Fara í efni

ER ÞETTA ÞAÐ SEM KOMA SKAL: ÞRÖNG PÓLITÍSK HAGSMUNAGÆSLA ?

Páll Magnússon, útvarpsstjóri, skrifar í dag grein í Morgunblaðið þar sem hann blandar sér eina ferðina enn í pólitísk átök um framtíð Ríkisútvarpsins. Að mínu mati hafa allir rétt til að hafa skoðun og vissulega hefur Páll Magnússon rétt á því að hafa skoðun á þeirri stofnun sem honum hefur verið falið að stýra fyrir hönd okkar skattgreiðenda. Við gerum hins vegar þá kröfu á hendur honum að hann færi rök fyrir máli sínu og fari rétt með. Það gerir hann ekki í fyrrgreindri Morgunblaðsgrein sinni.
Páll víkur orðum að þeim sem hafa blandað sér í þessar umræður og gefur mönnum einkunnir, hælir í hástert þingmönnum Samfylkingarinnar sem hafa lýst sig fylgjandi hlutafélagavæðingu RÚV, þeim Ágústi Ólafi Ágústssyni, alþingismanni, Gunnari Svavarssyni þingmannsefni og þeim listamönnum sem komið hafa fram opinberlega til að styðja frumvarp ríkisstjórnarinnar, en rakkar aðra niður sem eru á öndverðum meiði.

Því málefnalegri – þeim mun verri útreið !

Versta útreið fær ritstjóri Fréttablaðsins, Þorsteinn Pálsson, sá maður sem að mínu mati hefur staðið fyrir vönduðustu og málefnalegustu umræðunni um þetta efni. Það er veikleikamerki hjá Páli Magnússyni, útvarpsstjóra RÚV að geta ekki tekist á við Þorstein með málefnalegum rökum heldur veitast að honum með útúrsnúningum. Grein útvarpsstjóra hefst með þessum orðum: "Fréttablaðið lemst enn um á hæl og hnakka í hagsmunagæslu fyrir eigendur sína þegar það fjallar um fyrirhugaðar breytingar á rekstrarformi Ríkisútvarpsins. Forystugreinar blaðsins um þetta mál eru orðnar fleiri en ég hef tölu á, en hafa því miður ekki batnað með fjöldanum. Æfingin skapar ekki alltaf meistarann. Það sem áður var til þess að gera hófstilltur málflutningur er nú orðið lítið annað en rakalausar og beinlínis rangar fullyrðingar…"  Ekki eru færð nokkur rök fyrir þessu nema hvað Páll telur að það sé rangt hjá Þorsteini að stjórnarfrumvarpið njóti lítils stuðnings í þjóðfélaginu. Hér vísar Páll Magnússon í skoðanakönnun frá því í haust: " Í nýlegri skoðanakönnun Gallup kemur í ljós að um 60% þjóðarinnar (af þeim sem tóku afstöðu) eru hlynnt breytingu RÚV í opinbert hlutafélag. Mjög mörgum virðist reyndar vera alveg sama um rekstrarformið."

Gengur sólin til viðar í kvöld?

Staðnæmumst ögn við hér. Í sumar gagnrýndi ég útvarpsstjóra fyrir það að misnota aðstöðu sína í sameiginlegu áróðursstríði hans og menntamálaráðherra fyrir hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins með umræddri skoðanakönnun og matreiðslu á henni. Það var nefnilega hann sjálfur sem stóð fyrir umræddri könnun og framsetning á henni var síðan fyrst og fremst til þess að skjóta stoðum undir hans málflutning. Gefið var til kynna að þegar væri búið að breyta RÚV í hlutafélag og jafnframt spurt hvort fólk væri ekki ánægt með þessa starfsemi. Jú, fólk reyndist ánægt með RÚV. Með öðrum orðum, gengið var út frá því sem gefnu að Ríkisútvarpið væri þegar orðið hlutafélag, rétt eins og reikna mætti með því að sólin gengi til viðar á kvöldin. Telur fólk líklegt að svo verði í kvöld? Að sjálfsögðu eru menn á því máli!
 HÉR er að finna frásögn af þessari könnun sem útvarpsstjóri, í blaðagrein sinni og menntamálaráðherra í þingsal, vísuðu til í dag, einsog vel æft áróðursdúó.

Ósannindi um starfsfólkið

Páll Magnússon, útvarpsstjóri segir það vera ótvíræðan vilja starfsmanna RÚV að hlutafélagavæða stofnunina. Þetta eru ósannindi. Það er að vísu rétt hjá honum að Starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins hafa óskað eftir því að breytingar yrðu gerðar á lögum um RÚV. Óskað hefur verið eftir slíkum breytingum um langan tíma. Stéttarsamtök starfsmanna hafa hins vegar harðlega mótmælt frumvarpi ríkisstjórnarinnar í ítarlegu og vel rökstuddu máli. Sjá m.a. HÉR.
Útvarpsstjóri nefnir nokkra listamenn sem styðja hann og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur í baráttu þeirra fyrir frumvarpi sem færir honum sjálfum alræðisvald yfir öllu mannahaldi og dagskrárgerð Ríkisútvarpsins! hann sleppir öllum hinum sem eru þessu ráðslagi andvígir. Hann getur heldur ekki um þá sem koma víðs vegar að úr þjóðfélaginu, sem hafa varað við þessu ráðslagi. Nefni ég þar þrjá fyrrverandi menntamálaráðherra sem sameiginlega skrifuðu grein í Morgunblaðið þessa efnis. Það voru þeir Ingvar Gíslason, Ragnar Arnalds og Sverrir Hermannsson.

Aldrei langt í taumnum

Ég endurtek að Páll Magnússon má að sjálfsögðu tjá sig um sínar skoðanir. En til hans eru gerðar kröfur. Mér þykir hann ekki rísa undir lágmarkskröfum sem gera þarf til útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins með Morgunblaðsgrein sinni í dag. Er þetta það sem koma skal í málflutningi frá RÚV o.h.f. ? Viljum við að þar ráði ríkjum harðpólitískur útvarpsstjóri ríkisstjórnarinnar?
Við skulum ekki gleyma því að ein megingagnrýnin á frumvarp ríkisstjórnarinnar er sú að yfir stofnunina er ætlunin að setja stjórn sem ríkisstjórnarmeirihlutinn kýs. Þessi stjórn skal kosin árlega þannig að aldrei verði langt í taumnum. Hin pólitíska stjórn ræður síðan (og rekur eftir atvikum) útvarpsstjórann, einvaldinn innan veggja RÚV. Er líklegt að þetta fyrirkomulag stuðli að yfirvegaðri og málefnalegri umfjöllun fréttamanna og dagskrárgerðarmanna RÚV o.h.f.? Vildi útvarpsstjóri ef til vill sýna fordæmi með skrifum sínum...