Fara í efni

ER TÍÐARANDINN NÆR TÖKUM Á RÉTTARKERFINU

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 28/29.10.23.
Vonandi fyrirgefur Haraldur Johannessen, fyrrum ríkislögreglustjóri, mér að segja hér frá fundi sem við tveir áttum fyrir löngu síðan. Haraldur var þá nýtekinn við sem ríkislögreglustjóri en ég var formaður BSRB, heildarsamtaka opinberra starfsmanna. Undir þeirri regnhlíf var Landsamband lögreglumanna.
Haraldur vildi hafa röð og reglu á hlutunum og að innan lögreglunnar ríktu öguð vinnubrögð. Ýmsir höfðu áhyggjur af því að aginn kynni að ganga of langt undir handarjaðri hins nýja stjóra. Þessar áhyggjur voru viðraðar við mig og ákvað ég að halda til fundar við nýskipaðan ríkislögreglustjóra.

Hann tók mér vel og þegar upp var staðið einnig málaleitan minni. “Þú vilt aga innan lögreglunnar”, hóf ég mál mitt, og bætti við að ég hefði heyrt þau rök hans að hlutverk hennar væri vandasamt og að þá grundvallarkröfu hlyti samfélagið að gera til lögreglunnar, að hún sýndi sjálfsaga og þeir sem ekki sýndu hann í verki yrðu að sæta aga.
Allt er þetta rétt eftir mér haft sagði lögreglustjóri sem nú greip orðið og spurði hvort það væri virkilega svo að ég væri þessu ósammála.

Ég kvað svo ekki vera, þvert á móti væri ég þessu sammála en þó með fyrirvara og væri ég með tillögu um hvernig ná mætti þessu fram svo að allir gætu vel við unað. “Tillagan er sú að þú framfylgir aganum en virðir jafnframt ábendingar Landsambands lögreglumanna og BSRB. Þar værir þú kominn með aðhald á sjálfan þig; vissu fyrir því að þú færir aldrei offari sem þú varla vilt.”
Þetta ræddum við svo nánar á fundi okkar og lærðum báðir af honum, ég og lögreglustjórinn, á þann hátt að skilja sjónarmið hvors annars og virða þau.

Þessi saga kemur oft upp í hugann sem eins konar dæmisaga og nú síðast þegar umræða um kynferðislofbeldi er enn og aftur á dagskrá sem að sjálfsögðu er vel. Eftirfarandi er samhengið:

Talsvert er um liðið frá því að menn fóru að hafa áhyggjur af þeim áhrifum sem ofbeldisfullir tölvuleikir kynnu að hafa á börn og unglinga. Nýlega hefur sú tilgáta verið sett fram að ofbeldisfullt klám sem færst hafi í aukana kunni að “normalisera” ofbeldi í nánum samskiptum kynjanna. Karlmenn væru farnir að líta á ofbeldi sem eðlilegt, þvert á það sem konur gerðu, enda væru þær almennt þolendur, karlarnir gerendur.
Fyrir stuttu mátti sjá umfjöllun í fjölmiðlum um kynbundið ofbeldi þar sem kona sagði frá því að nánast allar konur sem hún þekkti hefðu orðið fyrir kynferðisofbeldi en það merkilega væri að enginn karlmaður kannaðist við að vera ofbeldismaður.
Hverning á að lesa í þetta? Karlar vilji ekki kannast við eigin ofbeldishegðun; búið sé að gera ofbeldi eðlilegt í hugarheimi karla og þeir séu hættir að koma auga á það? Eða er hér alhæft um of, ofbeldi skilgreint of rúmt?

Hvað sem rétt er í þessu, þá er hitt óumdeilanlegt að kynbundið ofbeldi er staðreynd og ófá eru dæmin um slíka hrottafengna ofbeldisglæpi. Fyrir þá ber að refsa. En hvað um hina sem ómeðvitað meiða? Þarna hlýtur að vera eðlismunur á; munur sem þó virðist ekki vera viðurkenndur í réttarkefinu sem stendur. Svo kann hitt að gerast að menn séu hafðir fyrir rangri sök, jafnvel af ásetningi.

En nú fer málið líka að vandast. Ef það er rétt að í hugarheimi uppvaxandi karla sé sá skilningur að verða almennur að ofbeldi sé eðlilegt og jafnvel eftirsóknarvert þá þyrfti tvennt að koma til. Samfélagið beiti sér af alefli gegn ofbeldisefni af fyrrgreindu tagi og í annan stað hrundið verði af stokkunum upplýsinga- og uppeldisátaki sem gangi út á að uppræta ranghugmyndir.

Reyndar verður það að segjast að þjóðfélagið hefur á síðustu árum vaknað til vitundar um hve alvarlegir kynferðisglæpir eru. Það þýðir þá líka að dæmdir brotamenn eigi sér fáa málsvara, séu nánast útskúfaðir, missi iðulega vinnuna og eigi varla inngengt í þjóðfélagið að nýju. Um þetta eru mörg dæmi.

Það þarf ekki að hafa mörg orð um það hve örlagaríkt það er að réttarkerfið sé yfirvegað og vandað og að dómar í þessum málaflokki séu hafnir yfir vafa. Réttur meints fórnarlambs er ekki einn í húfi heldur einnig, og stundum ekki síður, réttur meints geranda. Fangelssidómur fyrir kynferðisbrot er nefnilega oftar en ekki lífstíðardómur.

Talsmaður ríkissaksóknaraembættisins sagði í full-fullyrðingasömu samtali við fréttamann nýlega að gerendur gerðu sér oft ekki grein fyrir hvað þeir hefðu gert af sér og vísaði sigri hrósandi í þunga dóma sem nýlega hefðu falllið.

En ég spyr, gerir réttarkerfið sér grein fyrir sinni ábyrgð, vita læknar sem kallaðir eru til sem sérfræðingar að þeir hafa nánast dómsvald á hendi, að þeir geti með álitsgerð dæmt menn til ærumissis til lífstíðar? Getur verið að árangurinn sem náðst hefur í því að breyta tíðarandanum hafi gert þennan sama tíðaranda um of ráðandi hjá rannsakendum og í réttarsal? Getur verið að kerfið geri sér ekki að fullu grein fyrir ábyrgð sinni, og getur verið að þar láti dómendur um of stjórnast af tíðarandanum og að fyrir bragðið séu réttarmorð tíðari en almennt er ætlað? Sjálfur veit ég um slík réttarmorð sem nánast halda fyrir mér vöku.

Ástæðan fyrir dæmisögunni frá fundi mínum með fyrrverandi ríkislögreglustjóra er að minna á mikilvægi jafnvægis sem aftur er forsenda réttlætis. Ég hef áhyggjur af því að það jafnvægi skorti.
Það er ekki endilega bara Geirfinnsmálið sem var ranglátt.