Fara í efni

ERU EKKI ALLIR SÁTTIR NÚNA?

Málflutningur Framsóknarflokksins vekur sífellt meiri furðu hjá öllum þeim sem fylgjast með framgöngu hans. Ekki er nóg með að formaður flokksins, Halldór Ásgrímsson, sé ein hrópandi mótsögn við sjálfan sig nánast frá degi til dags, heldur er Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og bankamálaráðherra, ekki síðri formanninum í að tefla sjáfri sér upp í mótsögn við sjálfa sig. Í haust, um áramót og síðan aftur nú nýlega sagði hún að ekki væri þörf á neinum verðhækkunum í tengslum við kerfisbreytingar á raforkumarkaði. Síðan eru kerfisbreytingarnar framkvæmdar, verðið rýkur upp. Hvað segir Valgerður þá? Allir vissu að kerfisbreytingunum myndu fylgja miklar verðhækkanir. Hvernig á að bregðast við svona málflutningi? Hér reynir á fjölmiðlana. Nokkur óhugur er í mörgum vegna sigurgleði Framsóknar yfir brotthvarfi Róberts Marshalls af Stöð 2. Hann hafði nefnilega haft uppi viðleitni til að draga sannleikann fram í dagsljósið varðandi mótsagnakenndan málflutning núverandi forsætisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar í Íraksmálinu og aðdraganda þess að hann og Davíð Oddsson féllust á að láta sejta Ísland á lista vígfúsra ríkja. Slík rannsóknarfréttamennska hentar ekki Framsókn. Fréttastjóri Stöðvar 2 sagði ákvörðun Róberts að hverfa úr starfi hafa verið rétta. Vel má vera að rétt hafi verið hjá fréttamanninum að afhenda uppsögn sína en viðbrögð fréttastjórans voru hins vegar ekki rétt að mínu mati. Hann átti að leggja hart að fréttamanninum að hefja störf að nýju. Mistök hans voru mannleg og voru leiðrétt. Öðru máli hefði gegnt ef í frammi heðfu verið hafðar blekkingar af ásetningi. Framsókn tekur þetta hins vegar fegins hendi - er sátt og glöð - og reynir að láta líta svo út að málið sé nú til lykta leitt því það hafi í rauninni snúist um eina frétt á Stöð 2. Tilfinningaþrungin  og persónuleg afsökunarbeiðni Stöðvarinnar til forsætisráðherrans er túlkuð sem syndaaflausn!
Hvað hefði Sigríður Árnadóttir gert? Henni var nýlega sagt upp störfum sem fréttastjóra Stöðvar 2. Ekki hefur komið fram hvers vegna.
Eru eigendur Stöðvar 2 komnir með pólitískar krumlur í fréttastofuna varðandi mannahaldið? Við vitum að bæði Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur líta á fréttastofur sem mikilvæg valdatæki þar sem eðlilegt sé að þeir hafi sína spotta til að toga í.
Hvað sem því líður er ljóst að viðbrögð stjórnenda Stöðvar 2 kæta nú Framsókn. Það verður athyglisvert að fylgjast með því hvort fréttastofa Stöðvar 2 lyppast niður eða heldur áfram að reyna að upplýsa felumál Halldórs Ásgrímssonar gagnvart þingi og þjóð.