Fara í efni

FARANGUR FRAMSÓKNAR OG SAKLEYSINGJAR MORGUNBLAÐSINS

Páll Magnússon, varaþingmaður Framsóknarflokksins mætti í Kastljós Ríkisútvarpsins í kvöld og talaði opinskátt. Ummæli hans um stuðning Íslands við innrásina í Írak voru þess eðlis að menn setti hljóða. Helst má jafna þeim við hrikalegt Reykjavíkurbréf  Morgunblaðsins um sama efni um síðustu áramót. Boðskapur Mogga og Páls voru af sama toga: Innrásin í Írak kann að hafa verið slæm en hvað annað gátum við gert í ljósi þess hve mikið við eigum undir Bandaríkjamönnum.

Í Reykjavíkurbréfi Mbl. 9. jan sagði m.a. "Þegar deilt er á ríkisstjórn Íslands, og þá alveg sérstaklega þá Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra og Davíð Oddsson utanríkisráðherra vegna afstöðu þeirra til Íraksstríðsins, verða menn að hafa þennan bakgrunn í huga. Við erum lítil þjóð hér í Norður-Atlantshafi. Stundum geta ákvarðanir á alþjóðavettvangi skipt sköpum fyrir okkur. Við höfum notið góðs af nánum samskiptum okkar við Bandaríkjamenn, eins og hér hefur verið rakið. Það er ekkert vit í öðru en líta svo á að samskiptin við Bandaríkin verði áfram lykilþáttur í utanríkisstefnu okkar...Í samskiptum þjóða í milli fær enginn allt fyrir ekkert. Það á líka við um okkur Íslendinga. Við fáum ekki allt fyrir ekkert...Um þessar mundir er að hefjast barátta fyrir kjöri Íslands í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna... Þegar betur er að gáð er kannski spurning, hvort skynsamlegt sé fyrir okkur Íslendinga að leita eftir því sæti. Hitt er víst, að í þeirri baráttu munum við verða að lofa stuðningi við málefni annarra þjóða - til þess að fá atkvæði þeirra - sem ekki mun hugnast öllum Íslendingum. Við getum ekki hagað okkur í utanríkismálum eins og við séum bláeygir sakleysingjar."

Afstöðu sinni lýsti varaþingmaður Framsóknar orðrétt svona í Kastljósþættinum: "Ég lýsti þeim skoðunum mínum á sínum tíma að mér fannst þessi ákvörðun Bandaríkjamanna og Breta að fara þarna inn vera röng. Hvað varðar afstöðu íslenskra stjórnvalda þá er það allt annað mál. Menn geta bara spurt sig: Hverju áttu þessir ráðherrar að svara þegar Bandaríkjamenn fóru fram á þennan pólitíska stuðning? Bandaríkjamenn og Bretar hafa hér séð um varnir landsins frá stríðslokum, seinna stríði, byggt upp þennan flugvöll og rekið hann; beina því til íslenskra stjórnvalda að fá pólitískan stuðning við þetta stríð, hvað sem okkur finnst um það síðan, stríðið sjálft, hverju áttu íslensk stjórnvöld að svara? Og við getum deilt um þetta endalaust, Mér finnst þetta mál vera full upplýst. Þeir tóku þessa ákvörðun tveir..."

Ekki er það rétt hjá Páli Magnússyni að þetta mál sé upplýst. Ef svo væri myndi stjórnarmeirihlutinn ekki sameinast um að koma í veg fyrir að öll gögn þessa máls fáist rannsökuð og upplýst hvað fram fór á fundum utanríkismálanefndar Alþingis þar sem Halldór Ásgrímsson segist hafa greint frá þeim forsendum sem ríkisstjórnin síðan byggði ákvörðun sína á.

En nóg um það að sinni. Það sem mér finnst skuggalegast við þessa röksemdafærslu er að þingmanni Framsóknarflokksins finnist í lagi að lýsa stuðningi við stríðsrekstur Bandaríkjamanna þvert á eigin samvisku og sannfæringu vegna þess að slíkt þjóni eigingjörnum hagsmunum Íslendinga. Er þessi afstaða heppilegt veganesti inn í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna? Með þennan farangur í farteskinu væri vænlegra fyrir vora þjóð að halda sig í fjarlægð frá því ráði. Ríki sem svona hugsa eru kölluð leppríki og ekki mikils metin af neinum þeim sem hefur snefil af sjálfsvirðingu. Þá verð ég nú að segja við höfund fyrrnefnds Reykjavíkurbréfs, að betra þætti mér að við værum bláeygir sakleysingjar.