Fara í efni

Félagshyggja í húfi?

Alls staðar þar sem fulltrúar Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs fara á vinnustaði eða koma kosningáherslum sínum á framfæri, er okkur vel tekið. Svo vel, að erfitt er að trúa því að þverrandi fylgi sé við skoðanir okkar. Eina skýringin er því sú að skoðanabræður okkar og systur séu að yfirgefa okkur og ganga til liðs við Samfylkinguna, Frjálslynda og Framsókn. Ég  trúi því ekki að fólk vilji raunverulega þurrka okkur út af þinginu eða deyfa okkar rödd. Við höfum reynt að standa vaktina í öllum nefndum en með færri þingmönnum yrði þetta erfiðara. Vilja samherjar okkar velja okkur þetta hlutskipti? Lélagt gengi okkar útilokar okkur frá stjórnarþátttöku.

Samfylkingin fær hugsanlega um þriðjung atkvæða. Það nægir að sjálfsögðu ekki í meirihlutastjórn. Vilja menn samstjórn Samfylkingar og Framsóknar, hugsanlega með Frjálslyndum eða gæti verið að Samfylking og Íhald væru í spilunum?

Eina leiðin til að tryggja vinstri stjórn er að kjósa vinstri flokk. Ég bið guð að hjálpa okkur með Samfylkingu og Framsókn eina í ríkisstjórn og ég bið guð að hjálpa þjóðinni með Samfylkinguna eina í stjórnarandstöðu. Stundum þyrfti fölsunarsérfræðing til að greina á milli Íhaldsins og Samfylkingarinnar. Nú ætla ég að leyfa mér að spyrja: Finnst félagslega þenkjandi fólki sér samboðið að láta bjóða sér upp á annað eins forstjóradekur og fram kemur í auglýsingunum með "forsætisráðherraefninu"?

Við höfum sagt að við vildum að stjórrnarandstaðan segði sitt álit varðandi stjórnarmyndum og stefndi að því að mynda stjórn saman.  Hvers vegna þegir Samfylkingin þunnu hljóði um hverjum hún vilji starfa með í Stjórnarráðinu? Það hlýtur að vera afdráttarlaus krafa kjósenda að allar upplýsingar sem tengjast kosningunni séu afgreiddar uppi á borði.