Fara í efni

EXBÉ VIRÐIR REGLURNAR Á SINN HÁTT

Sérstakt um margt er ex-bé framboðið í Reykjavík. Það er ekki aðeins sérstakt fyrir nafngiftina, en sennilega mun það ekki hafa gerst áður í stjórnmála-
sögunni að breytt sé yfir nafn og kennitölu stjórnmálaflokks eins rækilega og í tilviki Framsóknarflokksins, sem auglýsingastofan hefur greinilega ráðlagt að nefna aldrei á nafn. Eitt af því sem er sérstakt við ex-bé framboðið er að því hefur tekist að gera staðsetningu flugvallar að máli málanna í kosningabaráttunni og þá sérstaklega því kosningaloforði að um hina umdeildu Lönguskerja- lausn muni ex-bé tryggja þjóðarsátt! Í mínum huga er þetta þverpólitískt lúxusvandamál sem verður að fá tíma til að þróast. Það er alla vega mín skoðun, að á meðan óleystur er vandi húsnæðislausra og þurfandi fólks í Reykjavík þá megi þessi tugmilljarða framkvæmd við flutning á flugvellinum ekki verða efst á forgangslista.
Látum vera að Framsókn vilji malbika Skerjafjörðinn. Það er sjónarmið út af fyrir sig eins fráleitt og það kann annars að vera. Ef flokkurinn telur það hins vegar vera rétt að gera  flugvöll á Lönguskerjum þá er eðlilegt að hann taki skýra afstöðu og berjist síðan fyrir henni. En að láta það fylgja með í pakkanum að flokkurinn lofi því að um malbikaðan Skerjafjörð verði þjóðarsátt - er náttúrlega svo yfirgengilega absúrd að tekur engu tali. Slíku getur enginn stjórnmálaflokkur lofað.  
Framsókn hefur ekki verið vönd að virðingu sinni í auglýstum kosningaloforðum sínum í undangengnum kosningum og eru menn orðnir ýmsu vanir þegar sá flokkur er annars vegar. Kemur þá upp í hugann Ríkisútvarpið, sem aldrei átti að verða að hlutafélagi samkvæmt heitstrengingum Framsóknar og Íbúðalánasjóður, sem okkur var sagt að hvíldi í öruggum faðmi Framsóknar en er nú að berjast fyrir lífi sínu. Framsókn hefur þannig í tímans rás sýnt kosningaloforðum sínum takmarkaða viðingu. Að því marki sem flokkurinn á annað borð virðir leikreglur þá gerir hann það á sinn sérstaka hátt.

Þjóðólfur skrifar mjög athyglisverða hugleiðingu hér á síðunni um loforð Framsóknar í Reykjavík. Fram kemur að lofað var í stefnuskrá flokksins sjóminjasafni við Grandagarð. Þegar á daginn kom – en seint um síður - að safnið var  þegar starfandi og að þar er framkvæmdastjóri  Sigrún Magnúsdóttir fyrrverandi borgarfulltrúi Framsóknar, var kosningaloforðinu breytt til samræmis við veruleikann!
Lesendabréf Þjóðólfs um þetta efni: HÉR og HÉR
Kv.
Ögmundur