Fara í efni

FJARLÆGJUM ELDFÆRIN

Birtist í Morgunblaðinu 17.02.05.
Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins um síðustu helgi fjallar um samkeppninsmál og þörf á strangari samkeppnislöggjöf en við búum nú við. Í þessum skrifum má kenna meiri velvilja af hálfu Morgunblaðsins í garð stórfyrirtækisins Baugs en gætt hefur fram til þessa í skrifum blaðsins: "Félagið starfar nú af miklum myndarskap á matvörumarkaðnum í tveimur löndum, þ.e. á Íslandi og í Bretlandi." Og Morgunblaðið fyllist aðdáun yfir fyrirhuguðum landvinningum Baugs í Bretlandi og eru bresk stórblöð kölluð til vitnis: "Verði af þessari yfirtöku telur Financial Times, að Baugur muni ráða yfir 7,6% af matvælamarkaðnum í Bretlandi. Hér er auðvitað um að ræða glæsilegan árangur á skömmum tíma. Ef tekið er mið af orðum, sem Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Baugs Group hefur látið falla er ljóst að innkaupaafl fyrirtækisins verður langtum meira en áður, sem er líklegt til að leiða til verðlækkana í verzlunum fyrirtækisins bæði í Bretlandi og á Íslandi."

Þróttmikill ráðherra og heimóttarskapur?

En þrátt fyrir þennan nýtilkomna hlýhug í garð Baugs eru enn efasemdir á ritstjórnarskrifstofunni gagnvart hringamyndun og horfa menn þar á bæ vonaraugum til framsóknarkonunnar, "hins þróttmikla viðskiptaráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur..." Blaðinu virðist reyndar svo annt um að styggja ekki stórkapítalistana að forstjórinn úr Samson-hópnum er kallaður til vitnis um að Moggalínan sé í lagi. Í Reykjavíkurbréfi segir: "Í athyglisverðri ræðu á Viðskiptaþingi sl. þriðjudag talaði Björgólfur Thor Björgólfsson, einn helzti forystumaður Samsonar-samsteypunnar um ákveðinn "heimóttarskap", sem einkenndi afstöðu Íslendinga til umsvifa íslenzkra fyrirtækja í öðrum löndum. Þetta er vafalaust rétt hjá Björgólfi Thor. Hér ríkir heimóttarskapur af margvíslegu tagi. M.a. af því tagi, að ekki megi setja neinar reglur, sem máli skipta um viðskiptalífið, þótt það þyki sjálfsagt í öðrum löndum."
Og Reykjavíkurbréf hefur ekki sagt sitt síðasta orð gegn fákeppni og einokun. Helstu baráttuöflin gegn slíkri tilhneigingu eru að mati blaðsins í núverandi ríkisstjórn! Og Reykjavíkurbréf vill stappa stálinu í stjórnarflokkana í meintri baráttu þeirra fyrir almannahag: "Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur eiga heldur ekki að láta að því er virðist fullkomið áhugaleysi og skoðanaleysi Samfylkingar og Vinstri grænna hafa áhrif á sig. Þetta mál snýst um almannahagsmuni og hagsmuni neytenda sérstaklega".

Tillögur VG

Við þessi skrif vakna spurningar. Hvernig skyldi til dæmis hafa verið tekið á öllum þeim tillögum sem Vinstrihreyfingin - grænt framboð hefur borið fram um skorður á samkeppnismarkaði í starfsemi fjármálafyrirtæka, í lyfjaiðnaði, á sviði trygginga og víðar? Aldrei kom fram stuðningur við þessi þingmál nema veiklundaður og aðeins í orði kveðnu. Fjölmiðlamálið var hins vegar flóknara og strandaði á óvönduðum vinnubrögðum og tregðu stjórnvalda að upplýsa um framtíðaráform sín gagnvart Ríkisútvarpinu.
En af tilefni þessara skrifa í Reykjavíkurbréfi um meinta staðfestu ríkisstjórnarinnar í baráttu við einokunarauðvaldið, leyfi ég mér að spyrja hvort ekki eigi enn við hið fornkveðna að á skuli að ósi stemma, eða með öðrum orðum að reynt skuli að komast fyrir rót vandans. Gæti nú ekki verið að ýmis sú þjónusta sem hefur verið einkavædd hefði betur verið komin í höndum þjóðarinnar?
Ástæaðan fyrir því að við, sem skipum raðir Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, vorum andvíg einkavæðingu bankanna var ekki sú að við teldum sáluhjálparatriði að bankar væru alltaf og ævinlega í þjóðareign, heldur hitt að óheppilegt væri fyrir samkeppnismarkaðinn að eignarhaldið á bönkum kæmist í hendur þeirra aðila sem jafnframt væru umsvifamestir á öðrum sviðum efnahagslífsins. Við óttuðumst að einkavæðing beggja ríkisviðskiptabankanna samtímis yrði til þess að auka enn á samþjöppun og hringamyndun í okkar litla hagkerfi og ætli sá ótti hafi nú verið alveg ástæðulaus? Þegar þetta náði ekki fram að ganga bar VG fram tillögu um dreifða eignaraðild og síðar frumvarp þar sem kveðið var á um að fjárfestingarbankar gætu ekki jafnframt verið almennir viðskiptabankar. Hvorki reyndist ríkisstjórnin né hinn "þróttmikli viðskiptaráðherra" fáanleg til að taka þátt í rökræðu um þetta efni þegar til kastanna kom. Þrótturinn og krafturinn fólst fyrst og fremst í ákafa til að selja meira og einkavæða fleira.

Dómgreindarleysi

Þessi ákafi þykir mér ekki vera aðdáunarverður heldur til marks um undravert dómgreindarleysi. Því miður verð ég að bera svipaðar sakir á höfund síðasta Reykjavíkurbréfs. Hann skrifar sitt bréf á sama tíma og fjölmiðlar segja okkur frá því að Baugur, Samson  og framsóknarvinirnir sem spila með VÍS milljarðana, allir styrkþegar ríkisstjórnarinnar frá einkavæðingu síðustu missera og ára, hafi nú raðað sér upp og bíði þess að fá Landssímann afhentan.
Ég beini þeirri spurningu til höfundar síðasta Reykjavíkurbréfs hvort besta ráðið til að koma í veg fyrir að dýrmætustu eignir þjóðarinnar streymi eftir færibandi einkavæðingarinnar sífellt í hendur sömu fáu aðilanna kunni ekki að vera það að tryggja áframhaldandi þjóðareign. Hvort það geti ekki hugsast að ríkisstjórnarflokkarnir með sína "þróttmiklu" ráðherra séu sjálfir mestu skaðvaldarnir í einokunarþróuninni þegar allt kemur til alls?
Þjóðfélagið stefnir inn á hálar brautir. Undir það get ég tekið með Morgunblaðinu. Ég væri meira að segja reiðubúinn að kveða sterkar að orði og tala um þjóðfélag sem logi orðið stafna í milli. Eigum við að byrja á því að setja  reglur um brunavarnir eða einfaldlega taka eldspýturnar af brennuvörgunum – og þá byrja á hinum afkastamestu eða þróttmestu eins og Morgunblaðið orðar það? Ég hallast helst að hinu síðarnefnda: Að fjarlægja eldfærin.