Fara í efni

FINNUR OG GUÐLAUGUR ÞÓR


Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði á fundi sjálfstæðismanna í Valhöll fyrir viku, að hann teldi að ekki hefði verið hægt að koma breytingum á lögum um sjúkratryggingar í gegn í annarskonar stjórnarsamstarfi en því sem nú er milli Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar.

Samfylkingin og veki sjúklinganna

Þetta er eflaust rétt mat hjá formanni Sjálfstæðisflokksins. Það þurfti Samfylkinguna til að samþykkja að færa heilbrigðisþjónustuna inn í viðskiptaumhverfi. Ólína, gamalkunn hér á síðunni, segir í lesendabréfi það vera „einkennilegt að Samfylkingin skuli vera skilgreind nauðsynleg forsenda fyrir því að hleypa einkaaðilum í veski sjúklinganna." (https://www.ogmundur.is/is/greinar/how-do-you-sleep-at-night).
Mér kemur þetta ekki sérstaklega á óvart  eftir að hafa hlýtt á málflutning þingmanna Samfylkingarinnar á Alþingi. Talsmenn Samfylkngarinnar  klifa að vísu á því að ekki eigi að láta sjúklinga borga, bara skattborgarann. Þetta tal gef ég sannast sagna lítið fyrir þar sem Samfylkingin hreyfir ekki litla fingur til að aflétta gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu, þvert á móti er gefið í!  

Guðlaugur Þór: Pólitískur arftaki Finns?

Hið óhugnanlega við þessa þróun er hvernig fjárfestingargeirinn er farinn að renna hýru auga til heilbrigðisþjónustunnar og horfir til Guðlaugs Þórs með nákvæmlega sömu væntingum og fjármálageirinn og rafmagnsgeirinn horfði til Finns Ingólfssonar á sínum tíma. Finnur brást þessum aðilum ekki. Hann einkavæddi bankana, rafmagnseftirlitið og heita vatnið og við vitum hvert framhaldið varð. Guðlaugur þór er nú að færa heilbrigðisþjónustuna eins og hún leggur sig upp á færiband markaðsvæðingar.

Hagkaup, Krónan og Landspítalinn

Reykjavíkurbréf  Morgunblaðsins um nýliðna helgi styður sinn mann og leggur að jöfnu samkeppni Hagkaups og Krónunnar annars vegar og veitenda þjónustu á heilbrigðissviði hins vegar. Guðlaugur Þór og Morgunblaðið segir að þetta muni snúast um blómstrandi samkeppni þar sem hagsmunir notenda og greiðenda verði tryggðir til hins ítrasta. En hvað segir reynslan? Hvað gerðist með bankana? Hvað gerðist með rafmagnseftirlitið? Svar: Fákeppni og einkavinavæðing!

Reykjavíkurbréf segir það sem hægri menn í Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu hugsa

Það er veruleg ástæða til að ætla að nákvæmlega hið sama komi til með að gerast í heilbrigðisgeiranum. Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins um síðustu helgi ætti að verða skyldulesning. Þar er sagt allt það sem sjálfstæðismenn og ýmsir forkólfar Samfylkingarinnar á þingi hugsa en þora ekki að segja - að sinni.

Sjá nánar frétt af Valhallar-yfirlýsingum Geirs H. Haarde:  http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/09/14/nuverandi_stjornarsamstarf_forsenda_breytinga_a_sju/