Fara í efni

ER SAMFYLKINGIN ORÐIN GALIN?


Ég hef alltaf vitað að Samfylkingin er ekki til að reiða sig á. Hún er hentistefnuflokkur sem gerir það sem auðveldast er hverju sinni. Spurning  vaknar hins vegar nú um dómgreind Samfylkingarinnar jafnvel út frá þessum þrönga sjónarhóli. Getur verið að það þjóni hentistefnuflokki að ganga eins langt og Samfylkingin gerir í svikum við kjósendur sína? Mig grunar nefnilega að handhafar hinnar háleitu stefnu um „Fagra Ísland" þar sem Samfylkingin lofaði í samnefndri stefnuyfirlýsingu stóriðjustoppi um stund, hafi nú gengið fram af æði mörgum kjósendum sínum.
Björgvin Sigurðsson, yfirlýstur andstæðingur virkjana við Þjórsá mætir nú til að taka skóflustungu að nýju álveri í Helguvík, sem þess vegna gæti verið knúið rafmagni frá nýrri Þjórsárvirkjun og iðnaðarráðherrann, Össur Skarphéðinsson, segir okkur að Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, hafi þagað þunnu hljóði þegar ákvörðun um álver á Bakka við Skjálfanda var til afgreiðslu á þingflokksfundi Samfylkingarinnar í vikunni!!!
Er allt hægt í íslenskum stjórnmálum? Ég hélt að hámarkinu væri náð þegar Condi Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, höfuðtalsmaður Íraksinnrásarinnar og Guantanamó pyntingabúðanna,  fékk skartgrip að gjöf frá formanni Samfylkingarinnar og kossaregn frá þeim Ingibjörgu Sólrúnu og Geir. Þá hélt ég sannast sagna að niðurlægingin gæti ekki orðið meiri. Samfylkingin fékk fylgi í síðustu kosningum m.a. vegna stefnuyfirlýsingar sinnar undir kjörorðinu „Fagra Ísland". Fyrirheitin um umhverfisvernd eru nú svikin einsog að drekka vatn. Ég spyr, hvaða umhverfis telur ráðherra umhverfismála sig vera að gæta? Stássstofu ríkisráðsfunda á Bessastöðum? Eru ráðherrastólar dýrmætari en náttúruperlur Íslands? Er Samfylkingin algerlega samviskulaus? Eða er hún orðin galin?