Fara í efni

FENEYJARNEFNDIN OG ÖRYGGISVENTILLINN

Þjóðaratkv. - beint lyðr
Þjóðaratkv. - beint lyðr

Stjórnlagaráð vildi efla beint lýðræði. Því er ég hjartanlega sammála. Ég er að vísu ósáttur við þá tillögu Stjórnlagaráðs að heimila ekki þjóðinni að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um skattamálefni eða þjóðréttarskuldbindingar. Það breytir því ekki að verulega rýmkun hvað varðar aðkomu almennings að ákvörðunum um almannahag, er að finna í tillögum Stjórnlagaráðs.
Enda þótt Stjórnlagaráð gerði ráð fyrir beinni aðkomu þjóðarinnar að ákvarðanatöku var ekki lagt til að dregið yrði jafnframt úr rétti forsetans til að vísa málum til þjóðarinnar. Mér hefur aldrei þótt milliganga forsetans vera rétta leiðin að koma á beinu lýðræði, en málsskotaréttur hans er engu að síður mikilvægur öryggisventill. Nú bregður svo við að Feneyjarnefndin svokallaða, sem skipuð er sérfræðingum Evrópuráðsins, segir að hætta sé á því að forsetinn misnoti málsskotsrétt sinn. Sé forsetinn á öndverðum meiði í stjórnmálum við meirihluta Alþingis geti hann vísað óvinsælum lögum í þjóðaratkvæðagreiðslu og skaðað þannig sitjandi ríkisstjórn.
Þetta þykir mér undarleg afstaða. Hvaða mál gæti hér verið um að tefla? Hvaða mál geta verið þess eðlis að það sé hættulegt sitjandi stjórnvöldum að þeim sé skotið til þjóðarinnar? Hvernig getur lýðræðið nokkurn tímann verið til skaða ef við göngum út frá því að grundvallarrétturinn til ákvarðanatöku hvílir hjá þjóðinni en ekki fulltrúum hennar hvort sem er á Alþingi, í sveitarstjórnum eða á forsetastóli?
Málsskotarétturinn gengur ekki út á neitt annað en heimild til að leita til þjóðarinnar.