Fara í efni

Er ríkisstjórnin að fara á taugum eða er hún bara á móti lýðræði?

Davíð er löngu hættur að koma á óvart. Líka Halldór. Þeir tveir eru eins útreiknanlegir og Baldur og Konni voru á sinni á tíð; mjög samrýmdir og töluðu alltaf einum rómi. Geir H. Haarde, fjármálaráðherra hefur hins vegar óneitanlega komið ögn á óvart. Fram til þessa hefur hann nefnilega yfirleitt komið fram af yfirvegun. Nú talar hann af offorsi fyrir takmörkun á rétti þjóðarinnar til að útkljá mál í þjóðaratkvæðagreiðslu. Geir kom fram í sjónvarpi í kvöld, miðaði og skaut – sjálfan sig beint í fótinn.

Geir H Haarde sagði að reisa þyrfti skorður við því að þjóðin gæti fellt úr gildi lög sem ríkisstjórn og þingmeirihluti hefði samþykkt; ríkisstjórn sem hefði verið kosin í eðlilegum kosningum. Þannig komst hann að orði. Hvað skyldu vera eðlilegar kosningar samkvæmt kokkabókum fjármálaráðherra? Það eru greinilega kosningar þar sem einfaldur meirihluti gildir. Það er vissulega hin almenna regla, til dæmis í Alþingiskosningum og geri ég ekki athugasemdir við það þótt sú ríkisstjórn sem komið hefur Geir H Haarde inn í fjármálaráuneytið hafi aðeins rúmlega 40% atkvæðisbærra manna í landinu á bak við sig.  Þetta eru hinar almennu reglur sem viðhafðar eru við kosningar. En ef varaformanni Sjálfstæðisflokksins finnst þetta vera það sem hann kallar eðlilegt fyrirkomulag, hvers vegna skyldi hann þá vilja óeðlilegar reglur fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu? Mér þætti fróðlegt að heyra svar fjármálaráðherra eða einhverra annarra forsvarsmanna þessarar ríkisstjórnar sem virðist nú eiga sér þann draum æðstan að takamarka lýðræði á Íslandi. Ég skal játa að ég á erfitt með að trúa mínum eigin eyrum þessa dagana. Getur það virkilega verið að við höfum yfir okkur ríkisstjórn sem beinlínis vinnur að því að skerða lýðræðisleg réttindi í landinu? Hin tilgátan væri óneitanlega heldur þægilegri, að stjórnin væri einfaldlega að fara á taugum. Svo er náttúrlega hitt til í dæminu, að hvort tveggja eigi við.