Fara í efni

FJÖLMIÐLAR SPYRJI ÖSSUR OG INGIBJÖRGU SÓLRÚNU

Það er að vissu leyti góðs viti að mönnum finnist það vera rógburður að væna formannskandídat í Samfylkingunni, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, um að vilja gefa þeirri hugsun gaum að einkavæða megi hverfisskóla á grunnskólastigi. Staðreyndin er nú samt sú að svokallaður Framtíðarhópur Samfylkingarinnar hefur viðrað slíkar hugmyndir og meira að segja vísað sérstaklega í umdeilda einkakframkvæmd Sjálfstæðismanna í Áslandsskóla í Hafnarfirði sem áhugaverðan möguleika. Slíkar hugmyndir eru í samræmi við stefnu og framkvæmd þar sem hægri kratar hafa komist til áhrifa og valda. Þarf ekki annað en vísa á Bretland í því sambandi. Það er þess vegna fullkomlega málefnalegt að "væna" stjórnmálamenn sem hallir eru undir hugmyndir af þessu tagi um að fylgja stefnu markaðshyggjunnar.

Það skiptir máli hvort forysta Samfylkingarinnar kemur til með að þrýsta á um markaðsvæðingu velferðarþjónustunnar. Það skiptir máli fyrir hugsanlega samstarfsflokka Samfylkingarinnar hverjar áherslur flokksins eru í þessu efni, engu síður en fyrir almenna flokksmenn. Leiðarahöfundi Morgunblaðsins þótti þetta vissulega skipta máli þegar drög að tillögum Framtíðarhóps Samfylkingarinnar voru viðruð og mærði hástöfum formann hópsins, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Ég skrifaði grein í Morgunblaðið og gagnrýndi þessar hugmyndir mjög ákveðið. Við hvorugum skrifunum bárust andmæli. Þetta er staðan og fullkomlega málefnalegt að ræða hana opinberlega.

En er ekki sjálfsagt að ræða þessar einkavæðingarhugmyndir eins og allar aðrar? Svarið er að það hefur verið gert og liggur fyrir ótölulegur fjöldi skýrslna um afleiðingar þessarar stefnu. Í Bretlandi má vísa til Unison verkalýðssamtakanna og rannsóknarstofnunar við Greenwich háskólann, sem starfar undir heitinu PSIRU, Public Services International Research Unit. Þessir aðilar hafa gagnrýnt Blair-stjórnina harðlega fyrir að vega að velferðarþjónustunni með því að markaðsvæða hana. Blair og félagar hafa hins vegar aldrei sýnt rannsóknum þeirra og aðfinnslum nokkurn áhuga og hefur Blair stjórnin sýnt með verkum sínum að hún er staðráðin í að fylgja þessari pólitísku stefnu sinni hvað sem tautar og raular. Til þess að friða þá innan flokksins sem eru andvígir þessum áherslum hefur viðkvæðið jafnan verið að ræða þurfi málin. Lengra hefur sú umræða þó ekki náð. Í Bretlandi hafa hin margrómuðu umræðustjórnmál aðallega verið í nösunum á þeim sem engar raunverulegar umræður vilja. Þannig hefur það gerst að markaðskreddurnar hafa verið lögfestar umræðulaust hjá hinum bresku umræðupólitíkusum!

Víkjum þá aftur til Íslands og formannskosninganna í Samfylkingunni. Hvað þykir frambjóðendum um vinnubrögð bresku hægri kratanna? Væri ekki ráð að spyrja formannskandídata Samfylkingarinnar hreint út hvort þeim finnist yfir höfuð koma til greina að einkavæða hverfisskóla á grunnskólastigi, í stað þess að hjakka í því farinu hver sé að rægja hvern? Um aðra þætti velferðarþjónustunnar mætti einnig spyrja þau Össur og Ingibjörgu Sólrúnu,  þar með talið orkuna, vatnið, skólpið, sorpið... Er þetta ef til allt á umræðustigi í Samfylkingunni? Ég hef aldrei gengið að því gruflandi að Samfylkingin daðri við hægri stefnu – það gerir hún. Flokkurinn þarf hins vegar að koma hreint til dyranna. Það verða allir stjórnmálaflokkar og allir stjórnmálamenn að gera, ekki síst þeir sem vilja taka að sér verkstjórn í stjórnmálaflokkum.

Hér eru tilvitnanir í eitthvað af þeim skrifum sem vísað var til hér að framan.

 https://www.ogmundur.is/is/greinar/framtidarnefnd-a-leid-til-fortidar

 https://www.ogmundur.is/is/greinar/akall-til-samfylkingarinnar-ekki-blair-til-islands

 https://www.ogmundur.is/is/greinar/ny-skyrsla-um-einkaframkvaemd-i-bretlandi-vaxandi-efasemdir