Fákeppni og einokun á íslenskum lyfjamarkaði
Að undanförnu hefur farið fram mikil umræða í þjóðfélaginu um fákeppni, jafnvel einokun og óeðlilegt verðsamráð á ýmsum sviðum í efnahagslífinu, í verslun og þjónustu, olíusölu, í tryggingum, banka- og fjármálastarfsemi og nú síðast hafa sjónir manna beinst að lyfjum og fákeppni á sviði lyfjasölu. Í síðustu viku fór fram utandagskrárumræða á Alþingi að frumkvæði VG um þróunina á lyfjamarkaðnum.
Fjárhagslegt stórmál fyrir ríki, stofnanir og einstaklinga
Það er ekkert nýtt að menn horfi til verðlags á lyfjum, einfaldlega vegna þess að fjölmargt fólk þarf nauðsynlega, jafnvel lífsnauðsynlega á þeim að halda, og er lyfjakostnaður verulegur útgjaldaliður hjá mörgu fólki.
Þegar horft er til þjóðarbúsins í heild sinni þá var heildarvelta með lyf á síðasta ári 12 og hálfur milljarður króna og ef litið er til hins opinbera þá námu lyfjaútgjöld Tryggingastofnunar ríkisins 6 milljörðum og Landspítala háskólasjúkrahúss rúmlega tveimur milljörðum króna og er þetta annar mesti útgjaldaliður sjúkrahússins, næst á eftir launakostnaði eða 29% rekstragjalda.
Samkvæmt upplýsingum Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis er stigvaxandi aukning lyfjakostnaðar síðasta hálfan annan áratug. Á þessum tíma jókst lyfjanotkun (þ.e. í skilgreindum dagskömmtum) um 50% en á sama tíma hækkaði lyfjakostnaðurinn um meira en 200 % á föstu verðlagi, mest á síðustu tveimur árum.
Það gefur auga leið að miklu máli skiptir að verðlagning á lyfjum sé eðlileg því hagsmunir einstaklinga og skattgreiðenda eru í húfi.
Samkeppnin átti að lækka verð og bæta þjónustu...
Þegar grundvallarbreyting var gerð á lyfjalögum í maí árið 1994 – sem komu til framkvæmda í mars 1996 – þá var þjóðinni sagt að markmiðið væri að stuðla að samkeppni, sem myndi í senn færa okkur lægra lyfjaverð og betri þjónustu. En hvað hefur gerst?
Þrjú fyrirtæki annast innflutninginn að mestu leyti (:Lyfjadreifing 50% markaðshlutdeild, PharmaNor 35% og Austurbakki með 10%). Heita má að tvær stórar samsteypur skipti með sér markaðnum í smásöluverslun, annars vegar Lyf og heilsa og hins vegar Lyfja, og virðast þær ganga langt í því að reyna að bola smærri aðilum út af markaði.
Í Morgunblaðinu 6. og 7. maí sl. er m.a. rætt við Þorvald Árnason, sem fyrstur opnaði apatek eftir lagabreytinguna. Hann hefur nú hrökklast frá Suðurnesjum og segir að lyfjakeðjurnar þrengi að samkeppninni; þær slái sé þar niður sem lítil fyrirtæki sé að finna. Fram kemur að þetta hefur einnig átt sér stað í Vestmannaeyjum og víðar. Í úttekt Morgunblaðsins er haft eftir Jóni Grétari Ingvarssyni lyfsöluhafa í Hringbrautarapoteki í Reykjavík að önnur samsteypan, Lyf og heilsa, hafi ítrekað reynt að kaupa sig upp en þegar hann reyndist ekki vera til sölu þá hafi samsteypan opnað apotek við hliðina á hans verslun. Tilgangurinn virðist augljós: Að bola honum út af markaði. Í viðtali við blaðið segir Jón Gretar Ingvarsson," það vera umhugsunarefni fyrir stjórnvöld hvort ekki sé orðið tímabært að endurskoða samkeppnislög og lyfjalög, þar sem sú staða sé augljóslega að koma upp hérlendis að tvær lyfsölukeðjur séu að leggja markaðinn undir sig og koma á fákeppni í stað samkeppni."
...en hefur hækkað verð og rýrt þjónustu
Á sjúkrahúsunum er þessi fákeppni farin að segja til sín. Hjá Landspítala háskólasjúkrahúsi hafa forsvarsmenn spítalans til dæmis kvartað yfir því að útboðsleiðin virki ekki sem skyldi og megi það rekja til þess hvernig lyfjamarkaðurinn hafi breyst á undanförnum árum.
Svipaðar ábendingar hafa heyrst frá forsvarsmönnum Tryggingastofnunar ríkisins. Karl Steinar Guðnason segir að athuganir á verðlagi 10 útgjaldamestu lyfja TR hafi leitt í ljós að þau séu allt að 93% dýrari hér á landi en í nágrannalöndunum. Á nýafstöðnum ársfundi Tryggingastofnunar benti forstjóri á að ef þessi tíu útgjaldamestu lyf væru á sambærilegu verði og í nágrannalöndunum væri lyfjakostnaður TR strax 300 milljónum lægri en hann nú er. (sbr. Morgunblaðið 21. nóvember 2003).
Jóhannes Gunnarsson, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítala háskólasjúkrahúsi, bendir á að ein ástæða hækkunar á lyfjum sé fákeppni vegna sameiningar lyfjafyrirtækja. Orðrétt segir hann í fréttaviðtali: "Mörg þeirra lyfja, sem eru sömu tegundar og hafa sömu grunnefnin, eru komin á eina hendi hjá sama umboðsaðila hér á landi. Í þeim tilvikum er um einokun að ræða en ekki bara fákeppni." ( Morgunbl. 15. janúar 2003)
Allt ber hér að sama brunni. Markmið laganna frá 1994 hafa ekki náð fram að ganga. Í stað samkeppni, lægra verðlags og fjölbreyttari þjónustu blasir við fákeppni og hærra lyfjaverð en tíðkast í nágrannalöndum okkar. Þetta hefur gerst þrátt fyrir meinta hagræðingu í greininni, batnandi samgöngur og lækkandi flutningskostnað sem og hagstæða gengisþróun fyrir innflutningsverslun.
Nær væri að taka á þessum málun en skerða kjör sjúklinga
Þá eru ónefndir sjúklingarnir sem þurfa að gjalda fákeppninnar. Samkvæmt fjárlögum ríkisstjórnarinnar fyrir næsta ár eru álögur á sjúklinga auknar um 740 milljónir króna. Nær væri ríkisstjórninni að taka á fákeppni í lyfjaverslun í stað þess að hækka álögur á sjúklinga.