Fara í efni

FJÖLSÓTTUR UMRÆÐUFUNDUR HJÁ BSRB


Fyrirlesararnir frá PSI, Jurgen Buxbaum og Alan Leather.

Síðastliðinn föstudag, 7. júlí, fór fram á vegum BSRB umræðufundur um opnun vinnumarkaða bæði í Evrópu og á heimsvísu. Fjölmenni hlýddi á tvo fyrirlessara frá Public Services International – Samtaka launafólks í almannaþjónustu – sem BSRB á aðild að. Þessir menn eru Jürgen Buxbaum, framkvæmdastjóri Evrópusvæðis PSI, og Alan Leather aðstoðarframkvæmdastjóri PSI en hann sinnir jafnframt því sem lýtur að heilbrigðismálum á vettvangi samtakanna.

Margt mjög athyglsivert kom fram á fundinum, m.a. um þróunina á austanverðri Evrópu. Þar fer misskipting vaxandi og er atvinnuleysi á sumum svæðum hátt í 50%! Sérstaklega er atvinnuleysið mikið á meðal ungs fólks. Þetta eykur þrýsting á að launafólk leiti fyrir sér á erlendri grundu en í máli Jürgens Buxbaums kom fram að þetta virtist þá fyrst gerast þegar fólk hefði glatað voninni. Ef menn eygðu von væri tilhneigingin að þrauka lengur.

Jürgen Buxbaum dró upp mjög áhrifaríka mynd af þjóðfélögum í vestanverði álfunni sem byggju við ákveðið grunnkerfi hvað varðar félagsþjónustu, stöðu verkalýðsfélaga, lýðréttindi og lýðræðislegar stofnanir og bar hana saman við austanverða álfuna eftir hrun kommúnismans þar sem erlendir “sérfræðingar”, frá Alþjóðabankanum og skyldum aðilum, hefðu hvatt til markaðsvæðingar án tillits framagreindra þátta. Niðurstaðan hefði orðið óhefttur markaðsbúskapur með tilheyrandi misskiptingu og örbirgð hjá drjúgum hluta samfélagsins.

Alan Leather setti fleiri drætti inn í þessa mynd – vék að flutningi starfsfólks í heilbrigðisgeiranum bæði innan Evrópu og á heimsvísu. Fram kom að í reynd væru þróunarríkin að fjárfesta í dýrri menntun starfsfólks heilbrigðisþjónustunnar en nytu síðan ekki starfskrafta þess þegar til kastanna kæmi. Á það var bent í umræðunni að þetta væri eins konar niðurgreiðsla eða þróunarstuðningur hins snauða við hinn ríka!

Margt mjög athyglisvert kom fram í máli Alans Leathers en hann hefur meðal annars, fyrir hönd PSI, beint kröftum að því að aðstoða í ríkjum sem eyðnisjúkdómurinn hefur herjað á. Hann nefndi sérstaklega Suður-Afríku og Botswana í því sambandi. Í Suður-Afríku væri útbreyðsla eyðni á meðal starfsfólks í heilbrigðisþjónustunni 15% en 30% í Botswana. Enn meiri væri útbreiðslan á meðal íbúa þessara ríkja. Frá báðum þessum ríkjum streymdu heilbrigðisstarfsmenn úr landi þótt þörfin væri sár heima fyrir. Úr vöndu væri að ráða því fólk vildi reyna fyrir sér þar sem framtíðin væri björt. Oft gerði fólk sér þó ekki grein fyrir tilkostnaði við að lifa í fyrirheitna landinu en einblíndi á launin. PSI sæi það sem sitt hlutverk að upplýsa fólk um raunverulegar aðstæður.

Þetta var reyndar rauði þráðurinn í máli fyrirlesaranna beggja: Að stuðla beri að upplýstri og fordómalausri umræðu um hina svokölluðu alþjóðavæðingu. Það væri forsenda þess að ráða bót á þeim vandamálum sem upp kæmu í tengslum við hana.