Fara í efni

FLOKKSRÁÐ VG UM VELFERÐ, VEXTI OG ESB

Í dag lauk tveggja daga flokksráðsfundi VG í Hagaskóla sem ályktaði gegn niðurskurði í heilbrigðiskerfinu. Meirihluti flokksráðs taldi að þetta væri unnt að gera án þess að hnika til fjárlagarammanum. Ekki voru allir á eitt sáttir um að þetta væri raunsætt mat, þar á meðal flutningsmenn Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingflokksformaður, og Karólína Einarsdóttir, formaður Kópavogsfélags VG .
Öllu máli skiptir þó að krafan stendur á róttæka endurskoðun: „Þol sumra stofnana er nú þegar komið að endamörkum. Ljóst er að sumar stofnanir, þar á meðal Landspítalinn, stærsta heilbrigðisstofnun landsins, þola ekki niðurskurð umfram þann sem þegar hefur orðið án þess að alvarlega sé vegið að þjónustunni. Sýna þarf fram á að þær heilbrigðisstofnanir sem á annað borð þurfa að sæta niðurskurði séu færar um það án skerðingar þjónustu og uppsagna starfsfólks með tilheyrandi afleiddum kostnaði." Þetta er mikilvæg hvatnig til ríkisstjórnarinnar og stuðningur við heilbrigðisráðherra sem hefur lýst vilja til endurskoðunar.

Látið verði reyna á meginhagsmuni í ESB viðræðum sem fyrst

Nokkuð var fjallað em ESB mál og felld tillaga Atla Gíslasonar og fleiri um að setja viðræðuferlið við ESB inn í markvisst ferli til flýtingar. Þótti mér það miður. Hins vegar hvetur flokksráðið „ til þess að svo fljótt sem unnt er verði í viðræðuferlinu látið reyna á meginhagsmuni Íslands eins og þeim er lýst í samþykkt Alþingis."
Þetta er í anda þess sem ég hef talað fyrir, að flýta ferlinu, láta reyna á meginálitamálin, yfirráð yfir sjávarauðlindinni, landbúnaði og grunnatriðum í sjálfsákvörðunarrétti. Þennan skilning má lesa út úr framantilvitnuðu auk þess sem talað er um að stöðva aðlögunarferlið og fjárframlög til að smyrja samningsferlið og þar með viljann til aðlögunar.

Gegn fátækt, verðtryggingum og okurvöxtum

Samþykkt var tillga frá Þorleifi Gunnlaugssyni um fátækt þar sem segir m.a. : Flokksráðið beinir því til sveitarstjórnarfólks og þingflokks að beita sér fyrir því að öll laun, hvort sem um er að ræða lágmarkslaun, lífeyri, framfærslustyrki eða bætur, verði færð upp fyrir lágtekjumark Hagstofu Íslands sem nú er 160.800 kr. í ráðstöfunartekjur fyrir einstakling á mánuði"
Margt fleira var samþykkt, svo sem tillaga frá Guðfríði Lilju Grétarsdóttur og Karólínu Eiríksdóttur um að verðtrygging verði afnumin og þak sett á vexti. Tillaga Lilju Mósesdóttur og Ásmundi Einari Daðasyni  um ramma fjárlaga fékkst ekki samþykkt samanber það sem áður segir en fékk engu að síður góðar undirtektir á fundinum.

Málefni eða persónur?

Ég hef í dagslok farið yfir fréttaumfjöllun af fundinum. Þar vantar sýnist mér ýmsa „núansa". Verst þykir mér þó vera persónugerving málefnalegrar umræðu og skoðanaskipta.  Þannig halda sumir því fram að umræðan snúist ekki um málefni heldur um persónulegan ríg manna í milli. Þeir sem þannig skrifa þekkja ekki persónur og leikendur í VG eins og sagt var á Gufunni í gamla daga. Þannig lítur það alla vega út frá mínum sjónarhóli. Tilraunir til að persónugera umræðu eru til þess eins fallnar drepa miklivægum málefnalegum umæðum og ágreiningi  á dreif. Slík viðhorf stuðla ekki að opinni og frjálsri umræðu sem ætti þó að vera okkur öllum keppikefli.