Fara í efni

Fjölmenn og velheppnuð ráðstefna um kjaramál


Súlnasalurinn á Hótel Sögu var þétt setinn í gær þegar fjallað var um kjaramál starfsmanna ríkisins. Heildarsamtök starfsfólks í almannaþjónustu stóðu að ráðstefnunni, BSRB, BHM og Kennarasamband Íslands. Fjallað var um nýskipan í ríkisrekstri og launakerfi ríkisins, sem gengur undir því frumlega heiti Nýja launakerfið. Fræðimenn og fulltrúar samningsaðila reifuðu málin auk þess sem efnt var til almennra umræðna í kjölfarið. Á þessari vefslóð BSRB er greint frá því hverjir fluttu framsöguerindi á fundinum en ég var í þeim hópi. Mitt verkefni var að setja málin í sögulegt samhengi og einskorðaði ég mál mitt við launakerfið en fjallaði einnig um nýskipan í ríkisrekstri og þær afleiðingar, sem hún hefði haft í för með sér. Hér að neðan birti ég erindi mitt á ráðstefnunni og helstu efnisatriði í umfjöllun minni í almennri umræðu á ráðstefnunni:

Hvert stefnir í kjarasamningum hjá ríkinu er yfirskrift þessarar ráðstefnu, sem BHM, BSRB og Kennarasamband Íslands, standa sameiginlega að. Við höfum fengið fræðimenn og ýmsa valinkunna einstaklinga beggja vegna samningaborðsins til þess að varpa ljósi á kjaramálin hjá hinu opinbera, eins og það heitir, setja málin í sögulegt samhengi, meta reynslu undangenginna ára, freista þess að draga lærdóma af henni og velta vöngum yfir framhaldinu.

Það er óhætt að segja að síðasti hálfur annar áratugur hafi verið mikið umbrotaskeið á þessu sviði. Enda þótt við höfum, okkar megin frá, iðulega gagnrýnt ríkisvaldið fyrir einhliða ákvarðanir, og á stundum yfirgang, þá er að tvennu að hyggja.

Í fyrsta lagi er það staðreynd að ríkisvaldið efndi til umfangsmikillar umræðu um þær kerfisbreytingar sem það hafði á prjónunum allar götur frá því snemma á tíunda áratug síðustu aldar, talsvert áður en ráðist var í sjálfar breytingarnar og var fulltrúum launafólks iðulega boðið að leggja þar orð í belg.

Hitt er svo líka staðreynd, að ekki var það alltaf svo að ríkisvaldið næði sínu fram og er það kerfi sem við búum við í dag niðurstaða úr, oft á tíðum, harðvítugu átakaferli. Þau átök voru ekki einvörðunga á milli okkar og þeirra, eins og stundum er sagt, heldur var einnig tekist á um það innan raða launafólks, hvert bæri að stefna.

Megin sjónarmiðin

Á þessum árum fór Friðrik Sophusson fyrir fjármálaráðuneytinu. Á ráðstefnu í október 1994 spurði hann nánast sömu spurningar og við spyrjum nú, í erindi sem hann nefndi "Hvert skal stefna í launa- og starfsmannamálum ríkisins?"  Friðrik velktist ekki í vafa um svarið. Hann vildi dreifstýringu, allar ákvarðanir út í stofnanirnar, samræma réttindakerfin hjá hinu opinbera því sem var við lýði á almenna vinnumarkaðinum, afnema hvers kyns lagalega sérstöðu opinberra starfsmanna og síðast en ekki síst, auka ábyrgð og vald yfirmanna í launamálum. Í þessu skyni yrði að umbylta launakerfinu, sagði Friðrik Sophusson orðrétt, að "í stað þess að leggja megináherslu á starfsaldurshækkanir í kjarasamningum, verði meira tillit tekið til ábyrgðar, frammistöðu og framleiðni". Áherslan yrði með öðrum orðum á sjálfstæði hverrar starfseiningar annars vegar og á einstaklinginn hins vegar, fremur en þann hóp, sem einstaklingurinn tilheyrði.

Ráðist í breytingar

 Fljótlega var hafist handa um að breyta hinum lagalega ramma og fyrirkomulagi kjarasamninga til að ná þessu fram.

Veigamesta breytingin var kynnt með frumvarpi sem fól í sér umtalsverðar breytingar á lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Skýrasta dæmið um hve langt menn vildu ganga var 9. grein þess lagafrumvarps, þar sem m.a. annars var kveðið á um að forstöðumenn gætu greitt einstökum starfsmönnum laun til viðbótar grunnlaunum vegna sérstakrar hæfni, álags eða árangurs í starfi, eins og það var kallað. Í skýringum með þessu ákvæði kom fram að slíkum viðbótarlaunum mætti breyta með skömmum fyrirvara. Þarna var semsagt kominn sveigjanleikinn; sveigjanleiki í launum á forsendum forstjórans. Þetta var í góðu samræmi við það sem ríkisvaldið var að reyna að gera víða erlendis. Í Danmörku höfðu til dæmis um þessar mundir komið fram kröfur frá ríki og sveitarfélögum um að grunnlaun yrðu lækkuð um 10 til 20% en möguleikar til viðbótarálags hækkaðir að sama skapi. Með þessu móti væri hluti launamyndunarinnar á valdi forstjórans, sem verðlaunaði þá sem gerðu vel og var markmiðið - líkt og hér, sagt vera að örva menn til dáða, brýna þá eins og önnur verkfæri. Það er reyndar athyglisvert að í greinargerð með þessu frumvarpi kemur það viðhorf fram, að starfsmaðurinn þurfi að vita til hvers er ætlast af honum, eins og komist var að orði. Við fjarlægjumst þá hugsun að einstaklingurinn sé sjálfstæður og skapandi á eigin forsendum. Launakerfið skal nú hannað sem tæki sem stjórnandinn beitir, til þess að framkalla þá þætti sem nýtast starfseminni, þess vegna sköpunarkraft starfsmanna – en nú á forsendum forstjórans.

Danir kölluðu viðbótarlaun af þessu tagi fedtrövstillæg sem á íslensku útleggst sem baksleikjuviðbit og er lýsandi um hvernig margir töldu að kaupin myndu raunverulega gerast  á eyrinni; hvað menn þyrftu á sig að leggja til að teljast verðugir viðbótarframlagsins.

Viðbót eða önnur skipting á launasummunni?

Fljótlega staðnæmdust menn þar í umræðunni sem spurt var hvort hér væri raunverulega um nokkra viðbót að ræða. Það kom nefnilega skýrt fram hjá Friðriki Sophussyni, fjármálaráðherra og öðrum talsmönnum kerfisbreytinganna, að tilgangurinn með þeim væri fyrst og fremst sparnaður. Í ræðu sinni um launa- og starfsmannamál í október 1994, setti hann launakerfisbreytingarnar í einmitt þetta samhengi. Hann lagði fram tölur um launasummu ríkisins sem færi vaxandi, menn vildu ekki skattahækkanir, sagði hann. Þá stæði það eitt eftir að draga úr ríkisútgjöldum. Og þetta væri leið til þess. Í athugasemdum með lagafrumvarpinu frá 1996 er þessi hugsun orðuð mjög skýrt. Þar segir m.a.: "Öllum, sem láta sig fjármál ríkisins einhverju skipta, er það ... ljóst að eina leiðin til að ná jafnvægi í ríkisfjármálunum, án þess að hækka skatta, er að lækka ríkisútgjöld og það verður ekki gert að neinu ráði nema með því að draga úr kostnaði við starfsmannahald á vegum ríkisins... Hér á Íslandi verður, á sama hátt og gert hefur verið í nær öllum ríkjum OECD, að ráðast gegn þeim hugsunarhætti sem endurspeglast í setningum á borð við: "Þjónustan verður ekki aukin eða hún bætt nema með fleira starfsfólki." Einkafyrirtæki, ekki aðeins framleiðslufyrirtæki heldur einnig þjónustufyrirtæki, hafa þurft að bregðast við vaxandi samkeppni með því að draga úr kostnaði við starfsmannahald og jafnframt að bæta þjónustu við viðskiptavini sína.

Þannig hefur sumum fyrirtækjum tekist að standast samkeppnina með því að gjörbreyta skipulagi sínu og starfsháttum meðan önnur hafa setið eftir í sama gamla farinu og þar af leiðandi orðið undir á markaðinum"

Þessar grundvallarbreytingar sem ríkisstjórnin hugðist hrinda í framkvæmd með lagabreytingum vorið 1996 og í komandi kjarasamningum mættu sameiginlegri og mjög eindreginni andstöðu samtaka launafólks, sem sáu strax hættuna í því að auka forstjóravald og draga úr félagslegri aðkomu að kjarasamningum.

Mismunandi áherslur í röðum launafólks

Innan okkar raða höfðu engu að síður verið uppi mismunandi áherslur varðandi breytingar á launakerfinu. Í erfiðu samningsferli sem hófst árið 1989, hafði um skeið skilið leiðir með BHM annars vegar og BSRB og síðar einnig KÍ hins vegar þar sem BHM vildi auka sveigjanleika í samningum, leggja áherslu á menntun og ábyrgð einstaklingsins, peningalega og stjórnunarlega í starfi, en hin samtökin lögðu áherslu á að standa vörð um miðlæga samningsgerð. Talsmenn sveigjanleikans töldu mikilvægt að losa um í samningsumhverfinu til að auðvelda launaskrið, sem myndi á endanum skila sér til heildarinnar. Hinir síðarnefndu töldu hins vegar að slík þróun myndi geta af sér launakerfi með auknum launamun. Í hinu miðlæga launakerfi væri tekið tillit til almennra þarfa, - hvað kostar fiskurinn og húsaleigan fyrir hvern einstakan, óháð því hvernig hann plumar sig á vinnumarkaði, -  í hinu dreifstýrða umhverfi yrði hins vegar hver vinnustaður meira ráðandi, hans sérstöku þarfir og líklegt að stjórnendur myndu gefa talsvert fyrir svokallaða lykilmenn sér við hlið en minna fyrir aðra. Þetta yrði til að auka launabilið. Í þessu sambandi var bent á rannsóknir í Svíþjóð og víðar þar sem dreifstýring hefði til dæmis leitt til aukins launamunar kynjanna. Með auknu sjálfstæði stofnana og aukinni áherslu á sjálfsaflafé þeirra ættu starfsmenn á ríkum stofnunum, svo sem í orkugeiranum, auðveldar uppdráttar en í fjársveltum uppeldis- og umönnunarstofnunum. Fyrrnefndu væru karlavinnustaðir hinir síðari kvennavinnustaðir. Launamunur kynjanna myndi aukast. Niðurstaðan yrði því sú að uppstokkun launakerfisins myndi ekki leiða til kjarabóta fyrir heildina heldur yrðu skiptin einfaldlega önnur. Þá voru uppi miklar efasemdir í röðum miðstýringarmanna að afsala ýmsum hópákvæðum, þannig gætu starfsaldurshækkanir til dæmis fært einstaklingnum á milli 20 og 30% launahækkun á síðari hluta starfsævinnar og munaði um minna.

Þegar komið var fram yfir miðjan tíunda áratuginn verður of mikil einföldun að greina átakalínurnar í launamannahreyfingunni á milli samtaka því innan samtaka urðu nú ekki síður uppi mismunandi sjónarmið. Sú skoðun fór þannig að ryðja sér til rúms innan BSRB, að rétt væri að opna á breytingar á launakerfinu. Urðu um þetta talsverðar deilur, rækilega duldar út á við og jafnan á ljúfum málefnalegum forsendum inn á við – eða eigum við að segja oftast nær. Upp úr þessum potti hugmyndagerjunar mótast sameiginleg stefna sem launafólk í öllum fyrrgreindum samtökum nær saman um: Að tryggja félagslega aðkomu að samningum. Að hafna forstjórahyggju og byggja þess í stað allar ákvarðanir um launamyndun á félagslegum grunni. Um þessa grundvallarstefnu sameinuðust BHM, BSRB og Kennarasamband Íslands í aðdraganda kjarasamninganna 1997. 

Samtök launafólks ná saman

Margt varð til þess að skapa þessa samstöðu. Í fyrsta lagi fór það ekki fram hjá neinum hvað það var sem fyrir ríkisvaldinu vakti með launakerfisbreytingum. Það var jú vissulega að auka sveigjanleika og dreifstýringu en þó jafnframt og ekki síður að draga úr launakostnaði.
Þá var aukið forstjóraræði okkur ekki að skapi. Menn gátu deilt um launakerfin, menn gátu deilt um bónusa og álagsgreiðslur en hitt voru allir sammála um að slíkar greiðslur ættu að ákvarðast við samningaborð. Þegar upp var staðið var hið illræmda baksleikjuviðbitsákvæði sett á ís og er þar enn. Niðurstaðan varð sú að aðkoman að kjarasamningum varð mun félagslegri en upphaflega hafði verið lagt upp með af hálfu ríkisvaldsins og tel ég það vera lykilatriði.

Að lokum langar mig til að víkja að grundvallaratriði í umræðunni sem fram hefur farið um kjarakerfin síðasta hálfan annan áratuginn og það lýtur að launamun í kerfinu, þar á meðal á milli kynja.

Í þeirri ræðu Friðriks Sophussonar frá í október árið 1994 sem ég vitnaði áður til segir m.a. eftirfarandi: "Að undanförnu er mjög algengt að því sé haldið fram að "launakerfi ríkisins" sé ónýtt. Þá virðast menn eiga við það hvernig laun eru ákveðin en í umræðunni er þess aldrei getið við hvaða"fullkomna" kerfi er miðað. Gagnrýnendur benda á "að draga þurfi úr launamisrétti, hækka lægstu launin, einfalda kerfið og gera það gegnsærra, þannig að ljóst sé hver launakjörin eru í raun og veru". Og takið nú eftir, því nú heldur fjármálaráðherrann, þáverandi áfram máli sínu: "Þessi markmið eru sjálfsögð, en þau eiga ekki sérstaklega við launakerfi ríkisins frekar en annarra. Launakerfið þarf t.d. að vera gegnsærra en það á bæði við hjá ríkinu og á hinum almenna markaði."

Þetta eru yfirlýsingar sem ég hef alltaf átt erfitt með að kyngja því þarna voru gefin fyrirheit sem aldrei stóð til að efna.

Það er augljóst að eftir því sem launamyndunin verður dreifðari er erfiðara að beita markvissum aðgerðum til þess að draga úr launamun, þar á meðal launamun kynjanna. Það eru vissulega til leiðir til að ná því marki, svo sem að leggja áherslu á ókynbundið starfsmat sem grundvöll kjaraákvarðana. Það stríðir hins vegar tvímælalaust gegn þeirri markaðshugsun, sem kerfið byggir á eins og það var upphaflega hugsað af hálfu ríkisvaldsins. Við þurfum hins vegar að halda þessari hugsun til haga við gerð kjarasamninga. En þá megum við heldur ekki gleyma varnaðarorðum Anitu Harriman sem kom hingað til lands á vegum Jafnréttisráðs um miðjan tíunda áratuginn. Hún hvatti til ókynbundins starfsmats en það þyrfti að ná til allra launa – líka hvers kyns viðbótargreiðslna. Þetta væri lykilatriði.

Mín skoðun er sú of mikið hafi verið gert úr því á  sínum tíma hve illa kerfið hafi verið farið, það hafi bókstaflega verið ónýtt og jafnvel einnig hinu hve ógagnsætt það hafi verið. Launin voru einfaldlega of lág og varðandi ógagnsæið þá held ég að öðru hafi verið um að kenna en forminu.

Semjum á félagslegum grunni

Í ræðu sem ég flutti í þessum sal á ráðstefnu sem fjármálaráðherra boðaði til í nóvember 1996 undir yfirskriftinni Breytt umhverfi starfsmannsins, gagnrýndi ég harðlega þær blekkingar sem ég taldi hafa verið viðhafðar um að breytt launakerfi myndi sérstaklega gagnast konum og draga úr launamun. Einnig vék ég að gagnsæinu með eftirfarandi orðum: "Mönnum verður tíðrætt um að launakerfið sé ranglátt og ógagnsætt. Það er vissulega ranglátt en ógagnsætt er það ekki. Launakannanir hjá Reykjavíkurborg og Norræna jafnlaunaverkefninu leiddu í ljós að launamisréttið væri einkum að finna í yfirborgunum. Þessar yfirborganir eru hins vegar gagnsæjar. Þær heita bílapeningar og yfirvinna, það er að segja greiðslur umfram það sem unnið er eða ekið. Hvort tveggja eru auðskiljanlegar mælieiningar. Það er hægt að mæla hve mikið starfsmaðurinn ekur eða hve lengi hann vinnur. Ef það er gert kemur í ljós að þeir sem standa ofarlega í stjórnkerfinu fá meira á kostnað hinna. Mælieinigin er því ekki vandamálið heldur sá sem mælir, eða öllu heldur sá sem skammtar, forstjórinn og nú á að búa honum kerfi sem færir honum aukin völd í hendur. Það kerfi sem nú er verið að bjóða upp á er hins vegar ógagnsætt. Vísbending um hvert stefnir eru svokallaðar starfseiningar sem kjaranefnd og kjaradómur hefur tekið upp. Þær eru blanda yfirvinnu og álags og ábyrgðar. Með öðrum orðum ekki er lengur hægt að sjá fyrir hvað er verið að greiða hverju sinni."

Staðreyndin er sú að kerfið verður sífellt flóknar, illskiljanlegra og þá jafnframt ógagnsærra. Í þessu sambandi má geta þess að launaleynd fer vaxandi þvert á ákvæði upplýsingalaga og hefur ekkert hald reynst í úrskurðarnefnd sem starfar samkvæmt þessum lögum. Hvað þetta snertir reyndumst við mörg sannspá. Að hinu leytinu verður það að segjast að verstu hrakspár sem við höfðum sum hver uppi, hafa ekki gengið eftir. 

En tvennt ber þó að hafa hér í huga. Í fyrsta lagi er sáralítið farið að reyna á þessar kerfisbreytingar. Við höfum búið við þenslu og launaskrið á vinnumarkaði og ekki enn farið að reyna á hvernig kerfið virkar í samdrætti. Hættan er hins vegar engan veginn sú sama og orðið hefði ef ríkisvaldið hefði náð sínu fram um að draga stórlega úr vægi grunnlauna og hafa drjúgan hluta launanna breytilegan eftir því hvernig blési fyrir viðkomandi stofnun hverju sinni. Þessum slag er þó engan veginn lokið og kem ég þá að hinu atriðinu sem ég vildi nefna. Stéttarfélögin hafa haft veruleg áhrif á þróun launakerfisins – því má aldrei gleyma. Það er mun félagslegra en lagt var upp með. Við settum okkur það markmið að koma félagslegum böndum á alla samninga og draga þannig úr mismunun í kerfinu. Spurningin sem þörf er á að fá svar við er að hvaða marki þetta hafi tekist.

En meginmáli skiptir þó hver okkar langtímamarkmið eru: Að mínu mati eru þau sígild: Að draga úr launamun og hvers kyns launamisrétti og gera kerfið eins opið og gagnsætt og kostur er. Okkar grundvallarkrafa er nú sem fyrr, um öll kjör verði samið á félagslegum grunni. 


Á ráðstefnunni í Súlnasalnum gær kom fram hjá mörgum fyrirlesurum ánægja með kerfisbreytingarnar hjá mörgum fyrirlesurum. Ekki er ég sammála því viðhorfi. Hugurinn reikar aftur til allra þeirra ráðstefna sem boðað var til um miðjan síðasta áratug þar sem nýskiptan í ríkisrekstri, hin nýja hugmyndafræði var skýrt kortlögð: Stjórnmálamenn áttu að skilgreina þau verk sem átti að vinna og hve miklu ætti að kosta til en síðan væri það starfseininganna, stofnana eða fyrirtækja, að framkvæma. Það þótti liggja í hlutarins eðli, að ekki skipti máli hvort framkvæmdaaðilinn væri opinber stofnun eða einkaaðili, öllu máli skipti að markmiðunum sem lýðræðislega kjörnir fulltrúar settu, um árangur og kostnað, væri fullnægt. Eftirlit ætti síðan að byggjast á skýrum þjónustusamningum.

 Í umræðunni benti ég á að það hefði ekki verið nein tilviljun að frjálshyggjumennirnir í fjármálaráðuneytinu sóttu í smiðju skoðanasystkina sinna um fyrirmyndir, þar á meðal til Nýja Sjálands en þar var helsta tilraunastofa frjálshyggjunnar í heiminum á níunda og framan af tíunda áratugnum. Með þetta í huga sagði ég á þessa leið í hinum almennu umræðum:

"Mér er minnistæð glærusýning sem Ruth Richardsson, fyrrum fjármálaráðherra Nýja Sjálands, hélt á andheitum fundi á Hótel Loftleiðum, þar sem hún varaði ríkisstjórnina við að hlusta á samtök opinberra starfsmanna. "Takið ykkar ákvarðanir og framkvæmið þeir fljótt og markvisst – hikið aldrei", sagði þessi eldheita baráttukona við þáverandi ríkisstjórn.

Hugsunin á Nýja Sjálandi var í sama anda og sú hugmyndafræði sem var í mótun hjá OECD frá því á níunda áratugnum og gekk hún út á eftirfarandi: Ríkisútgjöld halda áfram að vaxa jafnt og þétt. Meinsemdin er að hluta til opinberir starfsmenn. Þeir gera kröfu um hærra kaup, betri starfsaðstæður og kjör fyrir sína skjólstæðinga, hvort sem það eru nemendur, sjúklingar eða aðrir sem sækja til velferðarþjónustunna. Þessar kröfur eru uppi hvernig sem viðrar í efnahagslífinu. Á markaði eru fyrirtæki einfaldlega tilneydd að draga saman seglin í í efnahagslægðum og samdrætti. Starfsöryggi opinberra starfsmanna og linnulaus fjáraustur úr ríkis- og sveitarsjóðum veldur því hins vegar að þar hefur efnahagsástandið engin áhrif á starfsemina eða yfirhöfðu afstöðu manna. Þess vegna halda útgjöldin áfram að bólgna út. Og hvernig skal brugðist við þessu? Með því að gera ríkisstofnanir háðar sömu lögmálum og markaðurinn starfar samkvæmt. Tiltekin peningasumma skal vera hverjum þjónustuaðila til ráðstöfunar og allar ákvarðanir um ráðstöfun þeirra fjármuna skulu teknar  innan vegja viðkomandi stofnunar. Ef hún getur gert hlutina á hagkvæmari hátt en áður, þá nýtur hún þess, annars sker hún niður. Ég hef oft tekið dæmi af skóla, sem ég einhvern tímann las um á Nýja Sjálandi sem mér finnst vera lýsandi um þessar kerfisbreytingar og þeir afleðingar sem þær höfðu í för með sér.

Kennararnir við skólann voru orðnir langþreyttir á slæmum kjörum sem þeir töldu sig búa við Þeir höfðu staðið í áralangri kjarabaráttu og eins og kennarar annars staðar var þeim einnig umhugað um hag sinna nemenda, þeir vildu bæta hann. Þeir gerðu jafnana kröfur fyrir hönd nemenda sinna, um stærð bekkjardeilda og þar fram eftir götunum. En nú kom kostaboð. Föst summa til skólans sem hann fengi að ráðstafa sjálfur. Og eins og oft hefur verið gert við innleiðingu nýrra kerfa var heldur bætt í fjárveitinguna í upphafi til að fá menn til stuðnings við hana. Síðar var skorið niður og reistar kröfur um sjálfsaflafé. Allt þetta gekk eftir. Í fyrstu ríkti almenn ánægja en smám saman dróg úr henni en það sem alvarlegra var, hugsunarhátturinn innan veggja skólans breyttist. Nú var spurt. Þarf að mála skólann aftur í ár? Þarf tvo húsverði, nægir ekki einn, get ég ekki fjölgað í mínum bekk við brotthvarf kennarans í næstu stofu, og hvers vegna í ósköpunum á ekki að leyfa foreldrum, sem vilja bæta menntun barna sinna greiða skólagjöld?

Það sem hafði breyst var að niðurskurðarhnífurinn var kominn í hendur starfsfólksins. því minna til annarra, þeim mun meira til mín. Og það er einmitt hér sem ég tel helstu hættuna vera fólgna í þeim kerfisbreytingum, sem við erum að glíma við. Að sú varðstaða – oft á tíðum  óbilgjarna varðstaða - sem hinn miðstýrði ríkisstarfsmaður sem býr vað starfsöryggi, stendur fyrir hönd sinna skjólstæðinga, veikist. Ég tel að eftirlit með samningum – þjónustusamningum -  hversu skýrir og gagnsæir sem þeir kunna að vera,  komi aldrei í veg fyrir varðstöðu starfsfólksins."

Við þetta má bæta að á móti hljóti menn hins vegar að spyrja hvort ekki sé rétt að virkja viljann til að fara vel með fjármuni. Tvímælalaust þarf að gera það og ég get nefnt mörg dæmi í tímans rás þar sem það hefur tekist bærilega. Mín skoðun er sú að við eigum ekki að óttast togstreitu innan kerfisins á milli fjárveitingarvalds og starfsmanna. Hún er meira að segja lífsnauðsynleg – togstreita á milli þeirra sem hafa ábyrgð á ráðstöfun skattfjárins og hinna sem hvergi mega gefa eftir í kröfum fyrir hönd þeirra sem eiga að njóta þjónustunnar.