Fara í efni

FJALLAÐ UM VERKALÝÐSBARÁTTU OG MANNRÉTTINDI Á KIRKJUDÖGUM

Þessa dagana eru haldnir svokallaðir Kirkjudagar í Reykjavík en á þeim er efnt til umræðna um aðskiljanleg efni í sérstökum málstofum. Mér var boðið að halda utan um eina slíka málstofu sem bar heitið Verkalýðshreyfingin og mannréttindabaráttan. Á málfundinum spunnust áhugaverðar umræður.

Meðal annars töldu menn að markmiðið með verkalýðsbaráttu væri að færa lífsbaráttu einstaklinganna inn á sameiginlegan vettvang samstöðunnar. Á þessu væri sérstaklega þörf þegar einstaklingurinn orkaði ekki einn og óstuddur að sækja rétt sinn. Viðfangsefni verkalýðsbaráttunnar væru margvísleg, jafna kjörin, sjá til þess að um réttindi fólks giltu eðlilegar reglur og að þær væru virtar. Þetta bæri okkur að hafa í huga í nánasta umhverfi okkar en einnig á heimsvísu.

Athygli var vakin á því að 1. júlí næstkomandi er alþjóðlegur baráttudagur gegn fátækt. PSI, Public Services International, Samtök launafólks í almannaþjónustu, sem BSRB á m.a. aðild að, hvetja til þess að á þessum degi verði minnt á mikilvægi almannaþjónustunnar og hve nauðsynleg góð velferðarþjónusta sé hverju samfélagi, ekki síst þeim sem eru að reyna að brjótast frá örbirgð til bjargálna. Það er ömurlegt til þess að hugsa að margauglýstar ívilnanir gagnvart mörgum skuldugustu ríkjum heimsins skuli háðar því að þau lagi sig að markaðsmódelum Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem m.a. felur í sér kvaðir að einkavæða ýmsa grunnþjónustu samfélagsins. Þetta er aðferð alþjóðafjármagnsins til þess að komast yfir verðmætar eignir.

En aftur að því grundvallarviðhorfi að verkalýðsbaráttan snúist um að færa baráttu einstaklinga og hópa inn á sameiginlegan vettvang samstöðunnar, einkum þegar um er að ræða réttindi sem erfitt er fyrir einstaklinginn að standa vörð um. Í málstofunni var rætt um það hvar nú væri einkum þörf á samstöðu af þessu tagi. Mörg atriði bar á góma. Eftirtektarvert var hve menn voru slegnir yfir þeirri þróun sem nú á sér stað í íslenskri fjölmiðlun. Það færðist í vöxt að viðkvæm málefni einstaklinga væru tekin til óvæginnar umfjöllunar í fjölmiðlum og væru tilfinningar fólks iðulega fótum troðnar. Þetta væri ofbeldi og gagnvart því stæðu einstaklingarnir berskjaldaðir. Þeir hefðu hvorki þrek né getu til að svara fyrir sig enda auðvelt mál að valta yfir þá aftur í næsta blaði eða í næsta þætti. Þetta væri orðið samfélagsmein og þyrfti samfélagið í sameiningu að taka á því. Í þessu sem öðru væru orð til alls fyrst.

Í málstofunni um verkalýðshreyfinguna og mannréttindi var það semsé mál manna að verkalýðshreyfingunni og reyndar öllum þeim sem er annt um mannréttindi beri að gera sitt til að beina sumum fjölmiðlanna inn á uppbyggilegri brautir en þær sem þeir hefðu nú haldið út á. Þetta verkefni hlýtur að brenna á blaðamannastéttinni öllum öðrum fremur. Okkar hinna er að halda henni við efnið og minna hana á hver ábyrgð fjölmiðlanna er í þjóðfélagi sem vill virða mannréttindi.