Fara í efni

Er ekki rétt að láta menn njóta sannmælis - jafnvel þótt NATÓ eigi í hlut?

Hvers vegna skyldi þinglokksformaður Sjálfstæðisflokksins sjá ástæðu til að opinbera í sífellu skoðanir sínar um Afganistan,  augljósa fordóma og talsverða vanþekkingu? Í dag skrifar hann eftirfarandi á heimasíðu sína www.ekg.is
 : "Ögmundur Jónasson var einn þeirra sem ekki vildi steypa af stóli ógnarstjórn Talíbana í Afghanistan, sem þó veitti Osama bin laden og hryðjuverkamönnum hans skjól. Margir muna hvernig þingmaðurinn og flokkur hans skipuðu sér einarðlega í þessa einmanna sveit. Sem betur fer réðu þeir ekki. Heimurinn er laus við Talíbanastjórnina og nú stendur heimsbyggðin, í nafni Sameinuðu þjóðanna fyrir því að endurreisa þjóðfélagið í Afghanistan úr efnahagslegum og pólitískum rústum. Afstaðnar eru vel heppnaðar kosningar og þó næg vandræði séu enn til staðar miðar ýmsu líka vel á veg. Forsenda þess er starfsemi friðargæslusveitanna, sem við Íslendingar eigum aðild að með stjórn flugvallarins í Kabúl. Ögmundur reynir sitt ítrasta til að kasta rýrð á þetta starf. Kallaði það að hreinsa til eftir Bandaríkjamenn, í sjónvarpþætti með mér í gærkvöldi og er svo við svipað heygarðshorn á heimasíðu sinni. Rétt er það. Hefðu menn hlítt ráðum Ögmundar Jónassonar hefði ekki þurft að kalla út fólk til friðargæslu eða uppbyggingarstarfa í Afghanistan. Herrarnir Omar og Osama bin Laden væru þá nefnilega enn við völd og gætu enn gengið litt áreittir til óhæfuverka sinna."

Ástæðan fyrir því að ég sé ástæðu til að taka þetta upp er sú að þrátt fyrir allt ber ég nokkra virðingu fyrir Einari K. Guðfinnssyni og vil því sýna honum þá virðingu að svara honum.

Það er rangt hjá honum að ég sé að kasta rýrð á starf Íslendinga í Kabúl. Ég hef jafnan tekið það skýrt fram að Íslendingarnir sem þar starfa við stjórn flugvallarins, hafi að dómi allra þeirra sem ég hef heyrt til, staðið sig mjög vel. Ég hef hins vegar gagnrýnt að við bindum trúss okkar við Bandaríkjastjórn og NATÓ. Flugumferðarstjórn er verulega nytsamt og verðugt  verkefni en ég hef spurt hvort það þurfi ævinlega að vera verkefni sem tengt er hernaði NATÓ og Bandaríkjanna sem við tökum á okkar herðar? Ég er síður en svo andvígur því að við sinnum friðargæslustarfi, og  hef í því sambandi nefnt framlag okkar á Sri Lanka. Þar eru nú íslenskir friðargæslumenn sem starfa í samvinnu við Norðmenn að því að vinna að framgangi friðarsáttmála á milli þarlendra stjórnvalda og tamílskra skæruliða sem átt hafa í blóðugu stríði um langt árabil.

Meintan stuðning minn við ógnarstjórn Talibana vísa ég til föðurhúsanna og hvet menn til að lesa það sem ég hef skrifað um það efni. Í þessu sambandi vil ég spyrja þingflokksformann Sjálfstæðisflokksins hvort ekki sé rétt að láta menn njóta sannmælis – jafnvel þótt menn séu á öndverðum meiði í stjórnmálum - og jafnvel þótt NATÓ eigi í hlut?