Fara í efni

ERU ÞÁ LÍKA TIL ÓVINAÞJÓÐIR?

MBL
MBL
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 30/31.03.18.
„Ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið taka þátt í samstilltum aðgerðum vestrænna ríkja vegna efnavopnaárásar í enska bænum Salisbury í upphafi mánaðarins. Árásin er alvarlegt brot á alþjóðalögum og ógnun við öryggi og frið í Evrópu. Efnavopnum hefur ekki verið beitt í álfunni frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Viðbrögð rússneskra stjórnvalda við árásinni hafa hingað til verið ótraustvekjandi og yfirlýsingar þeirra ótrúverðugar."

Svona er upphafið á fréttatilkynningu frá Stjórnarráði Íslands í vikunni. Annars staðar hefur verið talað um að Íslendingar fylgi „vinaþjóðum"  í þessu máli, það er NATÓ-ríkjum  og -  svo enn sé vitnað í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, „helstu aðildarríkjum Evrópusambandsins".

Ríkisstjórn Íslands segir enn fremur viðbrögð Rússa við ásökunum bresku stjórnarinnar um að rússnesk stjórnvöld beri ábyrgð á banatilræði við rússneskan gagnnjósnara í Bretlandi nú nýlega, vera „ótraustvekjandi".  Maðurinn hafi, sem áður segir, orðið fyrir „efnavopnaárás" og sé það „ógnun við öryggi og frið í Evrópu."

Það má segja að óþarfi sé að staglast á þessum texta frá ríkisstjórn Íslands. Mér finnst engu að síður ástæða til að vekja athygli á hve sverar yfirlýsingarnar eru.

Auðvitað má til sanns vegar færa að morð á einum manni geti ógnað „öryggi og friði" í heilli heimsálfu, jafnvel í heiminum öllum. Morðið á Franz Ferdinand, hertoga og ríkisarfa í austurríska keisarveldinu í Sarajevo á Balkanskaga í júní 1914, er almennt talið vera kveikjan að heimstyrjöldinni fyrri, sem felldi að minnsta kosti fimmtán milljónir manna.

Ófriðarbál hafði að sönnu þá verið í gerjun um skeið og var morðið á ríkisarfanum kornið sem fyllti mælinn. En það fyllti mælinn vegna þess að þann skilning vildu ýmsir valdaaðilar leggja í þann atburð.

Einstakir atburðir eru þannig eitt, túlkun þeirra annað. Ríkisstjórn Íslands kýs að fylgja „vinaþjóðum" í túlkun þeirra á „efnavopnaárásinni" í enska bænum Salisbury.

Nú er það náttúrlega svo, að þess eru dæmi að logið hafi verið að íslenskum stjórnvöldum og þau látið blekkjast. Það þekkjum við því miður allt of vel. En þá er spurningin hvort engu máli eða litlu skipti hvað sé satt og hverju er logið svo lengi sem réttum aðilum er fylgt að málum?

En jafnvel þótt við gæfum lítið fyrir sannleikann en þeim mun meira fyrir fylgispektina, þá hljóta ýmsir atburðir í okkar samtíma engu að síður að koma til samanburðar við morðið á rússneska gagnnjósnaranum. Þannig leita nú á minn huga, nýkominn frá vitnaleiðslum í París, voðaverk framin á Kúrdum allt fram á þennan dag og það innan landamæra bandalagsríkis í NATÓ, sama ríkis og þessa dagana stráfellir fólk í landvinningastríði í Sýrlandi. Ríkið er að sjálfsögðu Tyrkland.

Hægt er að tala upp friðarviljann á nákvæmlega sama hátt og hægt er að tala hann niður, jafnvel svo langt niður að úr verði stríðsæsingatal. Erum við ef til vill að nálgast slíkt tal nú?

Íþróttir og listir geta sameinað fólk, oft þvert á hagsmuni ríkja. Nú er okkur sagt að íslenskir ráðherrar hafi fallið frá fyrri áformum um að fylgjast með heimsmeistarakeppninni í knattspyrnu. Það séu táknræn mótmæli gegn tilræðinu í Salisbury á sama hátt og viðvera þeirra á leikunum átti að vera tákn um velvilja og samhug.

En nú gengur það ekki lengur - ef menn á annað borð vilja halda hópinn með öllum „vinaþjóðunum". Þá gengur ekki að sýna friðarhug og velvilja í Rússlandi þar sem keppnin fer fram. Þar býr nefnilega Pútín, en vel að merkja 145 milljónir annarra Rússa líka.

Skyldu „vinaþjóðir" Íslendinga líta allar þessar milljónir illu auga?  Ef til eru „vinaþjóðir", eru þá líka til „óvinaþjóðir"?

Eða hvað?