Fara í efni

FARA SKATTARNIR MÍNIR Í ÞENNAN ÁRÓÐUR?

Ég er í hópi þeirra sem alla tíð hef haft efasemdir um EES-samninginn; hefði kosið tvíhliða samning við Evópusambandið og þannig sloppið við endalausar kröfur frá Brüssel um að markaðsvæða innviði samfélagsins.

Því miður var okkur neitað um þjóðaratkvæðagreiðslu á sínum tíma, sagt að þjóðinni væri ekki treystandi til flókinna ákvarðana.

Í mínum huga var málið ekki flókið. Viljum við undirgangast einhliða samkomulag um að gleypa við öllu sem Brüssel dettur í hug að innleiða eða byggja á samstarfi í anda EFTA, tolla- og verslunarsamstarfi og síðan samstarfi á sviði vísinda-, mennta- menningar- og mannréttindamála.

EES varð ofan á illu heilli. Margir telja það hins vegar hafa verið mikið gæfuspor. Það er vissulega sjónarmið sem ber að virða og ræða. En þarf ekki líka að virða mitt sjónarmið?

Það gerir núverandi ríkisstjórn ekki með því að tefla fram í einhliða áróðursmyndbandi alkóhóliseruðum eldri borgara, Guðnýju að nafni, sem flúði rigningar- og snjókomu-Ísland, en liggur nú eins og malandi köttur í sól á Spáni og sendir kallinn út eftir meiri drykk, fær pening að heiman en getur haft í sig og á í ódýru Spánarumhverfi.

Auðvitað er það rétt að fyrir hálaunaða Ísland er Spánn ódýr en fyrir láglaunaða Spán horfir málið öðru vísi við.  

Á þessu eru ýmsar hliðar og sjálfsagt að ræða þær en varla með einhliða áróðri sem Stjórnarráðið birtir nú í gríð og elg á facebook – fyrir mína og þína skattpeninga – eða hvað? Eru það kannski evrópskir skattgreiðendur sem eru látnir borga brúsann?

Þarf ríkisstjórnin ekki að svara þessu?