttamannabúðunum í Líbanon. Kvikmyndagerðarmennirnir fylgdu nokkrum ungmennum á löngu árabili eða frá barnæsku og fram á fullorðinsár. Við sáum hvernig draumar barnæskunnar um menntun og frama höfðu strandað á skeri hins erfiða hlutskiptis flóttamannsins. Myndin gaf innsýn í þá miklu erfiðleika sem brottrekstur þessa fólks frá heimahögunum í Palestínu hafa fylgt kynslóðunum: Allir töluðu um að fara heim. Vandinn er sá að heimahagarnir eru hernumin svæði, sum þeirra eru hernumin með samþykki Sameinuðu þjóðanna. Einn aðalframleiðenda myndarinnar var Hrafnhildur Gunnarsdóttir. Hún og félagar eiga þakkir skyldar. Það á Sjónvarpið líka fyrir að sýna myndina. En hvers vegna var hún sýnd klukkan hálf ellefu að kvöldi – á eftir öllum sápuruglþáttunum? Ég minntist á það um daginn hve lélegt það var að sýna Barenboim-þáttinn undir miðnættið. Ætlar Sjónvarpið aldrei að læra – aldrei að kunna að meta að verðleikum gott sjónvarpsefni og vera stolt af okkar fólki sem er að gera góða hluti? Þakka þér Hrafnhildur fyrir stórkostlegan þátt!
Mig langar líka til að þakka Maríu Kristjánsdóttur,  fyrir hughreystandi ummæli í minn garð á heimasíðu sinni, http://www.mariakr.blog.is/blog/mariakr/entry/269379/   þar sem hún líka bendir á áhugaverða umfjöllun um Palestínu. Hún fer fallegum orðum um mig og segir síðan: " Nú eru einhverjir hér á netinu sem súpa hveljur yfir þeirri afstöðu hans að nauðsyn sé að halda ekki Hamas utanvið friðarumleitanir Í Palestínu. Ég vil benda þeim á þennan tengil, en hér dregur Edward M. Gomez , fréttamaður sem skrifað hefur m.a. í Time, the New York Times, the Japan Times, og the International Herald Tribune - saman ýmislegt áhugavert um þá umræðu."
Að lokum langar mig að benda á umfjöllun – eina af þúsund – um ástandið í stórfangelsi Ísraela á Gaza þar sem ávextir og blóm, útflutningsvörurnar rotna því HERRAÞJÓÐIN Ísraelar bannar útflutning frá svæðum þar sem þeim óþóknanlegir aðilar ráða ríkjum. Þetta er úr danska blaðinu Politiken: http://politiken.dk/udland/article344774.ece