Fara í efni

ER SAMSTJÓRN ALLRA FLOKKA ÆSKILEG?

Athyglisvert  viðtal er við Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, í Fréttablaðinu. Þar er ýmislegt sagt sem ég get tekið undir.  Össur talar um þörf á þverpólitískri samvinnu um ýmis stórmál og nefnir Icesave sérstaklega sem  dæmi um þverpólitískt samstarf sem verið hafi til góðs. Þessu er ég tvímælalaust sammála og vil ganga lengra: Engin ríkisstjórn hefur leyfi til þess að leita ekki eftir þverpólitískri aðkomu að málum af þessari stærðargráðu sem varða þjóðarhag um ókominn tíma. Össur viðrar í framhaldinu þá hugmynd að þjóðstjórn gæti verið  heppileg við þær aðstæður sem við nú búum við.

Margt gott gæti vissulega hlotist af þessu fyrirkomulagi. Þetta gæti orðið til að frelsa þingið, stjórnmálaflokkana sem þar eru starfandi og einstaklinga þar innanborðs. Ég hef haldið því fram að ef einstakir þingmenn hættu að hugsa samkvæmt flokkspólitísku forriti og virkjuðu eigin dómgreind þá væri mikið unnið. Þjóðstjórnarfyrirkomulag - sem er háfleygt orð yfir samstjórn allra flokka - breytir því hins vegar ekki að um hugsjónir og stefnumál eru skiptar skoðanir á milli stjórnmálaflokka og hlýtur afstaða til grundvallarmála að skipta sköpum þegar ríkisstjórnir eru myndaðar.
Þess vegna verður að spyrja Össur í framhaldinu: Hvað er það sem samstjórn allra flokka  myndi gera sem þessi ríkisstjórn gæti ekki gert?

Myndi stífari löggjöf verða sett um almannaeign á auðlindum, sjávarauðlindinni, orkufyrirtækjunum, vatninu? Yrði þverpólitísk sátt um að markaðsvæða ekki velferðarkerfið? Yrði þverpólitísk sátt um jafnaðarstefnu í skattamálum og almannatryggingum? Gætum við myndað þverpólitíska sátt um að endurreisa ekki fjármálakerfið í sinni gömlu mynd? Eða er líklegt að samstaðan byggði á sátt um óbreytt ástand?

Í sumum þessum málum erum við, félagshyggjuflokkarnir, ekki að standa okkur sem skyldi. En myndi okkur vegna betur ef aðrir flokkar kæmu að þessu samstarfi? Samflokksmaður minn sagði í fréttaviðtali í dag að æskilegt gæti verið að styrkja stjórnarsamstarfið með aðkomu fleiri flokka að ríkisstjórn. Sjálfum hefur mér fundist Framsóknarflokkurinn koma til álita í slíku samstarfi og meira að segja talsmaður þess á árinu 2009. Framsóknarflokkurinn  virðist vera að ná rótfestu að nýju í samvinnuhugsjóninni og er það vel. Ekki fæ ég þó betur séð en álskrúfan sé enn á sínum stað og þar með stóriðjustefna sem megináhersla í atvinnumálum. Að pólitískum áherslum flokka þarf að hyggja áður en boðið er upp í dans.

Nú er það svo að þessi ríkisstjórn hefur meirihluta á Alþingi til að framfylgja höfuðstefnumálum sínum: Að endureisa íslenskt efnahagslíf á nýjum og réttlátari forsendum, að vernda samfélagið gegn ásælni fjármagnsafla, innlendra og erlendra, að starfa opið og lýðræðislega; í stuttu máli, að rísa undir sæmdarheitinu, norræn velferðarstjórn. 
Þegar ágreiningur hefur risið innan stjórnarliðsins hefur það verið þegar frávik hefur orðið frá þessum grundvallarstarefnumálum. Hugsanlega myndi aðkoma fleiri stjórnmálaflokka að ríkisstjórninni styrkja hana í sessi hvað höfðatölu snertir. En hvað myndi það þýða pólitískt? Myndu áherslurnar verða hinar sömu í velferðarmálum, skattamálum, auðlindmálum, atvinnumálum? Þetta hlýtur að vera sú spurning sem stjórnmálmenn þurfa að standa skil á gagnvart sjálfum sér og öðrum. Þetta er vert að ræða opið og málefnalega.