Fara í efni

Evrópusinnar – en gagnrýnin

Á nýafstöðnu þingi EPSU (European Public Service Union, Starfsfólk í Almannaþjónustu innan Evrópusambandsins og EES) í Stokkhólmi í vikunni kom fram harðari tónn frá forsvarsmönnum verkalýðshreyfingarinnar og gagnrýnni í garð Evrópusambandsins en fram hefur komið í langan tíma. Tilefnið er ný tilskipun um þjónustustarfsemi, sem nú er í smíðum og telja menn sýnt að henni sé stefnt gegn samfélagslega rekinni velferðarþjónustu. Öllu skal nú ýtt út á markaðstorgið. John  Monks aðalritari ETUC (European Trade Union Confederation, Evrópusamband Verkalýðsfélaga) ávarpaði þingið.  Hann sagðist styðja Evrópumarkað um þjónustustarfsemi “en ekki á kostnað þeirra gæða sem við búum nú við í Evrópusambandinu eða í einstökum ríkjum... Þar til þessi mál hafa verið til lykta leidd verður að stöðva alla lagasetningu sem gengur í þessa átt.”  Hér vísar John Monks að sjálfsögðu til einkavæðingar. Bæði John Monks og Carola Fischbach-Pyttel, framkvæmdastjóri EPSU (sjá mynd), sem tók í sama streng á þinginu, eru þekktir Evrópusinnar. Þeim sem öðrum úr þessum ranni ofbýður nú hins vegar yfirgangur framkvæmdanefndar sambandsins og áfergjan í að einkavæða velferðarþjónustuna.