Fara í efni

ERU VÖLD ATVINNUREKENDA TIL AÐ REKA FÓLK OF LÍTIL HJÁ HINU OPINBERA?

Í fréttum Ríkisútvarpsins sl. laugardag var staðhæft að samskiptavandamál væru algengari í ríkisfyrirtækjum en í fyrirtækjum á einkamarkaði. Skýringin liggi í því að auðveldara sé að reka fólk í einkafyrirtækjum en hjá hinu opinbera vegna "ráðningarfyrirkomulags"! Einkafyrirtækin hafi ekki "efni á því" að láta vandamál danka. Svo er að skilja að öðru máli gegni um opinberar stofnanir! Fréttastofa RÚV hefur eftir kennara við viðskiptaskor Háskóla Íslands, Þórði S. Óskarssyni, að vandinn séu lög sem gildi um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Það sem háskólakennarinn vísar hér til eru ákvæði þess efnis að óheimilt sé að segja fólki upp störfum, án þess að um skipulagsbreytingar sé að ræða, nema að viðkomandi starfsmaður hafi verið áminntur, svo hann eigi kost á því að bæta ráð sitt eða leiðrétta hugsanlegan misskilning. Þetta þykja mér vera eðlileg réttindi, nokkuð sem kalla mætti mannréttindi launamanns á vinnustað.
Í niðurlagi útvarpsfréttarinnar er haft eftir Þórði S. Óskarssyni kennara  "að góðir stjórnendur marki ákveðna framtíðarsýn, geti fylkt fólki um sig til að ná markmiðum sínum, dreifi verkefnum jafnt og sýni undirmönnum sínum umhyggju. Ábyrgð stjórnandans sé mikil gagnvart undirmönnum. Hafi stjórnandinn ekki dug til að taka á samskiptavandamálum sé það spurning hvort hann eigi ekki að hætta." Þetta er vel mælt. En er þetta ekki vandinn í hnotskurn? Góður verkstjórnandi vill vera sanngjarn og réttsýnn. Hann hefur hug og þor til að ræða við starfsmenn sem ekki rækja starfsskyldur sínar eða valda leiðindum á vinnustað, gefur þeim kost á að bæta ráð sitt, en rekur þá ekki skýringalaust. Ef hann ekki ræður við þetta er mikið álitamál að hann sé hæfur að gegna starfi sínu. Óhæfur stjórnandi með einræðisvald á hendi er skaðræði á vinnustað. Talsvert er um slíka skaðræðisvalda sem misbeita völdum sínum í fyrirtækjum og stofnunum landsins. Það er ekki ástæða til að treysta völd þeirra, þvert á móti þarf að treysta varnir hinna sem fyrir misbeitingunni verða.

Ég hefði haldið að hið sama gilti um einkafyrirtæki og opinberan rekstur að þar veljast til stjórnunarstarfa misjafnir einstaklingar. Sumum er lagið að eiga uppbyggileg og hvetjandi samskipti við fólk, öðrum er það síður gefið. Mér þætti fróðlegt að heyra hvort háskólakennarinn gæti ekki verið sammála mér um það að í ríkisfyrirtækjum sé hugsanlega síður hætta á því að óhæfir stjórnendur misnoti vald sitt, leysi vandamál sem upp koma með yfirgangi og brottrekstri en í einkafyrirtækjum? Þessa nálgun hefði fréttastofa Ríkisútvarpsins hæglega getað haft. Hún velur hins vegar þann kost að líta á starfsmanninn sem vandamál en ekki verkstjórnandann.

Síðan furða ég mig á því að svo skuli litið á að einkafyrirtækjum sé meira umhugað um að leysa vandamál en opinberum stofnunum. Hvað er hér átt við? Telja menn að aðþrengdar sjúkrastofnanir – sem neyðst hafa til að segja upp fólki og vísa sjúklingum frá sé ekki umhugað um að leysa vandamál og tryggja snurðulausan rekstur? Á hvaða rannsóknum skyldi Þórður S. Óskarsson byggja?  Eða er þetta bara eitthvað sem honum finnst líklegt?

-----------

Eftrifarandi er fréttin sem vísað er í en hún bar yfirskriftina: Samskiptavandamál algengari í ríkisfyrirtækjum:
Kennari við Háskóla Íslands segir að samskiptavandamál séu algengari í ríkisfyrirtækjum en þeim sem eru einkarekin. Hann segir að ráðningarferli í ríkisfyrirtækjum ráði þar mestu.

Þórður S. Óskarsson, aðjúnkt við viðskiptadeild Háskóla Íslands, segir að samskiptavandamál á vinnustöðum komi oftar upp í opinberum fyrirtækjum en í einkageiranum.

Þórður S. Óskarsson, aðjúnkt við viðskiptadeild Háskóla Íslands: Og þar koma ýmis mál til. Í einkafyrirtækjum er kannski það umhverfi sem að mörg eru að vinna í í dag, þau hafa ekki efni að láta, vera viðlíðandi vandamál eða deilur. Þannig að það er tekið á þeim af meiri krafti kannski eða ákveðnar og þau leyst. Og hitt er reyndar, í opinbera geiranum eru ýmis vandkvæði vegna ráðningarfyrirkomulags.

Oft reynist erfitt að taka á samskiptavandamálum sem koma upp í fyrirtækjum í eigu ríkisins, þar sem erfitt geti reynst að segja upp fólki vegna þeirra laga sem gilda um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Þórður segir að eitt af því sem skapi góðan starfsanda sé að ráða fólk sem fellur vel inn í þann hóp sem fyrir er.

Þórður S. Óskarsson: Nú líka það að þeir sem að ja, valda erfiðleikum, skapa ágreining, þeir náttúrulega smita mjög fljótt út frá sér og það er að vissu leyti hlutverk stjórnanda að grípa inn í svoleiðis mál.

Þórður segir að góðir stjórnendur marki ákveðna framtíðarsýn, geti fylkt fólki um sig til að ná markmiðunum sínum, dreifi verkefnum jafnt og sýni undirmönnum sínum umhyggju. Ábyrgð stjórnandans sé mikil gagnvart undirmönnum. Hafi stjórnandinn ekki dug til að taka á samskiptavandamálum sé það spurning hvort hann eigi ekki að hætta. Óhæfur stjórnandi geti fælt fólk burt frá fyrirtækinu og oftast sé það svo að besta fólkið fari fyrst.

Flokkar
Viðskipti og rekstur
Viðmælendur
Þórður S. Óskarsson
Fréttamenn
Jóhanna Margrét Einarsdóttir