Fara í efni

ERU ALLIR SJÁLFSTÆÐISMENN Á MÓTI RÍKISREKSTRI?

Fyrir nokkrum dögum velti ég vöngum yfir því hér á síðunni hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn skipaði iðulega menn til forráða í ríkisstofnunun sem sjálfir væru á móti ríkisrekstri. Stundum væri engu líkara en þeir væru settir til höfuðs þessum stofnunum og gerðu sitt til að grafa undan þeim. Lítið þótti mér leggjast fyrir þessa einstaklinga að taka við embættum sínum og vegtyllum þvert á sannfæringu og opinberar yfirlýsingar. Sitja nú af hálfu Sjálfstæðisflokksins tveir harðir frjálshyggjumenn Í Útvarpsráði, þeir Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson og Andri Óttarsson. Sá fyrrnefndi er sjálfur á kafi í fjárferstingabraski og gefur lítið fyrir opinberan rekstur nema að sjálfsögðu þegar það þjónar persónulegum hagsmunum hans. Andri er einnig á hægri kantinum og skrifar ákaft gegn ríkisrekstri, þar með talið Ríkisútvarpinu, m.a. á vefritinu deiglan.com þar sem hann er í ritstjórn. Eftirfarandi má lesa í grein sem birtist sem ritstjórnarpistill, og því á hans ábyrgð, á deiglunni.com. Greinin er málefnaleg og prýðileg fyrir hans hatt. Það sem ég hins vegar gagnrýni er að Sjálfstæðisflokkurinn komi til áhrifa í Ríkisútvarpinu mönnum sem vilja stofnunina feiga. Sú var tíðin að Sjálfstæðisflokkurinn var breiður flokkur sem rúmaði margbreytileg sjónarmið, einnig þeirra sem vilja að ríkið reki og eigi þjóðarútvarp. Finnur Sjálfstæðsflokkurinn enga einstaklinga innan sinna raða til að taka að sér að vera í forsvari og ábyrgð fyrir Ríkisútvarpið sem vilja þeirri stofnun vel?

Í greininni á deiglunni.com sem ber yfirskriftina Ríkisútvarp er tímaskekkja og er á ábyrgð útvarpsráðsmannsins Andra Óttarssonar segir m.a.: “En þar sem ríkisútvarpið er í eigu ríkisins og fjármagnað af nauðungargjöldum gilda önnur lögmál en í einkafyrirtækjum og því býður það heim þeirri hættu að ákvörðunarvaldið sé notað í þágu einhvers annars en stofnunarinnar, áhorfenda eða markaðarins. Framhjá þessu er ekki hægt að líta og því er hin eðlilegasta ályktun sem draga má í kjölfarið á látunum í kringum ráðningu nýs fréttastjóra sú að endurskoða eigi hvort ríkisvaldið eigi yfir höfuð að standa í rekstri fjölmiðla. Það er löngu orðið tímabært að ríkisvaldið dragi sig út af þeim samkeppnismarkaði eins og gert hefur verið víðar í atvinnulífinu með góðum árangri.”