Fara í efni

ERU NEYTENDASAMTÖKIN FYRIR NEYTENDUR EÐA NEITENDUR?

MBL  - Logo
MBL - Logo
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 26/27.11.16.
Samkeppni er alltaf til góðs fyrir neytendur, sagði formaður Neytendasamtakanna í sjónvarpsþætti í liðinni viku. Tilefnið var úrskurður um að Mjólkursamsalan hefði ekki gerst brotleg við lög, gagnstætt því sem Samkeppniseftirlitið hafði staðhæft.

En samvinna? Getur verið að hún sé góð fyrir neytendur?

Ekki var á formanni Neytendasamtakanna að skilja að svo væri.

En ég leyfi mér að spyrja hvort það kunni ekki að vera svo, að stundum sé samkeppni góð fyrir neytendur og stundum sé samvinna góð fyrir neytendur; og stundum blanda af þessu tvennu.

Samvinnurekstur kúabænda í landinu hefur þannig skilað ótvíræðum árangri fyrir neytendur. Þetta sýna verðlagstölurnar. Samkeppni í smásöludreifingunni hefur hins vegar ekki skilað árangri sem skyldi. Það sýna verðlagstölurnar líka.

Undarlegt er að fylgjast með fjölmiðlamönnum mörgum hverjum, sem taka niðurstöðu um sakleysi MS sem harmafregn. Það er eins og þeir hafi gleypt andköf þeirra stjórnmálamanna, sem andæfa öllu sem frá íslenskum landbúnaði kemur, samkvæmt aðferðafræðinni, „af því bara". Þeir gefa sér að samvinnufyrirtæki bændanna brjóti á öllum fyrirtækjum sem nálgæt því koma, en gefa hins vegar minna fyrir barnafjölskylduna sem bara vill heilnæma ódýra mjólk og hefur fengið hana með núverandi fyrirkomulagi.

Þegar allt kemur til alls var það yfirvegað markmið löggjafans að líta bæri á framleiðslu mjólkur og mjólkurafurða nánast eins og samfélagsþjónustu, að tryggja þyrfti framboð á heilnæmri matvöru á verði sem öllum væri  viðráðanlegt.  Þetta markmið hefur náðst. En eru lögin þá gamaldags, heyri liðinni öld og eigi að víkja fyrir hrárri markaðshyggju síðustu ára?  Er það þá svo að samkeppni skuli vera ófrávíkjanleg regla; að aðferðin sé árangrinum mikilvægari?

Engu er líkara en að fréttamenn, margir hverjir, hafi aldrei hugleitt hvað þær skorður sem Mjólkursamsölunni eru settar í verðlagningu til varnar neytendum, þýði í rekstri fyrirtækisins. Hvað það þýði þegar fyrirtæki er gert að hlíta ströngum ákvæðum um verðlag og leyfilegan arð. Og síðan á hinn bóginn, hvort ekki sé augljóst að fyrirtæki sem er undanþegið slíkum kvöðum og getur jafnframt einhent sér á þá vörutegund sem mest gefur af sér,  búi við önnur, og að þessu leyti, hagstæðari rekstrarskilyrði?

Getur það verið að það breyti engu fyrir Neytendasamtökin ef á daginn kemur að það ákvæði Búvörulaga sem undanskilur tiltekna þætti í matvælaframleiðslu samkeppnislögum, hafi komið neytendum til góða?

Ég hélt að Neytendasamtökin væru fyrir neytendur en ekki neitendur, sem afneita kerfislægum ávinningi ef hann passar ekki inn í tiltekna stjórnmálakreddu.

Reyndar skal það sagt, að mér hefur fundist nýr formaður Neytendasamtakanna fara vel af stað og verið skeleggur og rökfastur þar til hann fann sér þetta hýði til að renna á í umræðunni um mjólkurvörur. 

Vonandi bregst honum ekki jafnvægislistin þegar fram í sækir. Það liggur mikið við að hafa kröftug Neytendasamtök í landinu. Um það erum við félagsmennirnir sammála og óskum nýrri forystu velfarnaðar.