Fara í efni

ERU DRAUMAR ÓLA BJÖRNS AÐ RÆTAST?

oli bjorn karason
oli bjorn karason
Nýlega var ráðinn nýr borgarlæknir - framkvæmdastjóri lækningasviðs hjá Heilsugæslu Reykjavíkur mun starfið nú formlega heita.

Borgarlæknir vill einkarekstur

Hann heitir Oddur Steinarsson og er samkvæmt Pressunni/Eyjunni „ríflega fertugur heimilislæknir sem var í góðri stjórnunarstöðu sem yfirlæknir á heilsugæslustöð í Gautaborg í Svíþjóð, en ákvað að söðla um ásamt fjölskyldu sinni og flytja heim þrátt fyrir að kjörin væru umtalsvert lakari og vinnuumhverfið erfitt í íslenskri heilbrigðisþjónustu nú um stundir."
Af forvitni hlustaði ég á sjónvarpsviðtal sem Björn Ingi Hrafnsson átti við hinn nýja borgarlækni á Eyjunni (http://eyjan.pressan.is/frettir/2014/11/09/haetti-i-godri-stjornunarstodu-i-svithjod-og-sneri-heim-til-ad-verda-borgarlaeknir/ ) til að grafast fyrir um áherslur hans varðandi heilbrigðiskerfið. Oddur er eflaust hinn ágætasti maður og bauð hann af sér góðan þokka. En ég heyrði ekki betur en hann vildi halda inn á braut markaðsvæðingar með heilbrigðiskerfið - þar sem læknar störfuðu undir eftirliti Samkeppniseftirlitsins!

Er verið að ryðja stöðu landlæknis fyrir talsmann einkavæðingar?

Önnur lykilstaða hefur verið auglýst, það er staða landlæknis. Geir Gunnlaugsson hefur gegnt stöðunni í fimm ár og veit ég ekki betur en hann hafi staðið sig vel við óhemju erfiðar aðstæður í kjölfar hrunsins. Þess vegna velti ég því fyrir mér hvers vegna staða hans er auglýst til umsóknar.
Í blöðum má lesa að Birgir Jakobsson, sem hefur stjórnunarreynslu og komist til æðstu metorða  í sænska heilbrigðiskerfinu, þar á meðal í einkarekinni heilbrigðisþjónustu, sé á meðal umsækjenda. Eðlilegt er að spurt sé hvort mannaskipti í stjórn heilsugæslunnar í borginni (sem lýtur stjórn ríkisins) og hugsanleg ráðning talsmanns einkavæðingar í embætti landlæknis tengist áhuga á því að hafa í þessum embættum menn sem tala máli markaðsrekinnar heilbrigðisþjónustu.

Aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra vill einkavæða

Óli Björn Kárason, varaþingmaður og aðstoðarmaður núverandi heilbrigðisráðherra, skrifar af meira kappi en flestir menn um ágæti einkavædds heilbrigðiskerfis og er tónninn svipaður og hjá nýjum borgarlækni til dæmis varðandi heilsugæsluna.
Í grein sem birtist eftir Óla Björn í Morgunblaðinu sl. miðvikudag segir Óli Björn Kárason m.a.:
"Þótt lög komi ekki í veg fyrir að heimilislæknar stundi sjálfstæða starfsemi hefur fjárveitingavaldið og framkvæmd laga komið í veg fyrir aukna og betri þjónustu. Þess vegna eru þúsundir án heimilislæknis og vel menntaðir læknar eru neyddir til að gerast opinberir starfsmenn, nema þeir séu svo heppnir að fá starf hjá tveimur einkareknum heilsugæslustöðvum. Þrátt fyrir góða reynslu af einkarekstri í menntakerfinu ... og af einkarekstri í heilbrigðiskerfinu ...  virðist lítill áhugi á að efla einkaframtakið og það fremur gert tortryggilegt. Engu skiptir að meiri ánægja er með þjónustu einkaaðila en hins opinbera og það með minni tilkostnaði fyrir skattgreiðendur. Er nema von að komist sé að þeirri niðurstöðu að eitthvað sé verulega rotið í garði hins opinbera - ríkis og sveitarfélaga."

Nóg komið af sannleikanum?

Það er ekki rétt hjá Óla Birni Kárasyni að einkarekið heilbrigðiskerfi sé betra og ódýrara. Heilbrigðiskerfi sem raunverulega hefur verið einkavætt mismunar fólki og er kostnaðarasamara en almannakerfið. Um samanburð í þessum efnum eru til fjölmargar skýrslur sem m.a. landlæknisembættið hefur undir höndum og hefur í áranna rás komið á framfæri við þjóðina. Kannski þykir nýjum stjórnendum nóg komið af svo góðu!