Fara í efni

EVRÓPURÁÐIÐ OG MANNRÉTTINDIN

Evrópuráðið 2014
Evrópuráðið 2014

Í vikunni sat ég þing Evrópuráðsins í Strasbourg. Ég tók þátt í umræðum um nokkur málefni  og var talsmaður vinstri flokkanna um fjórar skýrslur sem lágu fyrir þinginu. Auk þess blandaði ég  mér í umræðu um málefni Vestur-Sahara en þannig er málum háttað að Marakkó hefur ásamt Alsír yfirráð yfir landsvæði þar sem krafa er um af hálfu íbúanna að öðlist sjálfstjórn.

Marokkómenn hvattir að fara að hætti Dana

Marakkó er í sérstöku samstarfi við Evrópuráðið um þróun ýmissa mála sem lúta að mnnréttindum í landinu og hefur í tengslum við það samstarf orðið til þrýstingur frá Evrópuráðinu á stjórnvöld í  Marókkó að virða mannréttindi í Vestur-Sahara. Áherslur eru mismunandi innan Evrópuráðsins hve langt beri að ganga í að styðja kröfur um sjálfsforræði en í samræmi við viljayfirlýsingu íslenska þingsins um Vestur-Sahara frá í vetur,  tók ég mjög eindregið undir að sjálfsákvörðunarrétt íbúanna  þar beri að virða og rakti okkar reynslu af baráttu fyrir sjálfsæði. Hvatti ég Marokkómenn að fara að dæmi Dana sem alla tíð virtu grundvallarmannréttindi Íslendinga nánast  á við danska þegna og á endanum tóku dönsk stjórnvöld því vel þegar við losuðum okkur undan þeirra stjórn. Við hefðum uppskorið sjálfstæði, Danir hefðu uppskorið velvild okkar og virðingu, sagði ég í ræðu minni.

Stuðningur Íslands við sjálfsákvörðunarréttinn

Ég lét einnig fylgja með að Íslendingar hefðu, vegna þessarar reynslu sinnar, jafnan sýnt því sjónarmiði skilning að virða eigi sjálfsákvörðunarrétt þjóða. Þannig hefðum við verið fyrst þjóða að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna þegar þau rifu sig frá Sovétríkjunum.
Svæðið  sem um ræðir í Vestur-Sahara er rúmlega helmingi stærra en Ísland, 266 þúsund ferkílómetrar og  mannfjöldinn þar um hálf milljón. Ég fékk afar vinsamlega kveðjur frá fulltrúum sjálfstæðishreyfingarinnar í Vestur-Sahara að lokinni ræðu minni.

Flóttafólk, ungir afbrotamenn og hatursumræða

Málin sem ég tók að mér að tala í fyrir hönd vinstri flokkanna sneru að stöðu flóttamanna, og þá einkum hvernig ætti að bregðast við vaxandi straumi flóttamanna inn í  Evrópulöndin við Miðjarðarhafið, sérstaklega Ítalíu og Grikkland. Samþykkt var tillaga sem gekk út á að styrkja það kerfi sem við búum við og byggir á svokölluðu Dyflinarsamkomulagi, en jafnframt var samþykkt tillaga sem gengur út á að horfa til þess að ríkjum Norður -Evrópu beri siðferðileg skylda að rétta suðrinu hjálparhönd í ríkari mæli en nú er gert. Ekki var þó gengið eins langt í tillögum þar að lútandi eins og tillögumenn höfðu vonast til.

Lampedusa og DNA rannsóknir

Nokkur atvik hafa orðið til að opna augu fólks fyrir hlutskipti margra flóttamanna  frá Afríku sem verða smyglurum að bráð og fá síðan óblíðar viðtökur í fyrirheitnu löndunum. Þannig komst í heimsfréttir í mars árið 2011 þegar bátur fannst á reki með fólki um borð sem skilið hafði verið eftir til að deyja. Örfáir komust af en um sjötíu manns höfðu verið  um borð. Fólkið kom frá Líbíu en var sumt þó lengra að komið. Athuganir sýndu að nánast allir sem höfðu tengst þessu hörmulega atviki á einhvern hátt höfðu brugðist hlutverki sínu, þar á meðal  ítalska strandgæslan og Nató skip á svæðinu. Neyðarkall hafði borist strandgæslunni og NATÓ herskipi á svæðinu og hafði  neyðarkallið verið sent út á fjögurra klukkustunda fresti í tíu daga - og kallið móttekið án þess að reynt hefði verið að koma fólkinu til hjálpar. Annað þekkt dæmi er af tæplega  fjögur hundruð manns sem fórust undan strönd ítölsku eyjunnar Lampedusa í október í fyrra  nánast fyrir allra augum


Spurt er hvað gera skuli

Annars vegar eru þau sem vilja meira eftirlit, styrkja núverandi  eftirlitskerfi  og fyrirkomulag, sem áður segir, og jafnvel koma upp búðum í Afríku þar sem fólki sem vill til Evrópu yrði smalað saman þannig að það verði ekki smyglurum að bráð. Þá eigi flóttafólk ekki að komast  upp með að villa á sér heimildir og skuli stefnt að DNA prófum á flóttafólki. Þetta sjónarmið varð ofan á illu heilli og gegn mínu atkvæði.
Á hinn bóginn eru þau sem vilja taka á orsökum fólksflóttans og horfa til ábyrgðar Evrópuríkja í því efni . Þannig er það staðreynd að árásir NATÓ á Líbíu á sínum tíma stórjuku straum flóttamanna  þaðan. Þá er Evrópa heldur ekki saklaus hvað varðar atburðarás í stríðshörmungunum í Sýrlandi. Fjarri lagi. Flóttamannabúðir í Afríku leysi engan vanda og varla verði fólkinu betur borgið þar innan gaddavírs en í Evrópu þar sem fjármuni er þó alla vega að finna til að búa fólkinu sæmilegar  aðstæður.
Vandinn er sá að að þau ríki Evrópu, Miðjarðarhafsríkin, sem búa við mestar efnahagsþrengingar nú um stundir, eru jafnframt þau ríki sem þurfa að glíma við flóttamannavandann. Samkvæmt Dyflini samkomulaginu skal það og vera svo því meginhugsunin í því samkomulagi er sú að það ríki Evrópu  sem flóttamaður kemur fyrst til skal bera ábyrgð á honum. Ljóst er hins vegar að fái þessi ríki ekki aukinn stuðning úr norðrinu munu þau sligast unanda byrðunum.

Hið fullkomna vantraust

Frá mínu hjarta vil ég síðan segja að DNA rannsókn er táknræn aðgerð um fullkomið vantraust á manneskju. Varla er á slíkt bætandi gagnvart fólki á flótta.
Þá fjallaði ég um stöðu ungmenna í réttarkerfinu og ofbeldisefni í fjölmiðlum og á netmiðlum, ekki sist svokallaða hatursumræðu á internetinu . Hefur fólk af henni miklar áhyggjur, einkum skaðlegum áhrifum á börn og ungmenni.
Varðandi réttarstöðu ungmenna var samþykkt ályktun þar sem hvatt er til þess að leitað verði allra leiða til að komast hjá því að fangelsa börn og ungmenni. Slíkt hafi alvarlegar afleiðingar fyrir einstaklingana sem í hlut eiga og samfélagið skaðist einnig þegar til lengri tíma er litið. Í ræðu minni þakkaði ég Evrópuráðinu fyrir vel unnið starf á þessu sviði. 

Rússar ekki til staðar að hlusta á gagnrýni

Forseti Úkraínu ávarpaði þingið og beindi orðum sínum talsvert til Rússa sem tímabundið hafa verið sviptir rétti til að sitja þingið og voru því ekki til staðar til að heyra þá gangrýni sem að þeim var beint!

Ég var þar líka!

Á þingum Evrópuráðsins gefst tækifæri til að hitta fulltrúa mannréttindahópa og baráttuhreyfinga víðs vegar að. Ég ræddi, nú sem fyrr,  við talsmenn Kúrda, þar á meðal unga stúlku, Ebru Gunay, sem hafði tekið að sér að vinna fyrir Öcalan, liðtoga Kúrda sem setið hefur í  fangelsi undanfarin fimmtán ár. Ég sagði henni að ég hefði verið í Dyabakir í austanverðu Tyrklandi -  Kúrdistan - í marsmánuði. „Ég var þar þá  líka, sagði hún. Nema hvað hún sat þá í fangelsi , og var búin að sitja þar í fimm ár! Sakirnar voru þær einar að taka að sér að vera ráðgefandi lögfræðingur fyrir fangelsaðan forsvarsmann Kúrda!

Snowden sat fyrir svörum

Í laganefndinni sat Edward Snowden fyrir svörum um gervihnött. Það gerði hann eining síðast þegar Evrópuráðsþingið kom saman en þá missti ég af honum en sat nú fundinn þótt ég sé ekki í þessari nefnd.
 Athygli mína vakti hve yfirvegaður Snowden var og skipulegur í framsetningu. Hann sagði liggja í augum uppi að opinber málefni yrðu að vera opin fyrir almenningi, „public affairs must be known by the public." Hann hefði viljað stuðla að því að svo yrði í reynd með uppljóstrunum sínum. Þær hefðu þó fyrst og fremst  snúist um grafalvarlega þróun sem ef ekkert væri að gert myndi rústa opnu lýðræðissamfélagi okkar.
Varla þyrftu menn að vera lögfræðingar eða aðrir fræðingar til að skilja að ákvörðun um að hlera alla Þjóðverja gæti ekki verið annað en brot á mannréttindum og tilræði við lýðræðið.

Vildi meðal annars til Íslands

 Hann sagðist hafa sótt um hæli í 20 löndum, þar á meðal Íslandi en hvergi fengið jákvætt svar. „En er ekki undarlegt að þú skulir halda þig í Rússalndi", var hann spurður. Hann sagðist ekki eiga annarra kosta völ, á meðan ekkert land veitti honum hæli og hann kæmist ekki þangað þar sem hann hugsanlega fengi skjól. Bandaríkjastjórn hafi gengið svo langt að fara þess á leit við Evrópuríki að þvinga Bolivíuforseta til að lenda flugvél sinni á leið frá Moskvu til að hægt væri að ganga úr skugga um að Snowden væri ekki um borð. Austurríkismenn hefði látið sig hafa að gera þetta.
Allt var þetta umhugsunarvert og þá sérstaklega að maðurinn sem upplýst hefur um njósnir um hvern og einn Evrópubúa skuli hvergi fá hæli í Evrópu. Varla kallast þetta  stórmannlegt!

Mannréttindafulltrúi Evrópuráðsin og talsmaður Amnesty

Snowden var ekki einn um að sitja fyrir svörum. Það gerði einnig, Mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins - High Commissioner for Human Rights - Nils Muiznieks. Hann sat fyrir svörum í flóttamannanefndinni og var hann ómyrkur í máli. Gagnrýndi hann ríku þjóðirnar í norðanverðri Evrópu mjög harðlega fyrir að bregðast ekki við flóttamannavandanum í sunnanverðri álfunni.  Talaði hann fullkomlega tæpitungulaust um þetta og sagði að hugmyndir um að herða á Dyflinarsáttmálanum, jafnvel fara að senda fólk aftur til Grikklands sem hefði komið þaðan en síðan inn í önnur Evrópulönd væri gersamlega fráleitt. (Samkvæmt ábendingum Evrópuráðsins var haustið 2014 hætt að senda fólk aftur til Grikklands þrátt fyrir Dyflinarsamkomulagið vegna hörmulegra aðstæðna í grískum flóttamannabúðum.)
Á þessum sama fundi var fulltrúi grískra stjórnvalda. Var honum heitt í hamsi og sagði sér væri mál að skýra málstað Grikkja eftir að hafa setið þegjandi undir harðri gagnrýni á grísk stjórnvöld. Til Grikklands kæmu að jafnaði  sjö nýir flóttamenn á degi hverjum og væri fjöldinn illviðráðanlegur eftir stöðugan áralangan straum.
Á þessu hljóta flestir að hafa skilning en það afsakar varla þá hörku sem grískir landamæraverðir eru sakaður um að beita. Fulltrúi Amnesty International sem einnig var á fundinum hélt fram ásökunum um harðræði sem flóttamenn væru beittir í flóttamannabúðum í Grikklandi. Ég spurði hvort slíkt hefði verið rannsakað og þá ekki síður hvað til væri í ásökunum um að grískir landamæraverðir sneru aðframkomnu fólki sem væri komið, iðulega á bátkænum um langan veg, frá landi og þá hugsanlega út í opinn dauðann.
Fátt varð um svör annað en að ítreka vandann. Heyrði ég ekki betur en hann segði að strandlína Grikklands væri lengri en strandlína Kína. Þar gæti vissulega sitthvað gerst sem stjórnvöld vissu ekki um. En kerfisbundin rannsókn hefði ekki farið fram.
 

Studdi Jagland

Kjör framkvæmdastjóra Evrópuráðsins setti svip á þingið framan af en niðurstaðan varð sú að Norðmaðurinn Thorbjörn Jagland, var endurkjörinn til fimm ára. Sjálfur greiddi ég honum atkvæði.