Fara í efni

ER MORGUNBLAÐIÐ AÐ FLYTJA AF LANDI BROTT?

Í Staksteinum Morgunblaðsins í dag er lagt út af grein, sem birtist í blaðinu í gær eftir Jón Bjarnason, alþingismann. Í þessari grein fjallaði þingmaðurinn um hina svokölluðu matvöruverðsnefnd, en sem kunnugt er skilaði formaður hennar séráliti um síðustu mánaðamót þegar í ljós kom að ekki tækist að ná samstöðu í nefndinni um þær hugmyndir sem formaðurinn virtist staðráðinn í að einar kæmu til greina.
Af skrifum og yfirlýsingum síðustu daga má ráða að formaður nefndarinnar, Hallgrímur Snorrason, hagstofustjóri, hafi átt samleið með Samtökum verslunar og þjónustu, ASÍ, Neytendasamtökunum, að ógleymdri ritstjórn Morgunblaðsins.
Landbúnaðarráðuneytið var hins vegar á öndverðum meiði, svo og Bændasamtökin, BSRB og fleiri.
Í yfirlýsingu frá BSRB af þessu tilefni, var hvatt til þess að menn freistuðu þess að ná samstöðu í þessu mikilvæga máli og í grein, sem ég fékk birta í Morgunblaðinu nýlega, sagði m.a.:  "Til þess að takast megi að ná því takmarki að færa matvælaverðið niður þarf að vanda til verkanna. Þörf er á samstilltu átaki af hálfu framleiðenda, neytenda, stjórnvalda og ekki síst söulaðila. Hér dugir því enginn einleikur. Krafa neytenda í garð bænda og annarra aðila að þessu ferli er að þeir sýni samstarfsvilja og séu opnir fyrir skynsamlegum og sanngjörnum lausnum. Á móti hljóta neytendur og þá ekki síst verkalýðshreyfingin að hvetja til þess að komið verði fram við bændur og samtök bænda á sama hátt og við viljum að komið sé fram við samtök launafólks; að sjónarmið þeirra séu virt þegar um lífskjör þeirra er að tefla. Á þessum forsendum hefur BSRB talað fyrir mikilvægi þess að ná þjóðarsátt um landbúnaðarmálin. Ef okkur tekst að beina umræðunni um matvælaverð inn í slíkan farveg mun koma í ljós, að því er ég hygg, að hagsmunir bænda og launafólks fara saman."
Í grein sinni hafði Jón Bjarnason vísað í afstöðu BSRB með þessum orðum: "Í yfirlýsingu þeirra er lögð áhersla á að verðið eitt skipti ekki öllu máli, einnig verði að horfa til gæða, hollustu og framleiðsluöryggis gagnvart neytendum. Þá verði að leggja áherslu á byggða- og búsetusjónarmið og vernda atvinnu fjölda fólks í tæknivæddum matvælaiðnaði."
Þetta varð síðan ritstjórn Morgunblaðsins tilefni til eftirfarandi orða: "Getur það ráðið einhverju um þessa afstöðu BSRB að þau samtök eru æfð í að leggja áherzlu á sérhagsmuni þeirra, sem þiggja laun sín frá skattgreiðendum, fremur en almenna hagsmuni skattgreiðenda í landinu?"
Hvað er Morgunblaðið að fara með þessari yfirlýsingu? Á hvern hátt getur það hugsanlega flokkast undir sérhagsmunagæslu að vilja tryggja sem allra best gæði þeirrar matvöru sem er á boðstólum í landinu? Er það ekki spurning um almannahagsmuni? Gildir ekki hið sama um áherslu BSRB á hollustu og framleiðsluöryggi?  Er það ekki spurning um almannahag? Og hvað með byggðasjónarmið og atvinnuöryggi fólks sem starfar í landbúnaði og tengdum greinum; er svo komið á Íslandi, að ekki megi lengur minnast á slíkt án þess að vera sakaður um ámælisvert hagsmunatal og að ganga erinda sérhagsmuna?
Frést hefur að Morgunblaðið sé að flytja höfuðskrifstofur sínar. Af þessum skrifum blaðsins mætti halda að ritstjórnin væri að flytja af landi brott og hefði sagt sig úr lögum við landsmenn – alla vega þá sem tala fyrir hollustufæði, matvælaöryggi, jafnvægi í byggð landsins og atvinnuöryggi.
Ég er sannfærður um að almennt gera lesendur Morgunblaðsins meiri kröfur en svo til ritstjórnargreina blaðsins, að þeir telji að þessi Staksteinaskrif hafi staðist lágmarkskröfur um boðlega umræðu.  

Staksteinar Morgunblaðsins í dag:
Jón Bjarnason, alþingismaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, er í sömu sporum og Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra; hann skilur ekki að forysta Alþýðusambands Íslands skuli taka heildarhagsmuni og langtímasjónarmið fram yfir sérhagsmuni og skammtímasjónarmið.

Jón skrifar grein í Morgunblaðið í gær, þar sem hann fjallar um störf matvælaverðsnefndar forsætisráðherra, en þar mæltu bæði Samtök verzlunar og þjónustu og Alþýðusambandið með afnámi tolla á innfluttar landbúnaðarvörur.

Jón skilur afstöðu kapítalistanna í SVÞ; segir að afstaða þeirra sé "skiljanleg út frá þröngum sjónarmiðum Samtaka verslunar og þjónustu sem í fákeppnisumhverfi sjá fram á aukinn sjálftökugróða".

En ekkert botnar þingmaðurinn í verkalýðshreyfingunni: "Erfiðara er að skilja viðhorf ASÍ en innan þeirra samtaka er einmitt fjöldi fólks sem á atvinnu sína, búsetu og eignaverð undir því að matvælaiðnaðurinn haldist í landinu og nái að þróast og dafna frekar en hitt."

Getur verið að ASÍ hafi í huga að matvælaverð í landinu lækki til frambúðar og komi þannig öllu launafólki til góða, fremur en að samtökin vilji standa vörð um sérhagsmuni lítils hluta félagsmanna sinna? Og kannski hefur ASÍ meira að segja trú á að matvælaiðnaðurinn þróist frekar og dafni í frjálsu samkeppnisumhverfi, án ríkisstyrkja og tollverndar.

Jón Bjarnason á miklu betra með að botna í BSRB: "Í yfirlýsingu þeirra er lögð áhersla á að verðið eitt skipti ekki öllu máli, einnig verði að horfa til gæða, hollustu og framleiðsluöryggis gagnvart neytendum. Þá verði að leggja áherslu á byggða- og búsetusjónarmið og vernda atvinnu fjölda fólks í tæknivæddum matvælaiðnaði."

Getur það ráðið einhverju um þessa afstöðu BSRB að þau samtök eru æfð í að leggja áherzlu á sérhagsmuni þeirra, sem þiggja laun sín frá skattgreiðendum, fremur en almenna hagsmuni skattgreiðenda í landinu?