Fjármálaráðherra vill kaupa syndaaflausn
Birtist í Mbl
Í opnuviðtali við Geir H. Haarde fjármálaráherra í Morgunblaðinu sl. sunnudag segist hann vilja afnema eignatengingu barnabóta. Yfirlýsingu ráðherrans er réttilega slegið upp sem frétt í blaðinu enda er ráðherranum mikið niðri fyrir. Hann segir að þessi tenging geti komið mjög illa út fyrir fólk: „Ég hef séð dæmi þess við álagninguna nú að hin gífurlega hækkun íbúðaverðs og fasteignamats hafi hækkað verðmæti eigna viðkomandi án þess að tekjurnar hafi nokkuð breyst. Þá skerðast barnabæturnar af þessum sökum. Þetta kemur verst niður á þeim sem hafa lágar eða meðaltekjur en eiga sitt eigið húsnæði.“ Síðan áréttar ráðherrann að sér finnist þetta vera „mjög ranglátt“ og klykkir út með því að hann vilji beita sér fyrir breytingu í þessu efni „sem fyrst“ og segir hann að athuganir sýni að þetta „yrði ekki ýkja kostnaðarsamt.“
Það er í sjálfu sér ágætt að fá það fram að fjármálaráðherra skuli gera grein fyrir því að hann þekki dæmi þess að eignatenging barnabótanna hafi bitnað illa á millitekju- og lágtekjufólki. En í framhaldinu er eðlilegt að beina þeirri spurningu til hans sjálfs hvers vegna í ósköpunum æðsti yfirmaður skattamála hafi ekkert aðhafst í þessu brýna réttlætismáli, að ekki sé minnst á samstarfsmenn hans úr Framsóknarflokknum, sem gerðu það að helsta kosningamáli sínu að þeir vildu stórauka stuðning við barnafólk. Ríkisstjórnin hefur enga tilburði sýnt til að standa við gefin fyrirheit í þessu efni og þarf nú að sitja undir vaxandi gagnrýni og rísandi reiðiöldu.
Dæmi úr veruleikanum
„Ég ákæri“ var fyrirsögn mjög skeleggrar greinar eftir Kristínu Magnúsdóttur kennara í Morgunblaðinu á þriðjudag. Greinarhöfundur gerir ítarlega grein fyrir því hvernig barnabæturnar hafi verið skertar „í skjóli ótrúlega grimmilegs ákvæðis í skattalögum.“ Þar vísar Kristín sérstaklega í reglugerð sem sett var í ársbyrjun 1999 en í þessari reglugerð er kveðið á um skerðingu á barnabótum vegna eigna og tekur hún dæmi af sjálfri sér, kennara með 140 þúsund krónur á mánuði, einstæðri og með sex börn á framfæri, þ.á m. eitt átta ára og eitt tíu ára. Skerðing barnabóta þessara tveggja barna nemur 140 þúsundum króna auk þess sem móðurinni er gert að greiða hærri fasteignagjöld vegna íbúaðarhúsnæðis fjölskyldunnar og nemur hækkunin 60 þúsund krónum. „Þessi þjófnaður gerðist á mínu heimili og mun halda áfram að gerast verði hann ekki stöðvaður,“ segir Kristín Magnúsdóttir ennfremur í grein sinni.
Kosningaloforð að hætti Framsóknarflokksins
Ekki veit ég hvernig framsóknarmönnum líður við þennan lestur, sérstaklega þeim sem höfðu hæst um fyrirhugaðan stuðning við barnafólk. Enda þótt einhverjir kunni að hafa haft efasemdir um að framsóknarmenn myndu standa við kosningaloforð sín hafa eflaust fáir haft ímyndunarafl til að sjá fyrir að þeir myndu byrja á því að efna kosningaloforð sín með því að skerða barnabæturnar enn frekar!
Nú segir Geir H. Haarde fjármálaráðherra það ekki „ýkja kostnaðarsamt“ að kippa því ákvæði sem hér er sérstaklega til umræðu í liðinn samanber þá yfirlýsingu hans að afnema „sem fyrst“ eignatengingu barnabótanna. Að sjálfsögðu yrði kostnaðarsamara að bæta barnafólki þá skerðingu sem það hefur orðið að sæta á liðnum árum og það sem meira er, búa því þannig skilyrði að þjóðin verði fullsæmd af.
Ef litið er til fjárlaga síðustu ára kemur í ljós hve kostnaðarsamt það hefur verið fyrir barnafjölskyldur að hafa Sjálfstæðisflokkinn og samstarfsflokka hans við stjórnvölinn í landinu. Í meðfylgjandi töflu sést hver þróunin hefur verið á árabilinu frá 1991 til 1999. Á föstu verðlagi eru barnabæturnar rúmum tveimur milljörðum lægri nú en þær voru í upphafi áratugarins. Þetta skyldi fjármálaráðherrann hafa í huga áður en hann reynir að tryggja sér skjótfengna syndaaflausn. Þannig gerast kaupin ekki á þessari eyrinni. Hér þurfa raunverulegar og það allverulegar kjarabætur að koma til sögunnar. Í þessu efni mun fólk ekki láta blekkjast einfaldlega vegna þess að það finnur fyrir skerðingarhnífnum á eigin kroppi. Þetta veit fjármálaráherra landsins sem sjálfur hefur komið fram í fjölmiðlum og vitnað um ranglátar afleiðingar eigin gjörða og pólitískra samferðarmanna sinna.