Fara í efni

Fjármálaráðherra í andstöðu við jafnréttislög

Birtist Mbl
Í nýuppkveðnum dómi Hæstaréttar er íslenska ríkið skyldað til að greiða ríkisstarfsmanni bætur þar sem ekki hafi verið sýnt fram á að lögmætar ­ hlutlægar ástæður ­ skýri launamun viðkomandi starfsmanns og annars starfsmanns sem gegnir sama starfi en er í öðru stéttarfélagi og býr við önnur kjör.

Í dómsniðurstöðu Hæstaréttar segir að „…samkvæmt almennum sönnunarreglum…“ beri launagreiðanda „…að sýna fram á það, að hlutlægar ástæður hafi ráðið launamuninum.“ Þessar hlutlægu ástæður geta verið margvíslegar svo sem lífeyrisréttindi, fæðingarorlof, veikindaréttur, starfsreynsla. Í þessu tilviki sýndi launagreiðandi ekki fram á að kjör og réttindi af þessu tagi skýrðu launamuninn og því fór sem fór. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að um ólögmæta mismunun og misrétti væri að ræða.

En hvaða lærdóm má draga af þessu máli? Fjármálaráðherra segir að þetta hljóti að flýta því að kjarasamningar verði færðir út á stofnanir og komið á þeim launakerfisbreytingum sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir. Þetta er alrangt hjá ráðherranum og vonandi misskilningur af hans hálfu því dómurinn gengur þvert á stefnu fjármálaráðherra.

Nauðsynlegt er í ljósi yfirlýsinga ráðherrans að leggja áherslu á að ekki er um það deilt hvort færa beri launaákvarðanir inn á stofnanir í ríkari mæli en verið hefur. Deilan snýst um það á hvaða forsendum slíkt yrði gert. BSRB hefur lagt kapp á að tryggja að launaákvarðanir séu á félagslegum forsendum. Þess vegna hafa samtökin lagt til að gert verði rammasamkomulag þess efnis að um kjör verði samið á félagslegum grunni.

Þessu hefur fjármálaráðherra hafnað og haldið til streitu kröfu um forstjóravald. Hann neitar að semja við stéttarfélögin um hvaða reglur skuli gilda um launaákvarðanir úti í stofnunum og hugmyndin er sú að endanlega verði það á valdi forstjórans að ákveða "viðbótarlaun" eða geðþóttalaun sem svo hafa verið nefnd einmitt vegna þess að þau byggjast á huglægu mati en ekki hlutlægu.

Og hér liggur hundurinn grafinn. Samkvæmt fyrrnefndum dómi er ólögmætt að mati Hæstaréttar að mismuna á grundvelli huglægs mats. Launaákvarðanir á slíkum forsendum yrðu að ná til allra og væru því aðeins löglegar að svo væri. Þá væri hins vegar ekki lengur um einstaklingsbundið geðþóttalaunakerfi að ræða heldur kerfi sem byggðist á almennum umsemjanlegum forsendum. Með öðrum orðum geðþóttalaunakerfi er í andstöðu við landslög. Þess vegna ber fjármálaráðherra að endurskoða afstöðu sína til launakerfisbreytinga.