Fara í efni

Er verið að venja börnin við?

Stjórnarformaður Íslandsspila, sem rekur spilakassa fyrir hönd Rauða kross Íslands, Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og SÁÁ, skrifaði grein í Morgunblaðið síðastliðinn sunnudag undir fyrirsögninni: “Löglegur og ábyrgur rekstur spilakassa”. Við þessa grein hef ég sitthvað að athuga. Í henni er reynt að réttlæta rekstur spilakassa og þeir gagnrýndir “sem hafa tengt vanda þeirra sem haldnir eru spilafíkn við spilakassana.” Ég tek þetta til mín því ég er í hópi þeirra sem tel að spilakassarnir og eigendur þeirra nærist fyrst og fremst á fólki sem borgar aleigu sína í þessa kassa. Ég tel það vera reist á óskhyggju einni saman, þótt hún sé góðra gjalda verð, að lýsa því yfir eins og stjórnarformaðurinn gerir í fyrrnefndri Morgunblaðsgrein, að að það sé skýr afstaða Íslandsspila að “það er ekki vilji félagsins að einstaklingar sem haldnir eru spilafíkn spili í kössum á þess vegum.”

Ég held að flestir geti verið sammála um að spilafíkn sé alvarlegt þjóðfélagsmein og einnig held ég að við hljótum að geta verið sammála um að  kappkosta beri að vernda börn og unglinga gagnvart þessari vá. Varla verður það gert með því að setja upp kassa á borð við þá sem er að finna í sundlaugunum í Laugardal. Í anddyrinu þar er að finna sölukassa sem líkjast spilakössum og er greinilega ætlað að höfða beint til barna. Þetta eru sölukassar eins og áður segir en sölumennskan gengur út á að börnin safni tilteknum fígúrum og ræður tilviljun ein hvað fellur í þeirra hlut hverju sinni. Markmiðið er að eignast allar fígúrurnar sem í boði eru. Þessir kassar eru merktir SÁÁ og veit ég ekki hvort Íslandsspil komi þar við sögu. Sú spurning sem upp úr stendur er hvort með þessu söluformi sé ekki  verið að venja börnin við spilakassa. Er þetta rétta leiðin til að byggja upp fólk, eins og staðhæft er á kössunum?