Fara í efni

Eru karlar ekki tilbúnir að fórna völdum?

Drífa Snædal, ritari VG, skrifar mjög áhugaverða og vekjandi grein hér á síðuna í gær um kvennabaráttu. Hún setur þessa baráttu í sögulegt samhengi en hennar niðurstaða er sú, að þótt réttindabarátta kvenna hafi tekið breytingum í tímans rás, þá hafi hún ekki tekið eðlisbreytingu. "Sú andstaða sem við upplifum í dag", segir Drífa Snædal, "er sprottin af nákvæmlega sömu rótum og öll andstaða fyrri tíma – sumir karlar eru ekki tilbúnir til að fórna völdum til að kynjajafnrétti megi nást. Það er hins vegar nauðsynlegur fórnarkostnaður jafnréttis að karlar láti af hendi hluta af sínu peninga- og stjórnunarvaldi í hendur kvenna".
Það skal tekið undir með Drífu að vonadi næst aukið jafnræði með kynjunum á öllum sviðum þjóðlífsins og er ég sannfærður um að baráttusveit kvenna með kröftuga fulltrúa á borð við Drífu Snædal, eigi eftir að fá miklu áorkað á komandi árum. En það sama gildir um kvennabaráttuna eins og aðra jafnréttisbaráttu að ekkert gerist nema einhver standi vaktina.