Fara í efni

Er Samfylkingin að læsa að sér?

Samhljómur var í yfirlýsingum Össurar Skarphéðinssonar formanns Samfylkingarinnar og Karls Th. Birgisssonar framkvæmdastjóra sama flokks í fjölmiðlum um helgina. Báðir virtust tala fyrir myndun stjórnar hægra megin við miðju, Samfylkingar og Framsóknar. Eitthvað þurfa menn að vísu að lappa upp á reikningskúnstir til að fá það til að ganga upp, en látum það vera, viljinn virtist vera þessi. Össur benti að vísu á að fram að kosningum myndu menn einbeita sér að því að safna fylgi um sinn málstað og láta stjórnarmyndunarhugleiðingar bíða betri tíma. Í ljósi þessa var sérkennileg sú ástleitni sem hann sýndi Framsóknarflokknum í sunnudagskaffinu hjá Kristjáni Þorvaldssyni á RÚV. Og í Silfri Egils hafði framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar allt á hornum sér þegar Vinstrihreyfinguna grænt framboð bar á góma. Hann sagði að mikil áhöld væru um hvort VG reyndist “stjórntækur” flokkur. Ekki fékk ég annað skilið á framkvæmdastjóra Samfylkingarinnar en að sá einn væri stjórntækur sem væri reiðubúinn að leggja til hliðar hugsjónir sínar og stefnu. Það er löngu tímabært að velferðarstjórn verði mynduð á Íslandi landi og þjóð til heilla. Slík stjórn verður ekki mynduð án aðildar VG. Að sjálfsögðu myndum við sækja fast á um jöfnun lífskjara og annað sem til framfara horfir enda engin hætta á að VG verði viðskila við hugsjónir sínar og stefnu. Ef menn eru ósáttir við þá stefnu er öllum frjálst að gagnrýna hana. Þeir sem vilja láta taka sig alvarlega hljóta hins vegar að tefla gagnrýni sinni á aðra stjórnmálaflokka fram með málefnalegum rökum en afgreiða þá ekki með sleggjudómum. Slíkt byggir á vanmætti og er ekki samboðið jafn kröftugum manni og Karli Th. Birgissyni. Sannast sagna stóð ég í þeirri trú að Samfylkingin vildi halda dyrum sínum opnum. Þess vegna er mér það hulin ráðgáta hvers vegna framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar gerist nú svo upptekinn við að læsa að sér.

22/10